Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:48:27 (1211)



[15:48]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir að taka þetta mál upp. Satt að segja er það til skammar hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Það hefur verið í lausu lofti mjög lengi. Það er búið að bjóða út framkvæmdir og verktakar hafa beðið langtímum saman eftir að fá niðurstöðu mála og borgaryfirvöld sömuleiðis og ég heyri ekki betur en staðan sé enn þá þannig, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hafi í raun og veru ekki verið teknar ákvarðanir í þessu efni heldur svífi hlutirnir enn þá í lausu lofti. Ég tel þess vegna ástæðu til þess að hvetja hæstv. forsrh. til að knýja fram afdráttarlausa og endanlega niðurstöðu í þessu máli allra næstu daga vegna þess að í raun og veru má engan tíma missa með tilliti til þess framkvæmdatíma sem við höfum hér í landinu. Þessi fyrirspurn staðfestir auðvitað, hæstv. forseti, það sem áður hefur verið sagt í þessum ræðustól, en ekki mjög oft, að það er nauðsynlegt að fara sérstaklega yfir samgöngumál þéttbýlissvæðisins mikið betur í þessari stofnun en gert hefur verið nokkurn tíma áður.