Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:47:08 (1210)



[15:47]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er mjög stórt mál á ferðinni. Ég veit ekki hvort þingmenn átta sig allir á því að það er búið að bíða og bíða eftir ákvörðun frá framkvæmdarvaldinu, forsrh., sem á sínum tíma gaf ákveðin fyrirheit. Það er búið tala og tala og tala en það er ekkert gert.
    Ef ég skildi hæstv. forsrh. rétt þá er þetta enn þá á hugmyndastigi, það hefur engin ákvörðun verið tekin um það að fara út í þessar framkvæmdir. Hins vegar er Vegagerðin búin að bjóða út fyrsta áfanga að byggingu mislægra gatnamóta á gatnamótum Vesturlandsvegar og Höfðabakka og verktakar bíða og verktakar eru mjög uggandi og borgaryfirvöld eru mjög uggandi vegna atvinnuástandsins sem fram undan er í Reykjavík. Þannig að það er mjög mikilvægt að það verði ekki beðið lengur eftir ákvörðun um að hefja þessar framkvæmdir. Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. þá hefur Reykjavík og höfuðborgarsvæðið borið mjög skarðan hlut frá borði þegar vegafé á í hlut, þannig að það er mjög brýnt að við fáum ákvörðun um að hefja þessar framkvæmdir og það sem fyrst.