Innflutningur garðávaxta

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:34:22 (1287)


[18:34]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að ummælum hv. þm. Jóns Helgasonar, 2. þm. Suðurl. Það er undarlegt þegar þingmenn Framsfl. koma hér upp hvað eftir annað og eru að ræða undirbúning samninganna um hið Evrópska efnahagssvæði að þá skuli þeir ævinlega reyna að kenna hæstv. utanrrh. um það sem miður fer. Forsrh. í þeirri ríkisstjórn hét Steingrímur Hermannsson. Hann var framsóknarmaður og hann bar höfuðábyrgð á þeirri samningsgerð. Hann bar ábyrgð á því að athugasemdir og sjónarmið fagráðherra bærust til utanrrh. Hann bar auðvitað höfuðábyrgð á því að það skyldi vera látið undir höfuð leggjast að hafa fulltrúa landbúnaðarins við þegar þau mál voru rædd á öndverðu ári 1991 í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er algjörlega út í bláinn og þýðingarlaust að reyna að kenna Alþfl. einum um þessi mál. Enda var það eins og málin hafa verið skýrð fyrir mér samkomulag sjútvrh., Halldórs Ásgrímssonar, sem nú er formaður Framsfl., og utanrrh. að reyna að þrýsta á sjávarútvegsþáttinn með því að láta fulltrúa ekki mæta þegar landbúnaðarmálin voru rædd. Þannig voru málin og þess vegna eru samningarnir ekki betur úr garði gerðir en raun ber vitni.
    Ég vil líka segja um hið síðara atriði sem hv. fyrirspyrjandi kom að þá vil ég taka undir þær áhyggjur sem hann lét í ljósi yfir þeim skelfilegu undirboðum sem eru nú á kartöflum víðs vegar um landið. KEA seldi kílóið á 4 krónur, Bónus á 8 kr. Ég hygg að pakkningarnar kosti 15 kr. og verð á kartöflum til landsins í sumar var um 40 kr. Ég er að láta athuga hvort ekki sé heimilt samkvæmt íslenskum samkeppnislögum eða samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að grípa þarna inn í og koma í veg fyrir að einstaka kaupmenn geti verið með bersýnileg niðurboð af þessu tagi sem eru auðvitað til þess fallin að brjóta niður heilbrigða viðskiptahætti og geta bitnað mjög harkalega á þeirri framleiðslugrein sem af tilviljun verður fyrir barðinu á þeim í það og það skiptið. Og við vitum að þessir óheilbrigðu viðskiptahættir nú eru að valda því að fjöldi fólks er að missa eignir sínar og verða gjaldþrota vegna þessara óheilbrigðu viðskiptahátta. Ég tel að Samkeppnisstofnun hefði átt að vera búin að grípa inn í þetta.