Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:05:21 (1241)


[17:05]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það hefði verið hægt að orða svar hæstv. félmrh. mjög stutt og knappt svona: Í ráðuneytunum er unnið markvisst að því að flækja þessi mál. Punktur. Í raun og veru var svarið einfaldlega þetta og ekkert annað. Eins og að það þurfi að bíða eftir að Þjóðhagsstofnun kanni skuldastöðu heimilanna. Staðreyndin er sú að hún liggur fyrir, m.a. í Lögbirtingablaðinu ef menn nenna að fletta upp á gjaldþrotaauglýsingunum sem birtast þar á hverjum degi. Og auðvitað liggja auk þess hér fyrir tillögur um greiðsluaðlögunarkerfi, m.a. frá okkur alþýðubandalagsmönnum sem hafa legið fyrir þinginu frá því að þetta þing kom saman þannig að í raun og veru ætti mönnum ekki að vera neitt að vanbúnaði. Vandinn er sá að menn koma sér ekki að þessu verki í ríkisstjórninni sem er þó allra brýnasta verk sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi um þessar mundir getur unnið.