Lýðveldissjóður

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:38:18 (1289)


[18:38]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um lýðveldissjóð, sérstakan hátíðarsjóð, sem ákveðið var að stofna í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins á liðnu sumri.
    Eins og þingmenn rekur eflaust alla minni til náðist um það víðtækt samkomulag milli þingflokka í tengslum við hátíðahöldin 17. júní að flytja og síðan samþykkja þáltill. um þennan sjóð sem ákveðið var að heita skyldi Lýðveldissjóður og framlög til hans næstu fimm árin.
    Þessi mál liggja öll skýrt fyrir og ástæðulaust að rekja hér og nú aðdraganda þessa sjóðs eða markmið hans að öðru leyti. Hins vegar var talið að það væri rétt að setja þessum sjóði örugga umgjörð og tryggja honum fastan sess með því að setja sérstök lög um starfsemi hans og því urðu formenn þingflokka ásáttir um að flytja það frv. sem ég mæli nú fyrir til þess einmitt að marka þessum sjóði öruggan og eðlilegan sess í kerfinu, ef svo mætti segja, koma honum á ákveðinn stað í stjórnkerfinu þannig að ekkert fari á milli mála um starfsemi hans þann tíma sem hann á að starfa.
    Það er brýnt að ljúka afgreiðslu þessa frv. til þess að unnt verði að kjósa stjórn sjóðsins. Eins og kunnugt er er ráðgert að hún verði skipuð þremur utanþingsmönnum sem þingflokkar verði sammála um og það er nauðsynlegt að unnt sé að kjósa þessa stjórn von bráðar þannig að hún geti hafið störf og hefja megi starfsemi sjóðsins í upphafi næsta árs eins og ráðgert hefur verið.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. Það skýrir sig að öllu leyti sjálft og er hefðbundið að því er varðar sjóði af þessu tagi. Um efnisatriði málsins að öðru leyti vísa ég til framsöguræðu minnar í þinginu 16. júní sl. þegar þetta mál kom fyrir í formi þáltill. sem síðan var samþykkt einróma á Þingvöllum hinn 17. júní sl.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. en það er ekki gerð tillaga um að þessu máli verði vísað til nefndar í ljósi forsögu málsins.