Förgun framköllunarvökva

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:32:18 (1230)


[16:32]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegur forseti. Síðastur manna skal ég verða til að halda því fram að eftirlitið sé nægilega gott, það er það ekki. En það stafar af því að hér er í rauninni um nýjan hlut að ræða. Eftirlitið hefur hins vegar farið stórbatnandi á síðustu árum alveg eins og þær tölur sem við skiptumst hér á í upphafi máls okkar, ég og hv. fyrirspyrjandi, sýna fram á. Skilin hafa aukist verulega eins og ég gat um áðan. Allt síðasta ár voru skilin 81,5 tonn og er gert ráð fyrir að á þessu ári þá stefni skilin í 180 tonn. Hér er um að ræða verulega aukningu og ég fullyrði það vegna þess hversu skammt við Íslendingar erum á veg komnir í skilum og eyðingu spilliefna þá er miklu betri árangur á þessu sviði heldur en mörgum öðrum. Það stafar fyrst og fremst af því að þar hafa haldist í hendur áhugi þeirra starfsmanna hins opinbera sem um þetta véla en líka áhugi hjá greininni í heild.
    Það er svo að það eru ýmsar ástæður fyrir því að þetta er ekki komið alveg í nægilega gott horf.
    Í fyrsta lagi þá þurfa nú framköllunarstofur starfsleyfi. Það er ekki búið að vinna starfsleyfin fyrir allar framköllunarstofur, það mál er í vinnslu, þetta á einkum við um þær sem eru fyrir utan höfuðborgsvæðið.
    Í öðru lagi þá hefur mengunareftirlit í ýmsum sveitarfélögum ekki verið nægilega virkt til að ganga eftir því að fyrirtækin skili framköllunarvökva og raunar öðrum spilliefnum líka til móttökustöðva. Þetta fer hins vegar mjög batnandi.
    Í þriðja lagi eins og ég gat um, virðulegi forseti, þá er ekki komin aðstaða hjá öllum sveitarfélögum til að taka á móti spilliefnum á viðeigandi hátt. Þetta horfir líka til verulegra bóta vegna þess að það er verið að opna og koma upp fleiri móttökustöðvum.
    Í fjórða lagi, og það skiptir verulega miklu máli, hefur kostnaður við förgun framköllunarefna hefur verið hár, það hár að það hefur því miður virkað letjandi á fyrirtækin að skila efnunum til móttökustöðva. Það kerfi sem við erum að leggja til að verði tekið upp með því frv. sem ég ræddi um hér áðan breytir þessu talsvert að því leyti að þá er gjaldið lagt á í upphafi ferilsins þegar efnin eru flutt inn í landið.
    Ég vil líka, virðulegur forseti, að lokum geta þess að það kom upp samkeppni í förgun þessara efna og það hefur leitt til þess að verðið hefur lækkað. Jafnframt erum við með ýmsar leiðir í þróun til að koma upp fleiri stöðvum og fleiri aðferðum til að granda þessum efnum og það mun leiða til þess að kostnaðurinn lækkar enn meir og það mun aftur valda því að skilin munu aukast.