Áhrif EES-samningsins á forsendur fjárlaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:46:18 (1234)


[16:46]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef svo sem ekki miklu að bæta við það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði. Það vekur athygli hversu fáir taka þátt í þessari umræðu. Sannleikurinn er sá að fólk botnar ekki upp eða niður í þessu máli. Það liggur fyrir að við erum búin að eyða í pappírsfargan, ferðalög og annað stúss, 801 millj kr. Hæstv. forsrh. var að lofa 700 millj. árlega í vegaframkvæmdir á þrem næstu árum. Það hefði verið gott að hafa þessar 800 til að leggja þar við. Eða þær hefðu getað komið í staðinn fyrir hluta af því sem allt í einu var hrist fram úr erminni.
    Aðalatriðið er auðvitað að það er engin leið að sjá neinn ávinning af þessum ágæta samningi. Batnandi hagur Evrópuþjóða hefði auðvitað verkað á útflutning á Íslandi þótt við hefðum ekki verið aðilar að neinum samningi. Það leiðir af sjálfu að því betur sem gengur í viðskiptalöndum okkar þeim mun meiri vonir eru um góð viðskipti. Ég held því að þetta sé meira en óljóst svar.
    Það er síðan, virðulegur forseti, undarlegt að á hinu háa Alþingi skuli ekkert vera rætt um framtíð EES-samningsins. Þegar við komum suður fyrir Alpafjöllin hafa menn áhyggjur af þeirri framtíð. Ekki alls fyrir löngu átti EFTA- og EES-nefndin fundi suður í Bern í Sviss með Svisslendingum og fólki frá Liechtenstein þar sem verið var að velta fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta yrði ef Noregur, Svíþjóð og Finnland ganga öll í Evrópubandalagið. Þar drógu menn enga dul á að þetta yrði mjög erfitt. Öll eru þau mál óljós í meira lagi. En það er eins og menn telji sig góða að hafa barið þennan samning í gegn. Síðan virðist ekki hafa verið litið ofan í reglugerðir sem samdar hafa verið vegna hans. Ég er raunar með tvær fyrirspurnir, sem ég vona að verði svarað fljótlega af hæstv. umhvrh., þar sem í ljós hefur komið að menn hafa ekkert athugað hvað stendur í þessum reglugerðum.