Skráning nafna í þjóðskrá

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:02:32 (1220)


[16:02]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fsp. á þskj. 78 til hæstv. forsrh. um skráningu nafna í þjóðskrá. Fyrirspurnin er, eins og hæstv. forseti gat um, flutt af varaþingmanni Sjálfstfl., Hjálmari Jónssyni.
    Í gögnum sem ég hef undir höndum kemur fram að umboðsmaður Alþingis hefur ritað Hagstofu Íslands að eigin frumkvæði og óskað eftir upplýsingum um hvort dæmi séu þess að einstaklingar séu ekki skráðir fullu nafni í þjóðskrá. Ef svo er þá leitar hann skýringa á ástæðum þess.
    Í bréfi frá Hagstofu Íslands kemur fram að nokkur brögð eru að þessu og til þess liggja einkum tvær ástæður.
    Í fyrsta lagi að rými á gataspjöldum hafi verið takmarkað við 23 stafi og í öðru lagi að menn hafi ekki alltaf gefið upp fullt nafn sitt þegar þeir tilkynna sig í þjóðskrá og að talsverð brögð hafi verið að því við stofnun þjóðskrárinnar að þeir væru ekki skráðir fullu nafni.
    Í niðurstöðum Hagstofunnar í þessu bréfi segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nokkur brögð eru að því að einstaklingar séu ekki skráðir fullu nafni í þjóðskrá, hve mikil veit Hagstofan ekki og álítur það í raun ekki sérstaklega áhugavert.``
    Í þessum orðum kemur fram að Hagstofan telur þetta ekki merkilegt mál. En fyrir því er þessi fyrirspurn flutt og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    1. Er það ekki andstætt lögum um jafnan rétt manna að takmarkað og ófullkomið tölvukerfi hjá þjóðskrá Hagstofu Íslands ráði því hvernig nöfn manna eru rituð í opinberum skrám og gögnum, svo og hvernig menn skulu tjá nafn sitt?
    2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingu á tölvukerfi Hagstofunnar í þá veru að landsmönnum verði ekki mismunað með þessum hætti?
    3. Hvað kostar að gera slíka breytingu?