Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 13:56:33 (1304)


[13:56]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja dálítið erfitt að lenda í því að umræðan slitnar í sundur með þeim hætti sem hér er að gerast en það er svo sem ekkert við því að gera. Ég ætla að rifja upp nokkur atriði úr umræðum um daginn og leggja nokkrar spurningar um leið fyrir hæstv. menntmrh.
    Ég vil þá fyrst víkja að jöfnunaraðgerðunum sem ætlunin er að viðhafa ef skólinn verður fluttur til sveitarfélaganna. Samkvæmt skýrslu sem við höfum undir höndum og er hér á borðum með rauðri kápu þá er gert ráð fyrir því að í fyrsta lagi verði flutt yfir til sveitarfélaganna af staðgreiðslufé svo sem eins og 90% af því sem skólinn kostar. Og það er flutt til skólanna, það eru skólarnir sem fá þessa fjármuni en sveitarfélögin eru ábyrgðaraðilinn um rekstur skólans. Síðan er gert ráð fyrir því að einhver hluti af því fé sem nú fer til þess að kosta grunnskólann fari til svokallaðra jöfnunaraðgerða. Þar eru menn væntanlega með í huga mismunandi stöðu dreifbýlissveitarfélaganna meðal annars mismunandi möguleika þeirra til að reka skóla, mismunandi möguleika þeirra til að skipuleggja stoðþjónustu, sérkennslu og fleira þess háttar.
    Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. í fyrsta lagi hvort þetta er rétt skilið hjá mér, hvort það er nákvæmlega svona sem menn hugsa sér að fara í þetta að menn ætli sér að taka þarna frá eins og 10--15% af staðgreiðslufénu, af upphæðinni, í þennan sameiginlega sjóð sem væri þá Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Mér sýnist að þetta sé svona og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það og bæta því svo við að mér finnst óeðlilegt að þessir peningar fari um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eingöngu. Mér finnst að menntmrn. eigi að ráða því hvernig þessir peningar eru notaðir. Mér finnst að menntmrn. sé einu treystandi til þess að fara með faglega forustu í þessu efni og þó að jöfnunarsjóðurinn heyri stjórnkerfislega undir hæstv. félmrh. þá tel ég að málið eigi að vera þar --- mér liggur við að segja aðeins að nafninu til. Hin faglega forusta og hin faglega ábyrgð eigi að vera í menntmrn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hann er sammála mér um þessa uppsetningu.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hann að því hvaða fjármuni erum við nákvæmlega að tala um. Það var satt að segja alveg ótrúlegt á síðasta fundi hér í þessari virðulegu stofnun þar sem einn þingmaður sem þekkir býsna vel til spurði: Er verið að tala um 5 milljarða eða 12? Ég hef nú grun um að það sé nær fyrri tölunni en þeirri síðari vegna þess að ég held að þegar menn eru að tala um 12 milljarða séu menn að draga inn í þetta stofnkostnað sem er fyrir löngu kominn til sveitarfélaganna og kemur þessu máli eiginlega ekkert við. En ég hefði viljað spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða tala er það nákvæmlega sem menn eru hér að ræða um? Og þá ætla ég að orða spurninguna nákvæmlega svona: Er það tala fjárlagafrv. fyrir 1995 plús 600--900 millj. eins og þær tölur eru reiknaðar út af Fjárlaga- og hagsýslustofnun? Mér sýnist að þetta sé talan sem menn eru að tala um að fari til sveitarfélaganna, þ.e. 6--6,5 milljarðar kr., eitthvað því um líkt, og þar með verður orðið býsna lítið eftir hjá fjmrh. af tekjuskattinum eins og menn sjá, væntanlega um 4 milljarðar kr. nettó þegar búið er að borga grunnskólann, borga barnabætur og borga vaxtabætur.
    Í þriðja lagi vil ég svo víkja að sérkennslunni sjálfri. Í gildandi lögum segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 54. gr.:
    ,,Börn og unglingar sem að dómi kennara og annarra sérfræðinga skóla og fræðsluskrifstofu þurfa sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, eiga rétt á kennslu við sitt hæfi, sbr. 2. gr.``
    Í frv. segir í 37. gr. nákvæmlega það sama. Það er alveg nákvæmlega það sama, það er í raun og veru enginn munur nema það stendur hér, með leyfi forseta: ,, . . .  eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi.`` Það er munur á orðalagi, en ég tel að það eigi ekki að þurfa að felast í þessari mismunandi framsetningu efnismunur. Eða hvað? Ég spyr hæstv. ráðherra: Er nokkur efnismunur á þessu? Ég held að það geti ekki verið. En ég sé hins vegar að það er reginmunur á því hvort ríkið sem borgar brúsann segir: Börnin eiga rétt á sérkennslu, eða hvort það stendur í lögum sem ríkið setur um skyldur sveitarfélaganna. Ég tel með öðrum orðum að með því orðalagi sem er á 37. gr. séu börnin ekki örugg með sérkennsluna þó að orðalagið sé það sama og í 54. gr. gildandi laga af því að í þeim er ríkið að leggja kvaðir á sjálft sig, en í frv. væru menn að leggja kvaðir á aðra aðila, þ.e. sveitarfélögin í landinu. Þess vegna segi ég það fyrir mitt leyti að ég tel að það sé ekki nægilega vel búið um sérkennsluna í frv. eins og það lítur út.
    Í fjórða lagi vil ég svo víkja að því atriði sem lýtur að hámarksstærð námshópa og meira að segja Samband sveitarfélaga tekur undir það að rétt væri að setja hámark á námshópa. Ég minni á það, hæstv. forseti, að stærð námshópa er undirstöðuatriði í kjarasamningum kennara. Það er aftur og aftur tekið fram í kjarasamningum kennara að þeirra vinna, þeirra laun, þeirra kennsluskylda miðist við tiltekinn fjölda í

bekk og ef það er bætt við, þá þurfi þeir að fá sérstaka fyrirgreiðslu og breytingu á sínum kjörum með alveg ákveðnum hætti. Það er því útilokað, finnst mér, að taka þetta atriði út úr lögum af því að þetta er fyrir utan allt annað undirstöðuatriði í kjarasamningum og ég tel þess vegna að það sé fráleitt og útilokað, þó að ekki komi til aðrar ástæður, að afgreiða frv. án þess að setja aftur inn ákvæði um hámarksfjölda í námshópi.
    Í fimmta lagi vil ég fagna því sem hæstv. menntmrh. sagði hér á síðasta fundi um málið og mér finnst skipta miklu máli í þessu samhengi, ég tel að hann hafi í raun lýst því yfir að það kæmi til greina að hans mati að eitthvað af sérskólunum væri hjá ríkinu áfram og hann nefndi Heyrnleysingjaskólann sem dæmi, ég lít svo á að það hafi verið dæmi, en ég gæti hugsað mér að þeir væru fleiri. Ég held satt að segja að sú upptalning á sérskólum sem fram kemur þarna í rauðu skýrslunni, sýni það að þessir skólar ættu mjög margir að vera hjá ríkinu og ég hvet til þess að hv. menntmn. setjist yfir það að eitthvað meira af þessum skólum en Heyrnleysingjaskólinn verði áfram hjá ríkinu.
    Í sjötta lagi ætla ég að koma að 11. gr. frv. þar sem fjallað er um skólahverfi og ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh.: Kom aldrei til tals að það yrði sett ákvæði um hámarksstærð skólahverfa? Hér var flutt stjfrv. fyrir nokkrum árum sem gengur út á það að skólahverfi séu ekki fjölmennari en eitthvað 10--15 þús. manns. Fannst mönnum í umræðum um málið í nefndinni eða í ráðuneytinu aldrei koma til greina að halda þannig á þessum málum að Reykjavík t.d. yrði hugsanlega skipt upp í skólahverfi? Það vita það vonandi allir hv. þm. hér inni að Reykjavík er eitt skólahverfi með þeim gríðarlega fjölda af börnum, kennurum og öðru starfsliði skóla sem kemur inn í þá mynd. Þar af leiðandi er bara ein skólanefnd í Reykjavík. Finnst ráðherranum ekki koma til greina að heimila sveitarfélagi að skipta sér í fleiri skólahverfi þó að það sé ekki skylt í lögunum? Ég vil biðja hann um að svara þessari spurningu hvort hann telur það ekki hugsanlegt að sveitarfélag, í þessu tilviki Reykjavík, fái heimild til að skipta sér í fleiri en eitt skólahverfi.
    Síðan er spurning, hæstv. forseti, hvort í þessari grein þurfi ekki að vera ákvæði um það að sveitarfélagi sé skylt að eiga aðild að skólahverfi. Er ekki nauðsynlegt að taka það fram? Auðvitað ganga menn út frá því að öll sveitarfélög verði aðilar að skólahverfi. En er ekki nauðsynlegt að taka það fram að sveitarfélag eigi að vera aðili að skólahverfi undir öllum kringumstæðum? Nú kann mönnum að finnast svona spurning skrýtin vegna þess að í öllum tilvikum vilji sveitarfélög vera aðilar að skólahverfi. En við höfum nýlegt dæmi um að það gæti hrokkið í sundur, þ.e. Mývatnssveitardæmið. Þegar gífurleg illska hleypur í málin, eins og menn þekkja þar og hendir á bestu bæjum, þá gæti það auðvitað farið svo að eitthvert sveitarfélag í hörkudeilum við annað segði sig úr lögum við skólahverfið og ákveði bara að gera þetta á eigin spýtur, t.d. með því að stofna einhvern sérstakan skóla fyrir börnin sem þar eru án þess að hlutirnir væru þar í allt of góðu lagi. Ég vil því líka spyrja: Finnst hæstv. ráðherra ekki koma til greina að hér sé um að ræða þá skyldu á sveitarfélögum að þau séu öll aðilar að skólahverfum?
    Ég heyrði tóninn í hæstv. menntmrh. í sambandi við Námsgagnastofnun og ætla út af fyrir sig ekki að fara út í það mál hér. Ég hef engan tíma til þess, en mér fannst hann satt að segja vera neikvæður.
    Ég vil skýra frá því, hæstv. forseti, að frá því að þessi virðulega stofnun fjallaði um málið fyrr á dögunum þá hefur Alþb. rætt um þessi mál, sérstaklega grunnskólafrv. og hefur gert um það sérstaka ályktun og ég vil lesa þá ályktun, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn Alþb. hefur fjallað um menntamál á fundi sínum 5.--6. nóv. 1994. Miðstjórnin telur að menntamál eigi að vera eitt þeirra viðfangsefna sem efst eru á dagskrá í íslenskum þjóðmálum. Heilsteypt stefna í mennta- og menningarmálum er ein mikilvægasta forsenda þess að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það sem gerist annars staðar. Góð menntun er ein af undirstöðum lýðræðis og efnahagsframfara. Í síðustu ríkisstjórn beitti Alþb. sér fyrir mótun menntastefnu í samvinnu samtök kennara, nemenda, foreldra og annarra sem hlut eiga að skólamálum. Árangur þessarar stefnumótunar birtist m.a. í eftirfarandi atriðum: Auknum framlögum til menntamála, nýjum lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, auknu sjálfstæði skólanna um mannaráðningar, breyttum lögum um Háskóla Íslands, auknu fjármagni til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Samhliða þessari stefnumótun voru teknar mikilvægar ákvarðanir í menningarmálum sem styrktu undirstöðu skólastarfs til lengri eða skemmri tíma og ber þar hæst þá ákvörðun að fella niður virðisaukaskatt af menningarstarfsemi.
    Í tíð núv. ríkisstjórnar hafa framlög til menntamála hins vegar verið skorin niður. Þau hafa lækkað um 2,1 milljarð kr. frá árinu 1991. Þrengt hefur verið að faglegu frelsi skólanna, samráði við kennara hefur verið hafnað við stefnumótun og þau frumvörp sem fyrir liggja um málefni skólanna eru illa undir búin. Ekki er við því að búast að frv. til laga um grunnskóla verði afgreitt á því þingi sem nú situr þar eð veigamiklir þættir málsins eru vanbúnir til afgreiðslu.
    1. Stoðþjónusta er í uppnámi samkvæmt frv. og gerð er tillaga um að fella sérkennslu út úr grunnskólalögum.
    2. Ekki eru tryggðir hagsmunir barna í dreifbýlinu og engin ákvæði eru í frv. um hámarksfjölda í bekkjardeildum.
    3. Ekki hefur verið gengið frá kjaramálum kennara vegna lífeyrisréttinda og annarra sérstarfstengdra réttinda þeirra.
    4. Ekki hefur tekist sátt við sveitarfélögin um tilflutning grunnskólans til sveitarfélaganna, m.a. vegna þess að fjármagnið sem ætlað er til grunnskólans er ekki nægilegt.

    Það er skoðun miðstjórnarinnar að rétt sé að fresta afgreiðslu grunnskólafrv. Óhjákvæmilegt er að búa betur um hnúta áður en hægt er að taka endanlega afstöðu til þess.
    Miðstjórn Alþb. telur brýnt að flokkurinn beiti sér fyrir því að menntamál verði eitt aðalmál kosningabaráttunnar sem fram undan er. Í þeirri baráttu leggur flokkurinn fram verk sín og bendir á ,,Til nýrrar aldar`` --- stefnuna sem mótuð var meðan Alþb. hafði með menntamál að gera.
    Skólamál, rannsóknir og menntun eiga að vera forgangsatriði á komandi árum. Alþb. telur áríðandi að framlög til skólamála hérlendis verði svipað hllutfall af þjóðartekjum og gerist í grannlöndum okkar. Alþb. mun því beita sér fyrir markvissri uppbyggingu skólakerfisins í stað þess niðurskurðar sem núv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir.``
    Eins og menn heyra, hæstv. forseti, af þessum upplestri, þá eru það tvö mjög þýðingarmikil efnisatriði sem eru í þessari ályktun. Annað er það að skólarnir og menntamálin eigi að hafa forgang hér í þjóðfélaginu á komandi árum og svo hitt að það sé skynsamlegt að fresta því frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að margar mikilvægar forsendur þessa máls séu enn þá óljósar.
    Þá kem ég að lokum að því, hæstv. forseti, sem aðeins bar hér á góma á síðasta fundi, m.a. í orðaskiptum hæstv. ráðherra og hv. 3. þm. Norðurl. v. og það er þetta: (Gripið fram í.) Norðurl. vestra. Ég var að tala um hv. þm. Ragnar Arnalds, en mundi líka eftir hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur reyndar. Það er gert ráð fyrir því að þetta frv. geti í fyrsta lagi orðið að lögum á síðustu dögum þingsins ef það gengur hratt fram. Þá ættu menn eftir að gera kjarasamninga við kennara á grundvelli þeirra laga. Þá ættu menn eftir að semja við sveitarfélögin á grundvelli þeirra laga. Og þá ættu menn eftir að ganga frá því hvernig skattatilflutningur ríkisins til sveitarfélaganna á sér nákvæmlega stað. Ég held með öðrum orðum, hæstv. forseti, að við stöndum frammi fyrir því að af mjög einföldum praktískum ástæðum liggi málið þannig að við getum ekki lokið því á þessu þingi. Þess vegna væri skynsamlegast frá sjónarmiði allra aðila að mínu mati að þessu máli verði frestað. Ég tel að í því sambandi gæti verið snjallt að það yrði sett í það milliþinganefnd þar sem kæmu að málinu fulltrúar allra flokka með hliðsjón af því að málið yrði lagt hér fyrir næsta þing.
    Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu sambandi að staldra að lokum aðeins við það og minna á það að umræðan hér hefur ekki fyrst og fremst verið um það hvort ætti að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna eða ekki. Umræðurnar hafa ekki snúist um það. Svo athyglisvert sem það nú er, þá hafa allir ræðumenn ýtt því vandamáli meira og minna til hliðar. En menn hafa talið að af öðrum efnislegum ástæðum væru málin þannig vaxin að það væri skynsamlegt að fresta málinu og ég hygg að frá sjónarmiði þeirra sem ákafir eru í að flytja skólann til sveitarfélaganna væri það einnig skynsamlegt að hinkra og skoða málin aðeins betur.