Mengun af völdum erlendra skipa

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:14:02 (1224)


[16:14]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Petrína Baldursdóttir hefur beint til mín tveimur spurningum. Að því er varðar fyrri spurninguna þá er það svo að frá árinu 1975 hafa orðið hér við land alls tólf mengunaróhöpp sem má rekja beinlínis til skipaferða við landið. Í þessum mengunaróhöppum hefur orðið nokkur olíumengun eða önnur sýnileg mengun, t.d. veruleg lýsismengun í einu tilviki. Þessir atburðir áttu sér stað með þeim hætti að skipin hafa ýmist sokkið, strandað eða rekist á og það síðar leitt af sér mengun. Þau atvik eða óhöpp sem tengjast skipum undir stjórn íslenskra skipstjórnarmanna eru á þessu tímabili fjögur, en þau sem tengjast skipum undir stjórn erlendra skipstjórnarmanna eru átta eða tæp 67% af heildinni. Þannig að það er engum blöðum um það að fletta að hlutfall óhappa sem tengjast skipum sem eru undir stjórn erlendra skipstjórnarmanna er miklu hærra heldur en það sem tengist skipum sem eru undir stjórn innlendra skipstjórnarmanna. Það má líka nefna að á sama tímabili hafa strandað eða farist hér við land alls

sex önnur erlend skip þar sem tókst að koma í veg fyrir eða varð ekki vart sýnilegrar mengunar. Það má líka nefna það að á sama tímabili fórust eða strönduðu hér við land 98 íslensk skip. Stærsti hlutinn voru lítil fiskiskip þar sem varð ekki heldur nein mengun. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að mun hærra hlutfall mengunaróhappa má rekja til skipa sem eru undir stjórn erlendra manna en innlendra.
    Að því er varðar seinni spurninguna sem lýtur að því hvort ráðherra telji þörf á því að setja sérstakar reglur um för erlendra skipa hér við land til þess að draga úr líkum á slíkum mengunaróhöppum þá er það svo að í nýlegum lögum um leiðsögn skipa er gert ráð fyrir því að leiðsögumaður verði um borð í öllum skipum með erlendum skipstjórnarmönnum ef skipið flytur meira magn hættulegra efna en tiltekið er í reglugerð. Ég segi það, virðulegi forseti, að ég tel brýnt að þessi reglugerðarheimild verði nýtt og hugað að því vegna hættu á olíumengun frá eldsneytisbirgðum skipanna að ganga jafnvel lengra í þessa átt.
    Hv. þm. varpar einnig til mín óskum um að ég svari því hvort ég telji nauðsynlegt að koma á fót sjóði til þess að kosta hreinsun eða úrbætur þegar mengunaróhöpp verða. Því er til að svara, virðulegi forseti, að ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt. Má raunar benda á það að í frv. um meginreglur umhverfisréttar sem ég lagði fram til kynningar sem stjórnarfrumvarp á síðasta löggjafarþingi var gert ráð fyrir því að slíkur sjóður yrði settur á stofn. Ég hef í hyggju að endurflytja þetta frv. og þar eru áfram ákvæði um sérstakan mengunarbótasjóð þar sem gert er ráð fyrir því að hann muni standa straum af greiðslu og kostnaði við hreinsun og aðrar framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að draga úr afleiðingum slíkra óhappa en þó einungis þegar fullreynt er að ekki er hægt að fá aðra aðila til þess að greiða viðkomandi kostnað.
    Ég minni á það, eins og hv. þm. Petrína Baldursdóttir gat um í sinni framsögu fyrir fyrirspurninni, að það eru þegar dæmi sem undirstrika nauðsyn á slíkum sjóði. Það er skemmst að minnast strands danska skipsins Eriks Boye í innsiglingunni að Breiðdalsvík 1992. Þá skapaðist mengunarhætta sem leiddi til þess að sveitarfélagið varð að grípa til aðgerða sem kostuðu talsvert háar fjárhæðir sem því hefur ekki enn tekist að innheimta hjá þeim erlendu aðilum sem ábyrgir voru.