Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:07:58 (1243)


[17:07]
     Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma hér til þess að elta ólar við skítkast síðasta ræðumanns en auðvitað er hægt að svara því fullum hálsi vegna þess að þegar skoðuð er skuldastaða heimilanna og hún greind eins og Þjóðhagsstofnun hefur gert kemur mjög skýrt fram hverning aukning skulda hefur verið milli ára meðan Framsfl. var við stjórn. Og það er heldur ekki rétt hjá hv. þm. að ekkert hafi verið gert í þessum málum vegna þess að þegar ég fór úr ráðuneytiu lá þessi skýrsla fyrir um greiðsluaðlögun. Einungis

átti eftir að útfæra hana í frumvarpsform.
    Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það veldur nokkrum vonbrigðum að vinnan sé ekki komin lengra á veg varðandi frv. um greiðsluaðlögun. Eftir því sem ég fæ skilið er nefnd að störfum til að skoða þessi mál þannig að þeir mánuðir sem hafa liðið frá því að skýrslan var lögð fram í maí hafa ekki verið nýttir sem skyldi að mínu mati. Við þurfum að fá þetta mál mjög fljótt inn í þingið ef hægt á að vera að gera það að lögum á þessu þingi. Það er alveg ljóst að þau úrræði sem eru fyrir hendi varðandi nauðasamninga og greiðslustöðvun hafa ekki dugað eins og hæstv. ráðherra best veit af þeirri skýrslu sem liggur fyrir um greiðsluaðlögun.
    Auðvitað er það svo að það þarf að grípa til ýmissa aðgerða þó að þessi rannsókn liggi ekki fyrir sem ég tel mjög brýna og það var tekið undir það hér í maímánuði þegar við ræddum þessi mál að það þyrfti að greina skuldastöðu heimilanna miklu betur og fara út í þær rannsóknir sem þar fóru fram. En það veldur mér líka vonbrigðum hve stutt á veg það mál er komið en einhver hreyfing virðist þó vera á því. Ég vil spyrja ráðherrann í lokin: Hvað með það sem ráðherra hefur nefnt um að lengja lánstímann á húsnæðislánum og eru einhverjar aðgerðir á döfinni til að víkka út þær skuldbreytingaheimildir sem þó eru fyrir hendi varðandi þá sem eru í mestum vanskilum vegna atvinnuleysis, minnkandi tekna og veikinda?