Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:11:43 (1274)


[18:11]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég skal reyna að leggja mig betur fram næst þegar ég reyni að útskýra einfalda hluti fyrir hv. þm. Pétri Bjarnasyni. Ég sá að það gekk illa núna.
    Það er rétt sem kom fram hjá tveim hv. þm. að ég hef staðið við þau orð sem ég hef gefið af þessu tilefni. Ég hef að vísu verið spurður þessarar hinnar sömu spurningar á hinu háa Alþingi og eins og fram kom áðan þá liggur það fyrir skjallega að ég hef staðið við það sem ég hef sagt um þessi efni. (Gripið fram í.) Hæstv. fyrrv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir --- hv. þm. mun eiga að segja þó frammíkall sé, hefur horfið á braut úr þingsalnum. Ég held að hv. þm. verði að reyna að finna eitthvert annað tækifæri til þess að eiga orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hefur komið fyrir áður að við höfum ekki verið sammála í þingsölum, ég og sá hv. þm.
    Það lá alveg fyrir áður hver var stefna mín í þessum málum. Það lá líka fyrir þegar stjórnarskiptin urðu 1991 að þær hugmyndir voru ekki uppi að leggja veg yfir Hálfdán, svo ég haldi mig við byggðarlag hv. fyrirspyrjanda, Péturs Bjarnasonar. Síðasta ríkisstjórn hafði engin slík áform uppi sem hefðu leitt til þess að Bíldudalur hefði kosið að sameinast Patreksfirði vegna þess að það var mjög bágt og erfitt vegasamband milli þessara byggðarlaga. Það er næsta broslegt þegar maður sér tvo þingmenn Vestfirðinga (Gripið fram í.) standa hér upp og segja að vegna þess að við ákváðum að leggja veginn yfir Hálfdán áður en atkvæðagreiðslan um sameiningu sveitarfélaganna fór fram hafi sú vegagerð ekkert haft að segja um sameiningu sveitarfélaganna. Það eru eins og þessir menn séu alveg ókunnugir í sínum heimahögum. Ég hef komið þarna vestur og fjöldinn allur, bæði sveitarstjórnarmenn og einstaklingar, hafa einmitt farið lofsamlegum orðum um þessa framkvæmd vegna þess að henni var flýtt, vegna þess að þeir fengu hana áður en þeir áttu von á og vegna þess að hún hefur breytt svo miklu í þessum byggðarlögum. Auðvitað er þetta hluti af þeim framkvæmdum og áætlunum sem við erum með uppi um það að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, greiða fyrir því að efla samgöngur innan atvinnusvæða.
    Hitt er svo annað mál og ekki skrýtið þó að ritstjóri Tímans skuli standa hér upp, eins og hann gerði um daginn þegar vegamál voru til umræðu, fara með ósannindi, prenta þau svo einhliða í Tímanum og leyfa ekki sjónarmiðum stjórnmálaandstæðinga sinna að koma fram. Tíminn er flokksblað, það er rekið á þeim grundvelli eins og Alþýðublaðið og menn eru smátt og smátt að læra að það er ekki merkilegur pappír.