Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:41:52 (1290)


[18:41]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði sett mig á mælendaskrá í þessu máli í síðustu viku þegar það var til umræðu en þurfti að fara austur á land áður en að mér kom í umræðunni og eitthvað olli það misskilningi hér en ég veit að hann var leiðréttur og virðulegur forseti mun hafa stuðlað að því að mér gefst tækifæri til að ræða málið. Ég hafði raunar vænst þess að hæstv. landbrh. mundi fylgja mér eftir í austurveg í það skipti en hann brá ekki á það ráð. Tilefnið var honum ögn nærtækt þar sem haldið var upp á tímamót í ævi ættingja hans austur þar en ég ætla ekki að fara að ræða það frekar í tengslum við þetta en aðeins að tengja þetta við þá umræðu sem varð vegna misskilnings um aðstæður.
    Frv. það sem við ræðum hér, um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, hefur legið þrívegis fyrir Alþingi og hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu máli á síðasta þingi. Það virðist vera mjög lítil fylgni á bak við þetta mál hjá stjórnarflokkunum ef marka má það að þetta skuli ekki hafa hlotið afgreiðslu af þeirra hálfu og ekki fengist afgreitt út úr landbn. þingsins. Ég get út af fyrir sig skilið að það standi í mönnum að lögfesta þau ákvæði sem hér er að finna í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hafðar voru uppi á fyrri stigum þessa máls þess efnis að unnt væri að koma í veg fyrir að ákvarðanir EES-samningsins giltu varðandi ráðstöfun og kaup á landi, fasteignum og landi, þar á meðal jörðum. Nú er komið í ljós og greinargerð þessa máls tekur ótvírætt á því að þar verður ekki fram hjá komist og hefði ekki þurft að velta lengi vöngum yfir því þegar ekki var um að ræða neinn gildan fyrirvara af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi þetta mál og þá viðurkenndan fyrirvara í samningnum sjálfum.
    Þetta mál var mikið til umræðu í aðdraganda samþykktar samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og ég óttast það að ýmsir þeir sem guldu jáyrði við samningnum hafi ekki gert sér fyllilega ljóst hverjar afleiðingarnar yrðu varðandi þennan málaflokk sérstaklega. Ég a.m.k. leyfi mér að virða þeim það til betri vegar eins og kannski varðandi fleiri þætti þó að það sé erfitt að sætta sig við það, virðulegur forseti, að samningur sem þessi gangi yfir land og þjóð án þess að Alþingi Íslendinga hafi gert sér ljósar afleiðingar málsins. Í greinargerð á bls. 4 er vitnað til athugana sem fram hafa farið á EES-samningnum og rétti Evrópubandalagsins og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,[Þær] hafa leitt í ljós að það teldist andstætt samningnum að setja í lög ákvæði sem áskildu að þeir sem gætu komið til greina við kaup á jörðum og öðru búskaparlandi, sem jarðalögin taka til, þyrftu að hafa verið búsettir hér á landi í tiltekinn árafjölda fyrir kaupin og það þó að sambærileg regla gilti um Íslendinga. Slík ákvæði voru í lögum hjá Dönum og Írum en hafa verið felld niður þegar í hlut eiga aðilar frá öðrum ríkjum EB sem ætla að nýta sér staðfesturétt þar.`` --- Þetta segir í greinargerð og þarna er auðvitað viðurkennd staða málsins sem helgast af 4. gr. samningsins þar sem hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.
    Ég vil líka, virðulegur forseti, vitna til 6. gr. samningsins sem varðar fyrirvarann um dómsúrlausn í framtíðinni en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þeir séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.``
    Þetta er 6. gr. eins og hún hljóðar í EES-samningnum. Ég vil inna hæstv. landbrh. eftir því hvort á hans vegum hafi verið farið yfir dóma Evrópubandalagsins sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samningsins að því er varðar þetta svið því að auðvitað verða menn að horfa til þess vegna þess að það er það sem setur réttarstöðuna, það sem ákvarðar réttarstöðuna, og síðan að sjálfsögðu þeir dómar sem eftir eiga að falla og gætu snert þetta mál en skýrt er kveðið á um það að samningurinn lúti slíkum dómum í framtíðinni, dómum Evrópudómstólsins þó svo að einstök ákvæði sem hér er verið að vitna til heyri sérstaklega undir EFTA-kerfið, þ.e. samkeppnisstofnun EFTA og EFTA-stólinn sem settur var upp á grundvelli samningsins, þ.e. ágreiningsefni.
    Það er einnig ástæða til þess, virðulegur forseti, að velta fyrir sér þeirri greinargerð sem er að finna og vitnað er til, álitsgerð sem samin var að beiðni dósmrh. og kirkjumrh. og landbrh. á sínum tíma og er dagsett í Reykjavík í júní 1992 sem er að nokkru leyti vitnað til eða birt sem fskj. með samningi þessum. Ég vil vekja athygli á því þegar menn eru að ræða möguleikana á því að beita einhverri mismunum sem falli utan fjórfrelsisins eins og það er túlkað og skilgreint að þeir vísu menn sem standa að þessari greinargerð, Ólafur W. Stefánsson, Stefán M. Stefánsson og Tryggi Gunnarsson, hafa eflaust lagt sig í líma til þess að átta sig á réttarstöðunni, en þeir slá mjög víða varnagla. Það er víða að finna orð eins og ef til vill, hugsanlega og annað þess háttar í þeirra greinargerð þegar verið er að fjalla um þessi efni. Í ræðu sinni vitnaði hv. þm. Tómas Ingi Olrich sem tók þátt í umræðunni hér nokkuð í þessa greinargerð og einmitt er þar að finna þessa varnagla sem þessir lögfræðingar slá og ég skil það vel að þeir slái varnagla vegna þess að þarna er um að ræða býsna stórt, grátt svæði. Ég er ekki að lasta það að nú eftir á eru menn að reyna

að klóra yfir þá stöðu sem Íslendingar eru komnir í í þessu máli með því hugsanlega að hagnýta sér með löggjöf og koma upp einhverju sem gæti bætt réttarstöðu Íslendinga sérstaklega í þessu máli en þar er sem sagt um að ræða mikla óvissu í mörgum greinum og m.a. það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich var að vísa til og viðurkenndi eða tók fram með beinni tilvitnun í þessar greinargerðir sem þarna er að finna.
    Í umræðunni um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði er oft verið að grípa til þess og það kom fram á fyrri fundi, virðulegur forseti, að ræða um það að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hafi staðan verið þessi og hin og það hefur verið gert í sambandi við þetta mál. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst það með nokkrum fádæmum að núverandi stjórnarliðar, hæstv. ráðherrar og þingmenn sem styðja ríkisstjórnina, skuli bregða á það ráð að varpa ábyrgðinni af sjálfum sér sem samþykktu þennan samning yfir á fyrrv. ríkisstjórn og þá stöðu sem þá var uppi. Þeir tóku við þessu máli opnu. Þeir féllu hins vegar formlega frá öllum fyrirvörum málsins þann 5. maí í aðdraganda að stofnun eða að nýstofnaðri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í sambandi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að öllu nema því sem varðaði fjárfestingar í fiskvinnslu, frumvinnslu sjávarafurða og í fiskiskipum. Þar hvílir því ábyrgðin á framhaldi málsins og þó að auðvitað valdi nokkru þeim sem upphafinu valda, ekki skal fjöður yfir það dregin, en ég átti þátt í því í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að draga fram þessa stöðu aftur og aftur og gerði það m.a. í opnu erindi til forsrh. Íslands í byrjun febrúar 1991 og hann staðhæfði á þeim tíma að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessum efnum. Og svo að ég vitni í orð frá hæstv. fyrrv. forsrh. þann 8. febr. í Tímanum sem svar við erindi frá mér, með leyfi forseta:
    ,,Um eignarhald á landi gilda í dag almennar reglur sem veita sveitarfélögum forkaupsrétt. Allt slíkt er gert ráð fyrir að herða, eignarhald erlendra aðila á landi sem ekki er nauðsynlegt vegna atvinnureksturs verður ekki leyft. Reyndar er ekki gert ráð fyrir landbúnaði í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Fyrirvaranum um meginstjórn á náttúruauðlindum er þannig fylgt eftir fullkomlega og reyndar stefnt að því að tryggja slíkt betur en nú er.``
    Þetta segir fyrrv. forsrh. um málið 8. febr. 1991 sem svar við þeim áhyggjum sem ég lýsti í opnu bréfi til ráðherrans og var þá auðvitað að beina máli mínu til ríkisstjórnarinnar í heild jafnframt, en eins og menn rekur minni til, þá hafði ég miklar áhyggjur af þessu máli, reyndar alveg frá því að það var fyrst af stað sett í mars 1989.
    Það hefur verið hér í umræðunni, virðulegur forseti, fjallað um ýmsa þætti málsins að því er varðar þau ákvæði sem hér er stefnt að því að lögleiða og varða sérstaklega samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. ákvæði 3., 5., 8. og 14. gr. og ég ætla ekki að eyða hér takmörkuðum tíma í að fara mikið í þau efni heldur frekar ræða um málið almennt og stöðu þess.
    Það er sannarlega mikið áhyggjuefni og hefði kannski eitt út af fyrir sig átt að nægja hv. alþingismönnum til að vísa þessum kaleik frá, samningnum um EES, sú staða sem er uppi varðandi einmitt kaupin á íslensku landi og því sem fylgir. Nú er það svo að örlítill aðlögunartími var veittur hvað snertir þetta mál. Í XII. viðauka með samningnum um frjálsa fjármagnsflutninga er vísað til þess að EFTA-ríkjunum sé heimilt að halda áfram að beita innanlandslöggjöf er gildir um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignir sem eru í eigu erlendra aðila er EES-samningurinn öðlast gildi, en samkvæmt settum tímamörkum og innan eftirtalinna svæða eins og það er kallað hér, það ættu kannski að vera svið, og það varðar eitt af því til 1. jan. 1996 í Austurríki, Finnlandi og Íslandi að því er varðar fjárfestingar í fasteignum á innlendu yfirráðasvæði. Það er þessi tími sem menn hafa til þess að ganga frá málum sem tengjast sölu á landi og þetta skellur á frá 1. jan. 1996 af fullum þunga. Slíkum heimildum tengjast ekki aðeins hin almennu not af jörðum og jarðnæði, eyðijörðum sem öðrum, heldur einnig af því sem því fylgir samkvæmt íslenskum rétti eins og hann hefur verið túlkaður og gildandi lögum, þar á meðal varðandi náttúruauðlindir sem tengjast eignarrétti á landi eins og það er ákvarðað og skilgreint samkvæmt lögum. Því tengist nú ekkert minna heldur en jarðhiti í jörðu og virkjanaréttur fallvatna, orka fallvatna og það sem hana snertir, nýtingu hennar.
    Um þetta mál hafa verið flutt frumvörp eftir frumvörp hér frá því 1982--1983 og legið fyrir þinginu um það að tryggja það að slíkar náttúruauðlindir tengist ekki einkaeignarréttinum og því verði slegið föstu innan ákveðinna marka að þessar náttúruauðlindir séu þjóðareign. Það hefur hins vegar ekki tekist að fá þessi ákvæði lögfest á Alþingi. Frumvörp um þetta efni liggja fyrir iðnn. þingsins enn og aftur flutt af þeim sem hér talar og þingflokki Alþb. í heild. Ég nefni þetta hér vegna þess hversu alvarlegt málið er og það tengist öðrum lagaákvæðum heldur en þeim sem hér eru nákvæmlega til umræðu, þá er það auðvitað gildur þáttur í þessu máli og kannski ekki minnsti, heldur kannski stærsti þátturinn sem tengist stöðu málsins.
    Ég vil heita á hv. stjórnarliða og hæstv. landbrh. sem og aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands að reyna nú að taka á honum stóra sínum í þessu efni og koma í veg fyrir að einnig þessar náttúruauðlindir falli undir Evrópuréttinn, rétt Evrópusambandsins eins og hann liggur fyrir og tengist eignar- og yfirráðum á landi.
    Það kom fram við umræðu um nefnd frumvörp að menn áttuðu sig á því að þetta væri að skella yfir og það er kannski einhver von til þess, ég vil a.m.k. ekki vera vonlaus um það að á þessum málum verði tekið til þess að reisa rönd við.
    Það kom fram hér í umræðunni af hálfu hæstv. landbrh. ríkur skilningur á réttarstöðunni og viðurkenning á því að við Rómarréttinn þýddi lítt að berjast á meðan við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Það komu einnig fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich þungar áhyggjur af þessu máli og mér er kunnugt um það að á fyrri stigum hefur hv. þm. haft ríkar áhyggjur af þessu og það er góðra gjalda vert. En spurningin er auðvitað hversu mjög menn geta afsakað þá stöðu sem hefur í rauninni leitt þetta yfir okkur, þá réttarstöðu sem við erum í hér. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich sem ég átti orðaskipti við í andsvaraformi í umræðunni í síðustu viku vísaði til þess að hann hefði slegið þar ákveðna varnagla. Ég hef hér fyrir framan mig yfirlýsingar sem hann gaf 18. apríl 1991 í dagblaðinu Degi sem gefið er út nyrðra og fjallaði þar sérstaklega um þessi efni undir fyrirsögninni ,,Tvöfeldni framsóknarmanna`` og deildi þar alveg sérstaklega við þingmenn úr Framsfl. um þessa stöðu og svo merkilegt sem það er nú, þá voru einmitt þingmenn úr Framsfl. og raunar þingmenn sem kusu sér það hlutskipti að sitja hjá við afgreiðslu samningsins og eru í kjördæmi virðulegs þingmanns Tómasar Inga Olrich sem hann átti orðastað við. Og af þeim orðum sem féllu í þessari blaðagrein, þá undrast ég það satt að segja mjög að hv. þm. skuli hafa látið það henda sig að greiða atkvæði með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði jafnákveðið og hann tekur til orða og jafnmiklar áhyggjur og hann hafði á þessum tíma. Þar sagði þingmaðurinn svo að ég bara vitni hér til örstutts kafla því að tíminn leyfir ekki langar tilvitnanir, með leyfi forseta:
    ,,Ég tek það skýrt fram að ef ég verð kosinn til starfa á Alþingi Íslendinga mun ég aldrei samþykkja að útlendingar fái sama rétt til að kaupa land hér og við Íslendingar. Hér er um grundvallaratriði að ræða.``
    Þetta segir hv. þm. og hann segir margt fleira þar sem beinir orðum sínum til þingmanna sem hann hafði átt orðastað við um þetta í kjördæmi sínu og brýnir þá á því að hér megi ekki varnirnar bresta.
    En það er ekki nóg að hafa áhyggjur og kveða fast að orði ef menn fylgja því ekki eftir í reynd þegar málin koma til kasta á hv. Alþingi og ég hef heyrt það að hv. þm. er að réttlæta niðurstöðu sína í þessu máli með mjög veikum fyrirvörum sem hann telur að geti sýnt fram á það sem hægt sé að mismuna Íslendingum og útlendingum í sambandi við þessi efni.
    Hæstv. ráðherra vék að einum þætti eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich þar sem reynt er að staðhæfa að undantekning felist í því sem varðar beina fjárfestingu eða fjárfestingarréttinn að það gildi ekki með beinum hætti heldur sé það tengt öðrum réttarákvæðum. Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni 3. nóv. sl., með leyfi forseta:
    ,,Sé það eingöngu ætlun þess sem kaupir jörð eða fasteign sem jarðalögin taka til að fjárfesta í eigninni eða nota til eigin dvalar og tómstunda á reglan ekki við.`` Þ.e. regla sem áður var gerð grein fyrir í máli ráðherrans. ,,Íslendingar munu því áfram geta fest kaup á jörðum í því augnamiði en heimildir erlendra aðila í því efni ráðast hins vegar af ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna eins og áður sagði.
    Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði veitir útlendingum sem búsettir eru erlendis ekki rétt til að kaupa hér eignir til að fjárfesta í þeim eða til sumardvalar.``
    Þetta eru staðhæfingar en þetta eru aðeins staðhæfingar. Það liggur ekkert skýrt fyrir réttarfarslega séð miðað við Evrópuréttinn að þessi hálmstrá fái haldið, að þau haldi í raun. Fjórfrelsið eins og það er túlkað af Evrópudómstólnum svokallaða er samtvinnað og því er beitt til hins ýtrasta þegar ágreiningur hefur orðið og hefur Evrópudómstóllinn yfirleitt dæmt með þeim hætti að herða á ákvæðunum og opna fyrir fjárfestingarréttinn og það er því fyllsta ástæða til þess að gjalda varhug einnig við þeim möguleikum sem verið er að vísa til þó ég skuli ekkert úr því draga að gott væri, ef unnt væri, að reisa einhverja rönd við t.d. með þessum hætti en ég tel að ákvæði þessa frv. sem hér er fram borið af hæstv. ráðherra séu næsta lítils virði, því miður.