Förgun framköllunarvökva

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:22:30 (1227)

[16:22]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Spilliefni ef mannavöldum í náttúrunni er vaxandi vandamál og þau valda röskun á dýralífi og gróðri, jafnt í sjó sem og á landi. Oft hefur verið bent á vandamál sem stafa af rafgeymum sem fleygt er á víðavangi. Það stafar e.t.v. að hluta af háu skilagjaldi sem fyrirtækjum er gert að greiða Sorpu við förgun þeirra og væri það mál vafalaust fullt efni í sérstaka umræðu.
    Skýrslur hafa leitt í ljós að skeldýr og önnur botndýr eru að úrkynjast í sjónum umhverfis höfuðborgina og er kennt um eiturefnum í botnfarfa smábáta sem notuð hafa verið á undanförnum árum.
    Á sama tíma liggja fyrir niðurstöður, staðfestar af umhvrh. sjálfum, þess efnis að fyrir einu ári skiluðu sér einungis um 20% til förgunar af þeim 300 þús. lítrum af framköllunarvökva sem notaðir eru en í honum eru mörg skaðleg efni fyrir lífríkið. Reyndar telja margir að 300 þús. sé of lág tala og væri nær að tala um 400 þús. lítra sem notaðir eru af þessum efnum.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum þekkist það hjá allmörgum fyrirtækjum, jafnvel opinberum fyrirtækjum, að tengja framköllunarvélar beint við frárennsli og þannig fer förgun fram á hinn einfaldasta máta en er tæpast hagstætt umhverfinu eða náttúrunni umhverfis okkur. Svo virðist sem umhvrh. hafi verið gerð grein fyrir þessum málum fyrir meira en ári. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. umhvrh. á þskj. 150, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1.  Hvernig er háttað eftirliti með förgun framköllunarvökva?
    2. Hversu mikið er talið að falli til af þessum efnum árlega og hve mikið af því kemur til förgunar?
    3. Er ráðherra kunnugt um dæmi þess að framköllunarvökvi fari beint í holræsi hjá einstökum fyrirtækjum?
    4. Eru fyrirhugaðar aðgerðir til úrbóta á þessu sviði á næstunni?``