Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:58:00 (1218)


[15:58]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og öðrum hv. þm. fyrir þátttöku í þessum umræðum. En vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég segja þetta: Brýn þörf landsbyggðarinnar fyrir bættum samgöngum hefur haft forgang um langt skeið og þingmenn Reykv. hafa viðurkennt nauðsynlegan forgang hinna dreifðu byggða. En nú er svo komið að höfuðborgarsvæðið getur ekki lengur búið við það ástand í vegamálum sem við blasir. Sannleikurinn er sá að yfirmönnum vegamála í Reykjavík er löngu ljóst að í óefni stefnir í umferðarmálum í höfuðborginni verði ekki til einhverra ráða gripið. Til stendur að byggja íbúðahverfi við Korpúlfsstaði og fyrir ofan Vesturlandsveg og þá eykst umferðarþungi í austurhluta borgarinnar verulega. Því er spáð af þeim sem best þekkja til að árið 2008 verði hreint neyðarástand á þeim götum sem árið 1991 var meiri umferð á en sem nemur 70% af flutningsgetu gatnanna. Nú þegar búa menn við umferðaröngþveiti í umferðaræðum, t.d. frá Grafarvogsbyggðinni, versni færi hið minnsta og það gildir um fleiri svæði í höfuðborginni.
    Það er nú svo að í borgarstjóratíð núv. hæstv. forsrh. var ekki mikið lagt upp úr því að hafa samband við þingmenn Reykv. og kannski gætum við viðurkennt að við höfðum of lítið samband okkar á milli og ýmsar framkvæmdir látnar ganga fyrir í höfuðborginni framar vegamálum, svo sem ráðhússbygging og perlubygging og hvað þetta hét nú allt saman og hefði verið nær að líta á gatnakerfi borgarinnar.
    En ég býst við að tími minn sé þrotinn. Í bréfi frá Vegagerðinni, undirritað af Jóni Rögnvaldssyni aðstoðarvegamálastjóra, sem dagsett er í dag, segir svo:
    ,,Vegna fyrirspurnar þinnar um viðbótarfé til vegagerðar skal upplýst að Vegagerðinni er ekki kunnugt um hvort það mál hafi fengið endanlega ákvörðun.``
    Nú tilkynnir hæstv. forsrh. að skyndifundur hafi verið haldinn og ég vænti þess að fyrirspurn mín hafi komið hreyfingu á málið. En mér gefst því miður ekki tími, frú forseti, til þess að rekja það frekar hversu mikil þörf er á umbótum hér í Reykjavík og okkur þykir náttúrlega það sem nú virðist vera í boði harla lítið miðað við það sem auglýst var í september sl.