Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:33:14 (1205)



[15:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. ræðumönnum fyrir hlýjan hug þeirra í garð ríkissjóðs og þakka þeim fyrir skilning á stefnu ríkisstjórnarinnar við að halda vöxtum niðri.
    Í fyrsta lagi vil ég endurtaka það sem fram hefur komið og enginn hefur mótmælt í þessari umræðu að sjálfsögðu og það er að gengi íslensku krónunnar er ákaflega sterkt um þessar mundir og hefur heldur styrkst undanfarnar vikur.
    Í öðru lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að það komi fram þegar litið er til þjóðarinnar í heild að íslenska þjóðin er að greiða niður erlendar skuldir sínar jafnvel þótt ríkissjóður sem slíkur þurfi um tímabundin skeið að taka erlend lán, þá hefur það gerst á móti og það er það sem er mikilvægt í þessu, að innlendir aðilar sem ella hefðu tekið lán erlendis taka nú lán á innlendum verðbréfamarkaði og hafa að undanförnu tekið lán að upphæð 7--8 milljarða kr. Þetta eru aðilar eins og opinberir sjóðir, opinber fyrirtæki ýmiss konar og fyrirtæki, sem starfa hér á landi, eru sterk og vilja ekki borga þá vexti sem er boðið upp á í lánastofnunum. Þetta vil ég að komi sérstaklega fram.
    Í þriðja lagi vil ég benda á að lánamál ríkisins hafa þróast mjög eðlilega og ástæðan fyrir því er óskaplega einföld. Hún er sú að ríkisfjármálin í ár eru með svipuðum hætti og gert var ráð fyrir í fjárlögum og lánsfjárlögum yfirstandandi árs. Að öllu samanlögðu kemur í ljós að það er engin ástæða til þess að óttast að vaxtaþróun hér á landi eða þróun lánamála ríkisins sé með þeim hætti að menn þurfi að hafa áhyggjur af því. Aldeilis þvert á móti hafa hlutirnir gengið þannig til eins og gert var ráð fyrir í upphafi

jafnvel þótt það skakki einum eða tveimur milljörðum sem ég hef þegar gefið hér eðlilegar skýringar á.
    Loks, virðulegi forseti, hefur áður verið rætt um það að við getum auðvitað búist við einhverjum sveiflum í vöxtum, ekki síst á skammtímamarkaði, m.a. vegna þess að íslenski lánsfjármarkaðurinn er ekki lengur og verður ekki lengur jafneinangraður og hann var á sínum tíma. Til lengri tíma litið mun það fyrst og fremst hjálpa okkur Íslendingum vegna þess að þetta hefur tilhneigingu til að halda vöxtunum niðri en ekki uppi eins og flestir vita.