Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:21:08 (1296)




[19:21]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Angar þessa krabbameins sem er Evrópurétturinn og þróun hans teygjast víða. Þegar hv. þm. Tómas Ingi Olrich er að hugga sig við að það sé líklegt að hægt sé að greina á milli fjárfestingarréttarins sérstaklega og annarra þátta fjórfrelsisins, þá er hann að tala á veikum grunni. Hann er að vitna til álitsgerða sérfræðinga sem vita það mætavel eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti, að Rómarrétturinn er ekki eitthvað endanlegt, eitthvað sem stendur í dag heldur tekur þróun bæði í krafti þeirra gerða sem ákvarðaðar eru af ráðherraráði Evrópusambandsins, jafnlýðræðislega og sú stofnun starfar nú, sem og af dómstólnum sem er hið sterka afl og meira mótandi um grundvallarþætti en nokkuð annað. Og allir dómar Evrópusambandsins sem snerta fjórfrelsið falla í þá átt að njörva þessa þætti saman og styrkja þennan samrunagrundvöll hvað snertir fjárfestingarréttinn. Dómarnir um kvótahoppið t.d. eru dæmi um það á sjávarútvegssviði hvernig þeir falla, Factortame-dómurinn frá 1991 sem við Íslendingar þurfum sannarlega að gefa gaum.
    Ég vísa einnig til þess að í þessum álitsgerðum er ekki sterkara að orði kveðið varðandi það sem hv. þm. er að reyna að hanga á hér heldur en sagt er: ,,Álitamál er hvort líta beri svo á að frelsi til fjármagnsflutninga veiti sjálfstæða heimild til fjárfestinga, einkum með hliðsjón af rétti manna til að fjárfesta í fasteignum.`` Og einnig segir þar: ,,Af framangreindu sést sennilega að íbúar eins aðildarríkisins er dveljast í öðru aðildarríki geta ekki fjárfest í fasteignum á síðarnefnda ríkinu á grundvelli EB-reglna.`` (Forseti hringir.)
    Sem sagt, virðulegur forseti: ,,Álitamál er`` og ,,sennilega``. Þetta er nú hinn sterki grundvöllur sérfræðinganna.