Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:08:01 (1293)


[19:08]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög sérkennilegt að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli skjóta sér á bak við það að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi ekki samþykkt að þessir fyrirvarar féllu út en það hafi bara verið utanrrh. En ríkisstjórnin fór með völdin í landinu og hæstv. landbrh. á þessum tíma átti að sjálfsögðu að fylgjast með því að hagsmunum okkar væri haldið inni á hans sviði en það gerði hann ekki. Og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson getur ekkert bætt stöðu hans í þessu máli.
    Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að í yfirlýsingu minni frá vordögum 1991 þá kom það fram að ég var mjög andvígur því og hafði þungar áhyggjur af því að Íslendingar og útlendir menn hefðu nákvæmlega sama rétt til fjárfestingar á Íslandi. Við nánari athugun málsins hefur komið í ljós að þessi fjárfestingarréttur er ekki almennur. Auðvitað er það það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu að ekki sé til takmarkalaus fjárfestingaréttur í jarðnæði á Íslandi heldur sé sá réttur takmarkaður við atvinnuréttinn og stofnsetningarréttinn. Þetta skiptir miklu máli. Ég heyri það hins vegar að hv. þm. vill ekki að þetta skipti miklu máli en þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði.
    Að því er varðar svo önnur réttindi, eins og t.d. atvinnuréttinn og staðsetningaréttinn, getur vel verið að við þurfum að setja þær girðingar sem hér er verið að tala um en þær snerta ekki þennan almenna fjárfestingarrétt sem er að sjálfsögðu, ég endurtek, grundvallaratriði.