Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:53:41 (1266)

[17:53]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Sameining sveitarfélaga hefur verið mjög á dagskrá á þessu ári og hinu síðasta. Til þeirrar sameiningar hefur verið hvatt mjög af umdæmanefndum og ýmsum sendiboðum ríkisvaldsins sem það hafa gert með ýmsum fyrirheitum. Ríkisstjórnin markaði stefnu í sameiningarmálum eftir að fyrir lágu tillögur allra umdæmanefnda á haustdögum á árinu 1993. Á því stigi gerðu menn sér meiri vonir um að sameining sveitarfélaga yrði víðtækari en raun varð síðan á í atkvæðagreiðslum hinn 20. nóv. á síðasta ári. Þrátt fyrir það lá fyrir að mjög mörg sveitarfélög hafa sameinast, m.a. á grundvelli umræðna og funda með sendiboðum ríkisvaldsins, sem gáfu almennt mjög skýr fyrirheit um ýmsar aðgerðir, m.a. í samgöngumálum, eftir sameiningu sveitarfélaganna. Þar var m.a. byggt á stefnumörkun og tillögu sameiningarnefndar en þó einkum á fyrrgreindri stefnumörkun ríkisstjórnar fyrir rúmu ári. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verði m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga.``
    Margir íbúar þeirra sveitarfélaga sem sameinast hafa bundu stuðning sinn við ákvörðun um að greiða sameiningunni atkvæði einmitt við loforð og fyrirheit ríkisstjórnarinnar sem þeir töldu sig geta treyst á. Annað hefur þó komið á daginn og lítil merki sjást þess að við þetta hafi verið eða verði staðið á næstunni. Ekki verður séð í fjárlögum fyrir 1995 að fjárveitingar séu ætlaðar til þessa málaflokks sérstaklega af þessum ástæðum.
    Það skal tekið fram að margháttaðar framkvæmdir hafa verið gerðar eftir ýmsum fyrri ákvörðunum til að greiða fyrir samgöngum milli sveitarfélaga sem síðan hafa verið sameinuð. Þær framkvæmdir hafa að sjálfsögðu nýst mjög vel víða. Þar má t.d. nefna miklar samgöngubætur milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar annars vegar og Bíldudals hins vegar. Þar var um að ræða viðgerð og endurbyggingu á vegi sem var orðin ónýtur og tengist ekki sameiningu tveggja þessara byggðarlaga í núverandi vesturbyggð þó að þær nýtist vissulega þeim byggðum sem þarna hafa sameinast mjög ríkulega.
    Til þess að fá betri yfirsýn yfir efndir ríkisstjórnarinnar á þessum málaflokki hef ég leyft mér að bera upp á þskj. 126 svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh., með leyfi forseta:
  ,,1. Hvaða fjárveitingar eru ætlaðar til sérstakra framkvæmda í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga á þessu ári?
    2. Hefur sameining sveitarfélaga breytt forgangsröð verkefna í samgöngumálum á næstu árum?
    3. Telur ráðherra að unnt verði að standa við fyrirheit þau sem gefin voru af hálfu félmrn. varðandi samgöngumál þegar undirbúin var sameining sveitarfélaga?``