Innflutningur garðávaxta

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:32:06 (1286)


[18:32]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Þetta er auðvitað mikið mál að fara í að ræða um þann samning sem var gerður varðandi innflutning á þessum vörum. En ég held að það sé virkilega ástæða til að ræða um möguleika á að takmarka birgðir í lok þessara innflutningstímabila. Ég held að það sé hægt. Það er t.d. talið mögulegt að geyma sumar af þeim vörum sem einmitt var verið að ræða um og heimildir taka til, í allt að 40--50 daga eftir komu til landsins. Þetta hefur auðvitað alvarleg áhrif á framleiðendur umræddra vara en eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra þá telur hann sig ekki hafa vald til að beita reglugerð gegn þessu en ég taldi aftur á móti að það væri mögulegt að beita sér fyrir breytingu á þessum reglugerðum. Það getur verið að það sé minn misskilningur en ég hélt þetta og held því jafnvel enn fram.
    Aðeins varðandi það að ég hefði átt að beina máli mínu til hæstv. utanrrh., þá tel ég ekki svo vera. Ég tel að þessi málaflokkur heyri alfarið undir landbrh. Ég tel að það sé misskilningur hjá hv. þm. Jóni Helgasyni að ég sé að fara ranga leið með þetta mál, algjör misskilningur.
    Enn og aftur varðandi vöruverð út á landi þá er það staðreynd sem ég gat hér um fyrir viku síðan að á sama tíma og tómatar kostuðu 60 kr. í Reykjavík þá kostuðu þeir 300 kr. á Akranesi og jafnvel enn meira á Austurlandi, kartöflur kostuðu 5--10 kr. í Reykjavík á meðan þær kostuðu 50 kr. á Akranesi og Vesturlandi og það er staðreynd að það er allt að 50% verðmismunur út á landsbyggðinni þó það væri hægt að finna einstaka verslun sem undantekningu einmitt á umræddum stað.