Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 14:52:32 (1309)


[14:52]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir þetta með skólanefndirnar sem kom fram hjá síðasta ræðumanni vegna þess að það er ekkert verið að vantreysta þessum skólanefndum hvorki í hans orðum né mínum um daginn heldur er bara verið að segja að það er verið að ætla pólitískt kjörnum nefndum að fjalla um fagleg málefni. Það er óeðlilegt kerfi sérstaklega svona seint á tuttugustu öldinni.
    Hitt atriðið sem ég vil gera athugasemd við er það sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. að í rauninni hefði hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir svarað athugasemdum okkar um sérkennsluna um daginn. Ég tel það svar ekki liggja fyrir. Það sem ég var að reyna að segja og hef bersýnilega ekki gert nógu skýrt er þetta: Í 54. gr. gildandi laga er ríkið sjálft að leggja á sig þær kvaðir að tryggja sérkennslu í grunnskólum. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkið með lögum frá Alþingi leggi kvaðir á aðra aðila í þessu efni, þ.e. sveitarfélögin. Ég tel að þó orðalagið dugi að því er varðar ríkið þá dugi það ekki ef flytja á sérkennsluna til sveitarfélaganna. Ég tel þess vegna óhjákvæmilegt ef menn vilja, og ég reikna með að menn vilji það, tryggja sérkennsluna þá verði að ganga betur frá orðalagi 37. gr. en gert er í frv. eins og það liggur fyrir.