Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:11:07 (1244)


[17:11]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hélt nú, þó að ég sé ekki mjög sjóaður í störfum á Alþigi, að maður væri búinn að upplifa það margt hér að maður yrði ekki lengur hissa. En ég verð því miður að segja að mér datt ekki í hug að ég ætti eftir að upplifa það sem hér er að gerast. Að félmrh. sem er rétt farinn úr embætti, félmrh. sem sat í þeim ráðherrastól sem ber ábyrgð, ef stjórnvöld gera það að einhverju leyti, á högum heimilanna í landinu, félmrh. sem sat þann tíma meðan skuldir heimilanna tvöfölduðust skuli koma upp og tala eins og henni komi málið ekki við og spyr núv. félmrh. eins og hann spurði hæstv. fjmrh. fyrir tveim vikum síðan: Hvað ætlið þið að gera í málunum sem ég var búinn að gefast upp í?
    Nú má enginn skilja það sem svo að ég sé að verja þá ráðherra í núverandi ríkisstjórn. En þetta er svo yfirgengilegur málflutningur að það hlýtur að ganga langt fram af hverjum einasta manni sem hefur haft fyrir því að fylgjast eitthvað með þjóðmálaumræðunni.