Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:06:28 (1271)


[18:06]
     Jóhann Ársælsson :

    Hæstv. forseti. Þessi umræða leiðir enn betur í ljós en áður að það er nákvæmlega ekkert vitað um hvaða efndir verða á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Hæstv. ráðherra talar út og suður og mjög loðið um það hvernig eigi að standa að þessu máli og er reyndar að vísa til framkvæmda sem þegar er búið að fara í og fjárframlaga sem voru ákveðin áður en farið var að stuðla að sameiningu sveitarfélaganna. Það er verið að spyrja um þá hluti víða um landið þar sem sameiningar hafa farið fram hvernig loforðið verði efnt. Svörin láta greinilega á sér standa og síðasta yfirlýsing hæstv. forsrh. um átak í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu bendir ekki til þess að menn hafi verið að fjalla um einhverja aðra hluti sérstaklega til að koma til móts við sveitarfélög sem hafa sameinast. Því miður eru allar tiltektir hæstv. ríkisstjórnar í vegamálunum svona og búnar að vera allt kjörtímabilið út og suður og virðist ekki ætla að verða lát á því þó að nú styttist til loka þeirra daga.