Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:00:48 (1240)


[17:00]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint tveimur fyrirspurnum er varða skuldastöðu heimilanna. Eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á lýtur fyrri spurningin að viðbrögðum félmrn. og tilraunum til þess að greina enn betur en fyrir liggur þann vanda sem á borðinu er og lýsir sér í þeim veruleika að yngri kynslóðin, 45 ára og yngri, ber langstærstan hluta af skuldum heimilanna í landinu, en eldri kynslóðin, þ.e. verðbólgukynslóðin á tímum neikvæðra vaxta á hins vegar stærstan hluta inneignar í lánastofnunum.
    Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda var ritað bréf til Þjóðhagsstofnunar í maí sl. þar sem óskað var eftir nánari greiningu og athugun á þessum málum. Þeirri beiðni hefur verið fylgt eftir munnlega annað slagið í sumar. Hins vegar barst ráðuneytinu svar ekki fyrir mörgum dögum frá Sigurði Snævarr þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þjóðhagsstofnun telur að hér sé um að ræða gífurlega umfangsmikla rannsókn sem vel þyrfti til

að vanda þar sem efnið er afar viðkvæmt. Staðreyndin er sú að fyrirliggjandi gögn eru engan veginn nægjanleg til að byggja slíka rannsókn á og miklum tíma þyrfti að verja til gagnasöfnunar. Þjóðhagsstofnun telur ekki fært að gera slíka athugun án þess að tryggð verði til hennar fjárveiting með einhverjum hætti.``
    Í framhaldi af þessu hef ég óskað eftir því og beðið Þjóðhagsstofnun að hraða þeirri vinnu að fyrir liggi verkáætlun og fjárhagsáætlun í þessu sambandi til þess að þessi vinna geti farið í gang og verði lokið eins fljótt og nokkur kostur er þótt þessi svör Þjóðhagsstofnunar gefi óneitanlega til kynna að málið sé veigameira og erfiðara í vinnslu en áður er ætlað.
    Í annan stað er spurt um frv. til greiðsluaðlögunar sem er í vinnslu í sérstakri nefnd sem félmrh. hefur skipað og aðild eiga að fulltrúar félmrn., dómsmrn., fjmrn. og fulltrúar þingflokka stjórnarflokkanna. Í skipunarbréfi þeirrar nefndar er óskað eftir því sérstaklega að sú nefnd hraði störfum. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar byggist hún á skýrslu um greiðsluaðlögun sem lá fyrir í maímánuði sl. þannig að hægt verði að leggja þetta frv. til greiðsluaðlögunar fram á haustþingi, þ.e. á næstu vikum. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar er til þess tekið og á því vakin athygli að þessi frumvarpssmíð skuli byggjast á forsendum tilgreindrar skýrslu þannig að hægt er að taka undir með hv. fyrirspyrjanda að það léttir vitaskuld vinnuna og gerir hana auðveldari en ella. Á hinn bóginn eru ýmis atriði sem þarfnast skoðunar við og einnig er gert ráð fyrir því að nefndur starfshópur taki tillit til og það er skoðun á heimildum í ýmsum lögum varðandi núgildandi heimildir til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum og þar verði sérstaklega skoðuð ákvæði laga um tekju- og eignarskatt. Þar má nefna heimildir sem eru lítt eða ekki notaðar varðandi nauðasamninga, varðandi greiðslustöðvun sem er að finna í núgildandi heimildum í lögum sem eru lítt eða ekki notuð m.a. vegna þess kostnaðar sem af þeim hefur hlotist.
    Ég árétta, virðulegur forseti, að hér er um forgangsmál að ræða í félmrn., mikilvægt mál að ræða, sem ég mun leggja allt kapp á um að nái eyrum og ásýnd Alþingis á yfirstandandi þingi þannig að vonandi verði hægt að afgreiða það með tiltölulega góðri sátt fyrr en síðar.