Skattfrelsi leigutekna af íbúðarhúsnæði

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:54:40 (1237)


[16:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fsp. vil ég taka fram að í fjmrn. er verið að leggja síðustu hönd á lagafrv. þar sem lagðar eru til ýmsar breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt. Ein þeirra breytinga sem þar er lagt til að gerð verði á lögunum varðar einmitt skattfrelsi húsaleigutekna í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. maí sl. og hv. þm. vísaði til. Stefnt er að því að þetta frv. verði lagt fram þegar í næstu viku en tafir hafa orðið á þessu máli þar sem aðrar breytingar sem þarf að gera voru fyrirferðarmeiri og kannski flóknari en við héldum. Þær breytingar eiga m.a. rætur að rekja til þess samkomulags sem gert var sl. vor við aðila vinnumarkaðarins. Aðalatriðið er það, virðulegur forseti, að við þetta verður staðið. Frv. mun koma fram og þar er gert ráð fyrir því að sú breyting verði gerð á tekju- og eignarskattslögunum að frádráttur verði leyfður af hálfu leigusala einmitt til að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. gat um í ræðu sinni.