Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:23:48 (1252)


[17:23]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég gat ekki að mér gert að blanda mér í þessa umræðu þegar hv. 12. þm. Reykv. minntist á hvað allt væri í góðu standi í félagslega húsnæðiskerfinu. Ég er nefnilega nýkominn frá einu byggðarlagi fyrir austan þar sem tólf félagslegar íbúðir í litlu sveitarfélagi standa auðar af því að það hefur enginn efni á að vera í þeim. Fasteignaverð hríðfellur á stöðum úti um landsbyggðina. Þetta er vandamál sem er viðvarandi hringinn í kringum landið vegna þess að ástandið er orðið þannig eftir þessi fjögur ár að það er helmingi ódýrara fyrir fólk að kaupa íbúðir á almennum markaði heldur en að fara inn í félagslega kerfið. Þannig er ástandið í þeim efnum og ég gat ekki annað en skotið því inn í þessa umræðu.