Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 14:14:42 (1305)


[14:14]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, endaði mál sitt á því að benda á að það hefði ekki verið rætt um það beinlínis hversu vel eða illa sveitarfélögin væru í stakk búin til þess að taka við rekstri grunnskólanna að öðru leyti en því að málið væri ekki nógu vel undirbúið fjárhagslega séð. Ég vil koma strax inn á þetta. Ég held að þau vandamál, sem smærri sveitarfélögin muni eiga við að etja við það hlutverk sitt að framkvæma grunnskólalög, verði það stór að það þurfi að íhuga mjög vel hvort þetta skref sé rétt. Að vísu vitum við það að öll viðleitni ríkisstjórnarinnar hefur núna sl. fjögur ár gengið út á það að færa kostnað og fyrirhöfn frá ríkinu til annarra aðila. Það getur vel verið að það sé rétt stefna en við verðum að gæta þess að þegar þessi skref eru stigin þá séu þau ekki á kostnað hins almenna borgara í samfélaginu og allra síst að það sé á kostnað barnanna sem eiga að byggja þetta land og vera framtíð þess. Ég dreg mjög í efa að málum sé komið það á veg í undirbúningi að hægt sé að ætlast til þess einkum og sér í lagi að smærri sveitarfélögin geti staðið undir þeim kröfum sem nú er verið að gera til þeirra.
    Mig langaði að fara nokkrum orðum um örfáar greinar frv. efnislega og byrja á því að benda á það að í 2. gr. er kveðið á um hlutverk skólans og hvað hann eigi að innræta eða kenna nemendum. Mér finnst vanta inn í þetta eina setningu um efni sem á síðustu vikum eða mánuðum hefur komið mjög í ljós að þarf að leggja sérstaka alúð við að innræta nemendum og það er ábyrgð á eigin atferli. Mér finnst að þessi setning ætti hreinlega að vera komin inn í grunnskólalögin til þess að undirstrika það að við ætlum að hefja herferð gegn þeirri þróun sem hefur orðið meðal barna að þau eru hætt að skilja, eða a.m.k. sum þeirra, hvaða áhrif eigið atferli hefur þegar þau brjóta gagnvart umhverfi sínu og ég tala nú ekki um gagnvart jafnöldrum sínum.
    Ég vil taka undir það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði áðan að það væri hugsanlega eðlilegt að það væri heimild til þess að skipta stærstu sveitarfélögunum í fleiri en eitt skólahverfi. Orðið skólahverfi hefur að vísu tvenns konar merkingu í hugum landsmanna. Skólahverfi í huga hins almenna borgara er hverfið í kringum einn skóla. Þannig hugsar hinn almenni borgari. En sá sem semur lögin skilgreinir orðið skólahverfi sem einn eða fleiri skóla sem tilheyra einu sveitarfélagi. Ég tel að þarna ætti ekki að standa orðið skólahverfi heldur skólaumdæmi, en það er kannski smekksatriði.

    Í 12. gr. frv. stendur að skólanefnd eigi að sjá til þess að skólanum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu. Það er einmitt þessi sérfræðiþjónusta sem er eiginlega í lausu lofti ef frv. verður að lögum. Það er augljóst að það á að leggja niður fræðslustjóra og alla þá starfsemi sem fer fram á fræðsluskrifstofunum. Það er ekkert sem bendir til þess að þeir eigi að halda áfram sínum störfum. Hvað á þá að koma í staðinn? Nánari skilgreiningu á þeirri þjónustu, hvernig hún á að vera framkvæmd og framreidd vantar algjörlega í frv. og ég tel mjög varhugavert að láta þetta fara svona í lausu lofti.
    Í 19. gr. frv. er fjallað um húsakynni, skólahúsnæði, og að mörgu leyti metnaðarfullt þó að bent hafi verið á að ýmislegt vanti þar inn í samt. En ég vil leggja áherslu á að þó það sé nauðsynlegt að hafa gott skólahúsnæði og glæsilegt en ef þeir sem vinna inni í þessu skólahúsnæði hafa ekki nægilega góðar aðstæður til þess að sinna störfum sínum þá er illa farið.
    Í 24. gr. er talað um umsjónarkennara. Ég hef alla tíð síðan ég kynntist því kerfi sem kennari haft mikið álit á því. Ég álít að hlutverk umsjónarkennara geti verið stórt en þó því aðeins að hann hafi aðstæður til þess að vinna verk sitt vel. Það þýðir að hann þarf að hafa nægan tíma á sínum starfsdegi til að sinna þessari þjónustu og hann þarf að hafa aðstöðu jafnvel til þess að vinna verk utan síns daglega vinnudags, það vita allir sem hafa verið umsjónarkennarar að þeir þurfa oft að gera það, og til þess að svo sé þá verður að gæta þess að kennarar þurfi ekki að vera að snapa sér aukapening út um allar trissur til þess að standa undir lífsnauðsynjum sínum. En umsjónarkennarahlutverkið er mikilvægt og verður þeim mun mikilvægara sem hlutur sérkennslunnar er minni því að um leið og sérkennslu- og stoðkennsluhlutinn er rýrður þá verður umsjónarkennarinn að koma í staðinn. Það hlýtur að vera hugmynd þeirra sem hafa samið þetta frv.
    Um námsstyrkjasjóðinn í 25. gr. vil ég aðeins segja að ég álít að það sé af hinu góða að slíkur sjóður sé settur á laggirnar og mjög nauðsynlegt fyrir kennara og aðra skólamenn að geta farið í klössun, ef svo má kalla það, þ.e. endurnám til þess að bæta við þekkingu sína.
    Í 27. gr. er talað um lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Þetta er svo til nýtt fyrirbrigði í skólalífinu á Íslandi meðal grunnskólabarna. Það er skynsamlegt og gott að geta lengt viðveruna en þó því aðeins að börnin séu ekki bara geymd þarna heldur að þau hafi fræðandi og þroskandi viðfangsefni og það sé skipulagt að þau fái það. Þá býður það heim mikilli mismunun ef börnin eiga að borga þessa þjónustu dýrum dómum. Þess vegna held ég að það sé nauðsyn að ákvæði sé um það að sveitarfélögin standi undir þeirri þjónustu sem veitt er í þessum lengda viðverutíma.
    Það er dálítið sérkennilegt að fyrir nokkrum árum var hugtakið sérkennari eins konar töfraorð og það var lausn á öllum vanda. Við sem höfðum verið að vinna í skólum um langan aldur vissum að það var ekki rétt. Ég leyfði mér þá að lýsa því yfir að ef umsjónarkennari og bekkjarkennari fengju lengri tíma og betri til þess að sinna sínu starfi og að það væri fækkað í bekkjardeildum, hverri einustu bekkjardeild, þá mundi þörfin fyrir sérkennsluna minnka. Ég fékk bágt fyrir þetta á sínum tíma en nú virðast fleiri hafa komist á þessa skoðun nema að ekki er nefnt hérna einu orði hver stærð bekkjardeilda eigi að vera. Og ef ekki er kveðið á um það að bekkjardeildir séu tiltölulega smáar, einkum og sér í lagi í yngstu bekkjardeildunum, þá held ég að við séum eins og sagt er á góðu máli nú til dags að komast í reglulega slæm mál.
    Við vitum það að börn sem koma úr leikskólum inn í 6 ára bekkina eru vön því að það sé ein manneskja sem annast 8 börn, ég held ég fari alveg rétt með það. Ef þau koma síðan inn í 6 ára bekk þar sem ein manneskja á að þjónusta og kenna 24 börnum þá er það þreföldun, ekki bara að það eru að koma ný viðfangsefni, nýjar kröfur til barnanna heldur er miklu minni einstaklingsathygli sem hægt er að veita hverju barni. Þetta verður að hafa í huga og gæta þess að breyting verði á svo að í hverri bekkjardeild, einkum og sér í lagi í yngstu bekkjunum séu færri börn.
    Í 12. og 42. gr. er enn þá talað um sérkennslu og sérfræðiþjónustu. Hún er eins konar feimnismál í þessu frv. og mér þætti fróðlegt að vita hver hugsunin er hvað viðvíkur þessari þjónustu. Á hún bara allt í einu að gufa upp og verða að engu eða hvernig á eiginlega að skipuleggja hana? Við þurfum ekki að ímynda okkur að í því þjóðfélagi sem við lifum í í dag þar sem mannlífið er mjög hverfult og öryggisleysi æskufólksins er afskaplega mikið að þörfin fyrir þetta fólk verði minni. Hún mun fremur aukast en minnka.
    Í IV. kafla frv. er talað um starfsfólk skólanna. Enn á ný rekst maður á það að lögð eru fram lagafrv. á Alþingi þar sem aðeins er rætt um hluta starfsfólks skólanna eða stofnananna. Ég held að það sé alveg rétt hjá mér að í leikskólum í Reykjavík séu 60% ófaglært starfsfólk og ég held að það sé líka rétt hjá mér að í grunnskólum, a.m.k. í Reykjavík, sé þriðji partur starfsmannanna ófaglærður. Þetta er eins konar huldufólk sem ekki má nefna, óhreinu börnin sem eru sett fram í eldhús þegar gestir koma og farið er með frv. inn í hið háa Alþingi. En þessu þarf að breyta því hlutverk hins ófaglærða sem að mínum dómi á alls ekki að vera ófaglærður heldur starfslærður og ég endurtek að það ætti eingöngu að vera starfslært fólk í skólunum þó það sé ekki kennarar. Hlutverk þeirra mun vaxa á komandi tímum en ekki minnka. Ég bið hæstv. menntmrh. að athuga þetta mjög vandlega. Við lengdan viðverutíma í skólanum þá vex stöðugt þörfin fyrir þetta fólk sem að mínum dómi á að vera starfslært þó það sé kannski ekki faglærðir kennarar.
    Í 30. gr. er talað um námsgreinar og nefndar kjarnagreinar. Í athugasemdum við 30. gr. segir að

í skýrslu þeirri sem þetta lagafrv. byggir á sé gert ráð fyrir að þær kjarnagreinar sem samræmd próf eru í séu íslenska, stærðfræði og enska. Það þýðir að ef þessu verður haldið til streitu þá erum við að minnka vægi Norðurlandamálanna á sama tíma og sótt er að Norðurlöndunum frá öðrum áttum, á sama tíma og Norðurlandaþjóðirnar þurfa svo sannarlega á því að halda að geta staðið saman í lífsbaráttunni. Ég álít að það séu brigðir við norrænan málstað ef slakað verður á kröfunum til kennslu í norrænum málum. Ég álít að það séu brigðir við norrænan málstað en það er líka óskynsamlegt. Hingað til hafa nemendur unnvörpum farið frá Íslandi til hinna Norðurlandaþjóðanna og fengið þar skólavist fyrir lítinn eða engan pening og notið jafns réttar og innfæddir eða aðrir Norðurlandabúar. Ég veit að vel getur verið að einhver ykkar segi að þetta muni breytast við að þeir gangi inn í ESB en ég held að vanhugsað sé að ganga út frá því að svo komnu máli. Ég held nefnilega að Norðurlandaþjóðirnar muni áfram reyna að standa saman í öllum þeim menningarmálum sem hægt er. Þess vegna álít ég að óskynsamlegt sé að slaka á námskröfum í Norðurlandamálum á Íslandi.
    Ég hef sannarlega sett út á ýmislegt í frv. en það er einnig margt gott í því. Eitt er svo gott að það liggur við að ég samþykki frv. eins og það kemur fyrir af því að 36. gr. er í því. Þar segir: ,,Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.``
    Heimild til að veita undanþágu frá því að þreyta samræmd lokapróf í íslensku en leggja fyrir sérstakt lokapróf í íslensku er líka nefnt í 36. gr. Þetta er slíkt framfara- og réttlætismál að ég get ekki orða bundist og mér finnst að menntmrh. og fólk hans, sem hefur samið þessa grein, eigi sérstakan heiður skilið fyrir.
    Það er ótrúlegt hve margir nemendur hafa þurft að þjást inni í skólakerfinu af því að þeir hafa ekki staðið jafnfætis við hina skólanemendurna vegna þess að þeir höfðu annað móðurmál. Þarna er ráðin bót á þessu og að mínu mati er þetta djásnið í frv.