Húsaleigubætur

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:25:36 (1253)

[17:25]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Í maí sl. var lögfest lagasetning um húsaleigubætur og kemur sú löggjöf til framkvæmda um næstu áramót.
    Löggjöf þessi var afar umdeild og hlaut mikla gagnrýni í meðferð málsins, m.a. frá umsagnaraðilum og þá fyrst og fremst frá sveitarfélögum. Samband ísl. sveitarfélaga sendi ítarlega umsögn um málið með allítarlegri gagnrýni svo og mörg sveitarfélög þar að auki.
    Meðal helstu gagnrýnisatriða frá Sambandi ísl. sveitarfélaga var að þarna væri gert ráð fyrir flóknu samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem sambandið lýsti sig andvígt. Í öðru lagi að sveitarfélögum yrði gert að bera ábyrgð á framkvæmd kerfisins en ríkið ætlaði að setja reglurnar og ákvarða einhliða sinn hlut í kostnaði. Í þriðja lagi mundi kerfið leiða til verulegs kostnaðar fyrir sveitarfélögin án þess að á móti kæmu nokkrar tekjur. Í fjórða lagi að lögð væri sú kvöð á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að borga út greiðslur frá ríki til sveitarfélaga án þess að tryggt yrði að jöfnunarsjóður fengi tekjur á móti þeim útgjöldum. Í fimmta lagi taldi Samband ísl. sveitarfélaga rétt að þessar bætur yrðu greiddar í gegnum skattkerfið líkt og vaxtakerfið.
    Ég tók undir þessar athugasemdir Sambands ísl. sveitarfélaga og reyndar fleiri aðila í meðferð málsins og skilaði um það sérstöku nál. á þskj. 1211 sl. vor. Fleiri hv. þm. lýstu yfir efasemdum um ágæti málsins, ekki vegna þess að menn efuðust um ágæti tilgangsins heldur um ágæti framkvæmdarinnar. Niðurstaða málsins varð hins vegar sú að ákveðið var að afgreiða málið og lögfesta það gegn yfirlýsingu sem hæstv. félmrh. gaf og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Gengið verði til viðræðna við forráðamenn sveitarfélaganna um undirbúning að framkvæmd laganna. Komi í ljós í þeim viðræðum að óhjákvæmilegt sé að gera breytingar á lögunum til að gera framkvæmd þeirra markvissari verða slíkar tillögur lagðar fram á haustþingi. Þá verða málefni Búseta, sem rædd hafa verið í tengslum við lagafrumvarp þetta, skoðuð alveg sérstaklega áður en lögin um húsaleigubætur taka gildi um nk. áramót.``
    Nú hefur atvikast svo að örfá sveitarfélög hafa ákveðið að taka upp húsaleigubætur á næsta ári, 19 sveitarfélög samkvæmt skrá sem ég sá síðast. Það kann að vera að eitthvað hafi breyst á henni en varla hefur það verið mikið. Það þýðir að vel á annað hundrað sveitarfélög hafa ákveðið að hafa ekki húsaleigubætur. Ég hef því ákveðið, virðulegi forseti, að bera fram tvær fyrirspurnir til hæstv. félmrh. á þskj. 170 í tveimur tölusettum liðum eins og þar greinir.