Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:03:31 (1291)


[19:03]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, síðasta ræðumanns, þar sem hann undirstrikaði það í sínu máli að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefði fallið frá öllum fyrirvörum 5. maí 1991. Það liggur fyrir að í samningaferlinu um Evrópska efnahagssvæðið hafi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lokið um 90% af samningaferlinu. Það var einnig ljóst að það var mjög erfitt að ganga til baka þegar einu sinni var búið að ná ákveðnum áföngum í þessu samningaferli. Meðal þeirra áfanga sem ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar hafði náð af sjálfsdáðun og án nokkurrar aðstoðar frá þingmönnum Sjálfstfl. á þeim tíma sem voru í stjórnarandstöðu var það að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði afsalað sér sérstökum fyrirvara vegna landakaupa. Hún hafði gert það.
    Ég vil í annan stað taka það fram að á þessum tíma lögðu menn sig ekki í líma við að skilja réttarstöðu okkar eins og hv. þm. komst að orði. Hvenær fóru menn að leggja sig í líma við að skilja réttarstöðu Íslendinga í þessu máli? Það var ekki á meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var hæstv. landbrh. því hann fylgdist ekki með málinu. Það var í raun og veru ekki gert fyrr en skýrsla var samin á vegum dóms- og kirkjumrh. og landbrh., þremenningaskýrslan sem við nefnum stundum svo, að réttarstaða okkar fór að koma í ljós. Og þar m.a. var varpað ljósi á það sem við sáum ekki í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar í apríl 1991, þá sáum við m.a. að fjárfestingarrétturinn sem slíkur er ekki sjálfstæður réttur.

Þetta er ekki fullyrðing eða staðhæfing heldur er þetta álit sérfræðinga sem könnuðu einmitt réttarstöðu okkar sem fyrrv. ríkisstjórn hafði láðst að gera.