Skattfrelsi leigutekna af íbúðarhúsnæði

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:51:21 (1236)


[16:51]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Í maí sl. var samþykkt löggjöf um húsaleigubætur sem taka á gildi um næstu áramót. Að þessu hafði verið unnið um hríð af hálfu sumra stjórnmálaflokkanna eins og Alþb. og hagsmunasamtaka verkalýðshreyfingarinnar svo einhverjir séu nefndir. Á það hafði ævinlega verið lögð rík áhersla að í tengslum við þessa lagasetningu yrði þess gætt að húsaleigubætur skiluðu sér til þeirra sem bæturnar væru ætlaðar. Menn hafa réttilega bent á að veruleg hætta væri á því ef bæturnar yrðu teknar upp að óbreyttu að leigusalar mundu svara þeim með því að hækka húsaleiguna og í reynd yrði því niðurstaðan þannig að bæturnar rynnu til leigusala en ekki til leigutaka eins og ætlunin er.
    Það kom fram í umsögnum um lagafrv. á sínum tíma, m.a. í umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, að endurskoða þurfi ákvæði um skattlagningu leigutekna af íbúarhúsnæði. Þrátt fyrir það var meðferð málsins í þinginu lengst af á þann veg að ekki var tekið á þessu atriði og leiddi til þess að málið lenti í nokkurs konar sjálfheldu undir lok þingsins 6. maí. Sú sjálfhelda var leyst með yfirlýsingu tveggja ráðherra. Sú fyrri var frá hæstv. forsrh. og laut að því atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni. En yfirlýsing forsrh. var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í upphafi næsta þings verður lagt fram frv. til laga um að leigutekjur vegna íbúðarhúsnæðis, allt að 300 þús. kr. á ári, verði undanþegnar tekjuskatti og útsvari.``
    Nú fer senn að líða að því að löggjöfin um húsaleigubætur taki gildi og enn er ekki komið fram þetta umrædda lagafrv. sem fyrirheit var gefið um að yrði lagt fram strax í upphafi þings. Því hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 171 til hæstv. fjmrh., sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvenær er þess að vænta að fram verði lagt frumvarp til laga um að leigutekjur af íbúðarhúsnæði, allt að 300 þús. kr. á ári, verði undanþegnar tekjuskatti og útsvari, sbr. yfirlýsingu forsrh. fyrir hönd fjmrh. á Alþingi 6. maí sl. um að slíkt frumvarp yrði lagt fram í upphafi þessa þings?``