Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:18:54 (1250)


[17:18]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að fá að biðja um orðið og bera af mér sakir þegar því er haldið fram að ég hafi ekkert gert til þess að bæta skuldastöðu heimilanna. Hv. þm. vita það, sem hér hafa talað, að í september á sl. ári var veitt heimild einmitt til þess að fara í mjög víðtækar skuldbreytingar og þá nýttar þær heimildir sem fyrir hendi voru hjá Húsnæðismálastofnun. Þar er veitt heimild til þess að frysta lán í þrjú ár hjá fólki sem býr við verulega erfiðleika. Til þess hefur verið varið 300 millj. kr. ásamt því að farið hefur verið út í viðamikið samstarf við bankana sem hafa farið út í víðtækari skuldbreytingar en þeir hafa gert til þessa með 15 ára lánum. Ég vil segja það að greiðsluaðlögun sem er oft nefnd í þessu sambandi var raunverulega tilbúin þegar ég fór úr ráðuneytinu. Að mínu mati vantaði það að ná samstöðu að vísu við fjmrn. og að ganga frá frv. um það efni vegna þess að skýrslan var tilbúin sem var verulega útfærð í þessu efni.
    Mér finnst að hv. þm. Framsfl. eigi ekki að tala mjög hátt í þessu efni og lesa vandlega skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur fram að skuldastaða heimilanna versnaði langmest á milli ára þegar Framsfl. var í stjórn, milli áranna 1982 og 1983. Þá var misgengi launa og lána mjög mikið. Menn muna nú eftir misgengishópnum þegar vísitölubinding launa og lána var tekin úr sambandi. Það er líka athyglisvert að aukning á skuldunum er mest milli áranna þegar Framsfl. er við stjórn.
    Hv. þm. vita það líka vel að það þurfti að grípa til mjög víðtækrar greiðsluaðstoðar einmitt í sambandi við húsnæðismálin 1985--1986 þegar þeir fóru með þessi mál.
    Mér finnst því meginatriði að menn komist að niðurstöðu um hvað hægt er að gera varðandi þessi mál en séu ekki að benda á einhverja sökudólga í þessu efni vegna þess að skuldaaukning heimilanna byrjaði 1980 og hefur farið vaxandi. Það eru margir samverkandi þættir fyrir því og ég segi að það er ómaklegt að segja það að þegar sú sem hér stendur sat í stól húsnæðismálaráðherra hafi ekkert verið gert í því efni. Ég bendi á að aldrei hefur verið gert eins mikið varðandi félagslega íbúðakerfið og aukningu á íbúðum þar. Ég bendi líka á húsaleigubæturnar sem nú eru að koma til framkvæmda. Það hefur verið farið út í ýmsar aðgerðir til að bæta skuldastöðu heimilanna þannig að þetta er mjög ómakleg árás af hálfu hv. framsóknarmanna.