Innflutningur garðávaxta

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:21:19 (1282)


[18:21]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Herra forseti. Um leið og ég ber fram spurningar til hæstv. landbrh. vil ég setja fram þá skoðun mína að sölumeðferð íslenskra landbúnaðarafurða sé alvarlega gölluð. Á það jafnt við um gróðurhúsaafurðir sem og aðrar garðyrkjuafurðir, einnig sölu frá afurðastöðvum sem selja kjötafurðir og fleira. Gallað sölukerfi landbúnaðarafurða kemur fram í hróplegum mismun á vöruverði á landsbyggð og Reykjavíkursvæði.
    Ég nefndi hér sl. mánudag verðmun sem nemur 300% og það verður að nægja sem dæmi í þessari stuttu framsögn en ég hef mörg fleiri til viðbótar. Það er meira að segja svo að kortafyrirtækin gera kröfu um meira en tvöfalt hærra gjald fyrir debetkortaþjónustu úti á landi en hjá stærstu aðilum í Reykjavík.
    Mér er ljóst að vegna atkvæðagreiðslu um inngöngu EFTA-ríkja liggja niðri umræður um þau mál sem ég ætla að spyrja um milli Íslands og ESB. Fyrirspurnin lýtur einnig að erfiðleikum varðandi upprunavottorð vöru. Vandinn lýtur að vöru sem kemur til landsins í gegnum ESB-ríki frá þriðja landi. Innflutningur samkvæmt cohesions-lista er staðreynd sem ekki verður fram hjá litið en það skiptir máli með framkvæmdina. Það sem felst í spurningunum sem ég legg fyrir hæstv. landbrh. tel ég að geti skipt verulegu máli fyrir framleiðendur. Það gafst ekki tími til að setja þessar spurningar fram við utandagskrárumræðu 31. okt. sl. Því eru þær bornar fram nú og eru eftirfarandi á þskj. 176, með leyfi forseta:
  ,,1. Eru áform um að stytta það tímabil þegar leyfður er innflutningur garðávaxta?
    2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að ekki verði meira til í landinu en sem nemur hálfs mánaðar birgðum af innfluttu grænmeti í lok innflutningstímabils?``