Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:06:18 (1242)


[17:06]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þetta stóra mál verður ekki rætt hér í stuttri fyrirspurn. Hins vegar mun það verða rætt utan dagskrár á miðvikudaginn kemur að frumkvæði Framsfl. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tekur þetta efni til umræðu á Alþingi. Hv. þm. hvarf úr ráðuneyti sl. vor vegna þess að hún réð ekki við þennan málaflokk í þessari ríkisstjórn, einfaldlega. Hún flúði af hólmi. Og hér kemur það fram að hæstv. félmrh. hefur ekkert gert í þeim fyrirheitum sem þessi hv. þm. gaf þó í fyrravor. Ríkisstjórnin hefur ekkert verið að vinna í þessum málaflokki í sumar. Og það liggur fyrir í fjárlagafrv. að þar á að fella niður hátekjueignarskatt af auðugu fólki upp á 1,1 milljarð og skerða á móti atvinnuleysisbætur og bætur til öryrkja upp á 850 millj. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart heimilunum og lágtekjufólkinu á Íslandi. Á þessu ber hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fulla ábyrgð og núv. ríkisstjórn ætti að segja af sér vegna þess hvernig hún hefur komið fram gagnvart fjölskyldunum á Íslandi, þeim sem við bágust kjörin búa.