Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:16:48 (1248)


[17:16]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það sem snýr að því að ég þarf að bera af mér sakir er auðvitað það að þegar maður heldur hér málefnalega ræðu þá leyfir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sér að kalla það skítkast. Allt sem ég sagði hef ég tekið upp úr Alþýðublaðinu, sem er málgagn hennar fyrr og síðar, um þær staðreyndir hvernig viðskilnaðurinn var í félmrn. Staðreyndin er sú að skuldir heimilanna á Íslandi hafa aukist um 50% í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar undir stjórn hv. þm. sem félmrh. Þetta eru staðreyndir sem ekki verða hraktar og er ekki hægt að kalla skítkast.
    Hv. þm. minnir mig á forstjóra sem hefur verið gert það að hætta vegna skuldastöðu fyrirtækisins og slæmrar stöðu eða verið rekinn úr starfi en kemur svo nokkrum dögum síðar og spyr hvort ekki sé að batna í ári.
    Þetta finnst mér lýsandi fyrir það hvernig vinnubrögð hv. þm. eru að verða eftir að ráðherradómi lauk. Staðan er sú að fólkið í landinu býr við galtómt veski vegna skattastefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ber fulla ábyrgð á þeirri skattastefnu. Og hv. þm. réð ekki við það sem var rætt hér utan dagskrár í fyrravor um að fara í aðgerðir til þess að koma á móts við verðtryggðu kynslóðina sem svo er kölluð og á kannski það eitt eftir núna að ganga upp í húsbréfadeild og skila lyklunum sínum af íbúðunum. Þannig er staða margra Íslendinga undir stjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.