Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:09:37 (1273)


[18:09]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og í rauninni styrkt mjög þá skoðun mína að þessar fyrirspurnir hafi verið fullkomlega réttmætar og ástæða til að bera þær fram. Ég þakka hæstv. samgrh. ekki svörin því þau voru varla þess virði að mér fannst. Í stuttu máli dró ég saman svörin eftir því sem mér heyrðust þau vera. Númer eitt: Það voru engar. Númer tvö: Nei. Og út úr þriðju spurningunni sneri hæstv. samgrh. og ætlaði að beina þessu til hæstv. fyrrv. félmrh. Reyndin er sú að þegar talað er um samgöngumál á borði ríkisstjórnar þá ætlast ég til þess að samgrh. sé þar með í ráðum og ríkisstjórn samþykki ekki hluti eins og þessa án þess að hann sé því samþykkur.
    Það var engin tilviljum að ég nefndi veginn yfir Hálfdán. Ég vissi að hann mundi verða notaður sem rök í þessu máli. Eins og hér hefur komið mjög glögglega fram þá var sá vegur ákveðinn löngu áður og af allt öðrum ástæðum vegna þess að sá fyrri var gjörsamlega niður snúinn af fiskflutningum. Þetta vita allir sem þarna eru. Hins vegar ætla ég ekki að neita því að sá vegur er mjög til bóta og þær samgöngur sem um hann fara. Það er aftur allt annað mál.
    Mér finnast svör hæstv. samgrh. staðfesta það að sveitarfélögin sem taka þetta mál, eins og komið hefur fram, afskaplega alvarlega og bundu vonir við að við þær yfirlýsingar sem gefnar voru yrði staðið hafa verulegar áhyggjur af þessu. Það er greinilega full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu þar sem svörin við fsp. af þessu tagi eru nánast útúrsnúningar og lítið annað.