Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 15:58:03 (1315)


[15:58]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt má margt segja um frv., sem hér liggur fyrir, og m.a. í tilefni af orðum hæstv. menntmrh. verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst að ráðherrann geri aðeins meira úr málinu en efni standa til vegna þess að hann ætlar að fresta öllu því góða sem er í frv. fram yfir aldamót. Það er dálítið sérkennilegt að vera að flytja frv. um að taka á starfsmenntuninni og guð veit hvað, sjálfsmati eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi hér áðan, en þessu á svo öllu saman að fresta til 1999 eða 2000 þannig að í raun og veru gerist ekkert á næsta ári og þarnæsta ári þó að þetta frv. verði samþykkt, bókstaflega ekki nokkur skapaður hlutur nema það að náttúrlega verða aðeins öðruvísi lögin sem standa í lagasafninu, en að öðru leyti gerist ekki ýkja mikið í þessu efni, hæstv. forseti. Ég verð því að segja alveg eins og er að mér finnst nokkuð sérkennilegur þessi ákafi í menntmrn. á að ljúka þessu máli vegna þess að í bráðabirgðaákvæðunum aftast í frv. er allt tekið aftur það góða sem á að gera framan til í pappírnum.
    Í öðru lagi vil ég segja það, hæstv. forseti, að það góða sem menn vilja gera í þessu frv. samkvæmt ræðu hæstv. ráðherra hér áðan er allt hægt að gera samkvæmt gildandi lögum. Það þarf ekki að breyta neinu, ekki stafkrók í gildandi lögum til að gera það allt sem menn vilja gera af jákvæðum hlutum sem allir eru sammála um, t.d. varðandi starfsráðin, breytingu á fagnefndunum og þetta. Það er allt hægt að gera á grundvelli gildandi laga og þróa það hægt og bítandi áfram í samvinnu við verkmenntaskólana í landinu og atvinnulífið þannig að það er í sjálfu sér engin þörf á því að breyta lögum í þessu efni.
    Staðreyndin er auðvitað sú að fyrstu afskipti hæstv. menntmrh. af framhaldsskólunum eftir að hann tók við voru nú ekki mjög gæfuleg að því er þetta mál varðar. Það var bréfið sem var sent Menntaskólanum við Hamrahlíð og ætti nú að letra gullnum stöfum til aðvörunar í skólasögu Íslands. En í bréfinu stendur í grófum dráttum það að Menntaskólinn við Hamrahlíð sé vinsamlegast beðinn um að hætta við tiltekin áform sem fyrir lágu um breytingu á skipun áfanganámsins jafnframt því sem skólanum er tilkynnt um það að frumkvæði í framhaldsskólanum komi framvegis úr menntmrn. og það sé ekki ætlast til þess að það komi úr einstökum skólum.
    Þetta bréf er mjög frægt meðal framhaldsskólafólks í landinu þannig að ég sé ekki ástæðu til þess

að fara að lesa það upp og dró það þess vegna ekki með mér hér í stólinn. En í raun og veru hefði menntmrn. getað gert allt það góða sem menn eru að tala um núna ef þeir hefðu viljað, allt kjörtímabilið, þurftu ekki að gera neitt. En núna vill þannig til að að það eru að koma kosningar og eins gott að reyna að tína til á sig allar spjarirnar eins og kunnugt er og þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að segja að hann vilji koma í gegn þessu frv. og halda því fram að það sé fullt af einhverjum voðalegum nýjungum í þessu sem er svo sem því miður ekki. Satt best að segja var natinn starfsmaður í Háskóla Íslands sem gerði sér það til dundurs núna nýlega að hann taldi saman allar brtt. sem eru í þessari skýrslu sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich heldur á hér í salnum. Það er 91 tillaga ef ég man rétt sem er listuð aftan til í skjalinu. Þessi starfsmaður taldi hversu margar af þessum tillögum væru hér í þessari bók Til nýrrar aldar. Það eru 67 af 91. Það sem ber á milli, hvað er það? Það eru fyrst og fremst sjálfsmatsaðferðirnar hér inni sem á að fresta fram yfir aldamót og það er flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna. Að öðru leyti hefur mönnum ekki tekist að láta sér detta neitt nýtt í hug öll þessi þrjú ár annað en það að segja við skólana: Gerið þið ekki neitt. Bíðið þið, gerið ekki neitt. Og hvað þýðir stöðnun í skólamálum? Stöðnun þýðir afturför. Skólamál eru þannig að stöðnun þýðir afturför. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst margt af því sem sagt er hér nokkuð sérkennilegt þó að um einstök atriði frv. sé kannski óþarfi að setja á mjög miklar ræður.
    Í þriðja lagi vil ég láta það koma fram almennt af minni hálfu að ég tel að það sem hér er gerð tillaga um varðandi starfsnámið það hefði verið skynsamlegt að gera tilraun í verkmenntaskólum í nokkur ár varðandi þá þætti sem hér á að fara að taka upp í stað þess að ætla að umsteypa því öllu í einu. Það finnst mér ekki rétt að gera. Ég bendi á að það stendur yfir tilraun sem hv. Alþingi samþykkti á næstsíðasta ári um prentskólann og prentnámið. Sú tilraun er núna í miðjum klíðum. Og það hefur ýmislegt komið upp sem væri mjög fróðlegt fyrir hv. Alþingi og hv. menntmn. a.m.k. að fara yfir. Margt í þeirri tilraun hefur tekist vel og annað miður og þarf að laga og ég held að það hefði verið sniðugt að hinkra eftir niðurstöðum þeirrar tilraunar áður en farið var að flytja frv. á hv. Alþingi um málið nema það sé aðallega flutt til að koma af stað umræðum um málefni framhaldsskólans og það er fínt, það er þörf á því svo sannarlega, hæstv. forseti.
    Í fjórða lagi vil ég nefna það að mér finnst viss atriði í frv. vera þannig eins og menn hefðu kannski mátt vinna þau aðeins betur og ég nefni þar sérstaklega sem 4. lið í máli mínu núna áður en ég kem að frv. sjálfu, hugmyndirnar um reiknireglu fyrir rekstrarkostnað framhaldsskólans. Hæstv. ráðherra talaði mikið um að það væri alveg ígulsnjallt þetta reiknireglumál og það væri bara við því að búast að þetta mætti leysa úr miklum vanda fyrir rekstrarkostnað framhaldsskólans í landinu og það er vonandi að það verði. Gallinn er sá að þetta er óunnið mál. Og það stendur hér á bls. 36 í frv., með leyfi forseta:
    ,,Vinna við gerð reiknireglu af þessu tagi hefur enn ekki hafist fyrir alvöru . . .  `` Það er augljóst mál að þessi von sem ég heyri að ýmsir skólamenn eru að gera sér um að þetta þýði sjálfstæðari stöðu skólanna í fjárhagslegum efnum og þessi reikniregla sé afar snjallt mál sem mundi leysa allan vanda, ég held að málið sé augljóslega þannig að það er ekki nægilega vel unnið. Ég hefði talið skynsamlegra, hæstv. forseti, að taka upp í þessum efnum þá aðferð sem ég sé að hæstv. ríkisstjórn er að taka upp á öðrum sviðum. Og það er það sem ég kallaði á mínum tíma í menntmrn. skólasamninga og við gerðum við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og ég man ekki betur en hæstv. núv. ráðherra hafi fylgt eftir í sinni tíð. Ég held að menn eigi að velta því mjög alvarlega fyrir sér að taka upp samningsstjórnun að því er varðar framhaldsskólana sérstaklega og það sé miklu affarasælla en vera að búa til einhverjar sjálfvirkar reiknireglur sem fara bara inn í einstaka þætti rekstrarkostnaðarins. Skólasamningurinn eða samningsstjórnunin eins og ég hef séð það mál fyrir mér tekur í raun og veru á öllum þáttum málsins, þ.e. bæði rekstrarkostnaðinum sjálfum og líka því sem skólinn skilar út í þjóðfélagið, þ.e. þeim fjölda nemenda sem útskrifast úr skólunum á hverjum tíma.
    Í fimmta lagi vil ég mótmæla því alveg sérstaklega sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan að í frv. felist aukin valddreifing. Ég hef satt að segja aldrei heyrt aðra eins þverstæðu úr þessum ræðustól. Staðreyndin er sú að það er þvílík miðstýring hneppt í hendi menntmrh. með þessu frv. að það er engu lagi líkt. ( EKJ: Er þetta hálfgerður kommúnismi?) Ekki segi ég það nú kannski, hv. þm., en það er mál sem við gætum rætt við tækifæri. En svei mér þá, já, það er eðlilegt að hv. 4. þm. Reykv. detti það í hug.
    Í fyrsta lagi er hér gert ráð fyrir samræmdum prófum í framhaldsskólunum. Það á að fara að setja reglur um samræmd próf í öllum framhaldsskólum í landinu. Það er afar sérkennilegt mál og þýðir auðvitað bersýnilega minna sjálfstæði, frelsi og svigrúm þessara skóla en verið hefur. Náttúrlega eru menn þarna að koma til móts við þessar kvartanir ofan úr háskóla. En ég segi alveg eins og er, háskólanum er engin vorkunn að læra að meta það fólk sem kemur og knýr þar dyra. Háskólinn á ekki að þurfa að biðja um tommustokka sem menntmrn. býr til fyrir Háskóla Íslands. Háskóli Íslands á auðvitað að hafa burði til þess að meta þetta fólk og ekki að hafa hlutina þannig eins og þeir hafa stundum verið að mér liggur við að segja að einstakir framhaldsskólar og framhaldsskólakennarar hafi verið bornir út í umræðum fyrir þekkingarleysi, vankunnáttu og lélega frammistöðu. Það gengur ekki að það skapist skortur á trúnaði, trúnaðarbil á milli Háskóla Íslands og framhaldsskólanna í landinu. Ég tel að það sé miklu skynsamlegra fyrir Háskóla Íslands að leggja áherslu á samvinnu og samstöðu með framhaldsskólunum frekar en setja málin upp eins og gert hefur verið að undanförnu. Það eru ótrúlegir tónar sem hafa komið m.a. frá skólanum sem

stundum er kallaður Menntaskólinn við útitaflið en flestir þekkja hér undir nafninu Menntaskólinn í Reykjavík.
    Í öðru lagi verð ég að segja að það er auðvitað ekkert annað en miðstýring að ætla sér að setja ákvæði um brautir í lög. Það hefur aldrei nokkurn tíma nokkrum manni dottið annað eins í hug en í 16. gr. frv. er gert ráð fyrir því að setja það í lög hversu margar brautir eiga að vera í framhaldsskólunum á bóklegum greinum. Það stendur hér, með leyfi forseta:
    ,,Bóknámsbrautir eru þrjár: Tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut.``
    Þannig að ef einhver skólinn vildi nú t.d. setja upp svo að ég nefni nú þann skóla sem ég nefndi hér áðan, segjum fornmálabraut, þá verður að flytja brtt. við lög á Alþingi Íslendinga um það að fá leyfi til að setja upp fornmálabraut. Hið sama er að segja að því er varðar ýmsar aðrar brautir eins og t.d. tónlistarbraut sem hefur verið mjög mikilvægur þáttur í starfsemi ákveðinna framhaldsskóla. Það er ekki hægt að svara því til að kjörsviðaskipulagið leysi þetta mál. Það gerir það ekki. Það er augljóst mál t.d. að erlendur háskóli sem væri að taka við segjum nemanda af tónlistarkjörsviði máladeildar, þessi háskóli mundi ekki meta þá yfirlýsingu eins og ef um tónlistarbraut framhaldsskóla væri að ræða þannig að ég tel að þau rök, sem flm. frv. vafalaust hafa í þessu efni og vísa til kjörsviðs greinarinnar, 17. gr., ég tel að þau dugi ekki og þess vegna eigi auðvitað að strika þetta út og segja: Menntmrn. setur reglur um skiptingu þessa náms í brautir, en ekki vera að hneppa þetta í lög.
    Enn eitt miðstýringarákvæðið er það að setja inn ákvæði um aðalnámsskrá, það verði skrifuð niður aðalnámsskrá fyrir framhaldsskólana. Ég held að menn eigi mjög að gæta sín að ganga eins langt og þarna er gert ráð fyrir í þeim efnum og stöðlunarorðalagið kemur auðvitað upp um málið neðst á bls. 25 og efst á bls. 26, með leyfi forseta: ,,Fækkun námsbrauta auðveldar skipulagningu náms í skólum, eykur samræmi milli einstakra skóla og gefur möguleika á markvissu eftirliti með námsárangri nemenda.``
    Það vantar bara að það sé sagt hér í þessu frv. að það sé ætlunin að sjóða þetta allt saman niður í eina og sömu niðursuðudósina. Ég tel því að það sé víðs fjarri að hægt sé að halda því fram að hér sé um að ræða einhverja valddreifingu í þessu frv.
    Í fjórða lagi er það auðvitað ekki valddreifing að reka kennarana út úr skólanefndunum, það er ekki valddreifing. Það er ekki valddreifing að reka nemendur út úr skólanefndunum og gera hvað í staðinn? Standa þannig að málum að menntmrn. án tilnefningar ákveði meiri hluta skólanefnda. Það er ekki valddreifing. Það er valdsamþjöppun í hendi menntmrh. Það er líka valdsamþjöppun í hendi menntmrh. að mínu mati að skammta inngöngu í skólana með reglugerð frá menntmrn. Það er það sem stendur í 15. gr. frv. Það á að skammta inngöngu í skólana með reglugerð frá menntmrn. og um hana segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Í reglugerð skal kveðið á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist.``
    Það er augljóst mál að hér er ekki hægt að tala um valddreifingu, hér er í raun og veru um það að ræða að það er verið að safna stórauknu valdi í hendur menntmrn.
    En er það svo í öllum tilvikum í frv.? Svarið er nei. Það er það ekki vegna þess að í einu tilviki er um það að ræða að það er gert ráð fyrir því að áhrif ráðueytisins á ákveðna þætti starfsnáms minnki frá því sem verið hefur og þar er gert ráð fyrir því að atvinnulífið eins og það er kallað alltaf í þessum textum, það er eins og skólinn sé ekkert atvinnulíf, atvinnulífið ákveði meiri hluta í starfsgreinaráðunum eins og þau eru kölluð hér, hafi meiri hluta þar og ráði þar gríðarlega miklu. Ég tel út af fyrir sig að það sé gott og þakkarvert að menn reyni að hafa samvinnu við atvinnulífið sem kallað er svo í þessum pappírum. En ég tel ekki að það eigi að vera þannig að atvinnulífið ráði yfir skólunum á þessu sviði. Ég tel að þar eigi að vera jafnræði á milli. Og ég tel að það sé ekki þannig á málum haldið í þessu að það sé hægt að tala um jafnræði á milli skólanna annars vegar og atvinnulífsins hins vegar að því er varðar verkmenntanámið. Ég óttast þvert á móti, hæstv. forseti, að það geti orðið um að ræða talsverða togstreitu á milli atvinnulífsins og skólanna ef það kerfi yrði upp tekið sem hér er gert ráð fyrir.
    Í sjöunda lagi, hæstv. forseti, af almennum atriðum sem ég vil koma að eru ákvæði sem lúta að skólagjöldum. Í frv. sýnist mér að tekin séu upp þau ákvæði gildandi laga sem mig minnir að séu í 7. gr. gildandi laga eða alla vega mjög framarlega. Hins vegar eru ákvæði í 32. gr. gildandi laga um rekstrarkostnað skólanna. Þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntmrn.``
    Mér sýnist að þessi ákvæði séu alveg felld út. Ákvæðin um að ríkissjóður greiði allan rekstrarkostnað framhaldsskólanna eins og það er í gildandi lögum sýnast mér felld út samkvæmt þessu frv. Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. menntmrh. hvort Alþfl. standi að þessum tillögum sem gera ráð fyrir því að framhaldsskólinn verði fjármagnaður áfram og jafnvel í vaxandi mæli með skólagjöldum sem renni þá til rekstrar.
    Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þetta hefur verið eitt helsta pólitíska deilumálið um framhaldsskólann á undanförnum árum og hefur í raun og veru verið eina nýjungin í málefnum framhaldsskóla

sem núv. hæstv. menntmrh. hefur innleitt á sínum starfstíma. Eina verulega nýjungin, það er að innheimta skólagjöld.
    Þessu næst eftir að hafa rakið hér sjö almenn atriði vil ég koma síðan lauslega að frv. sjálfu í einstökum atriðum eins og ég hef tíma til, hæstv. forseti.
    Ég vil þá víkja aðeins, hæstv. forseti, að einstökum greinum í frv. og þá fyrst að 1. gr. frv. varðandi framhaldsskóladeildir við grunnskóla. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að menn ákveði að setja framhaldsdeildirnar sem sagt framhaldsskólamegin en það þarf auðvitað að taka sérstaklega á þessu máli og ég ætla að nefna dæmi.
    Ég nefni dæmi af framhaldsdeildinni á Patreksfirði og framhaldsdeildinni á Hólmavík. Þar er um að ræða deildir sem báðar eru í mjög nánum starfstengslum við grunnskólann þó að þær heyri formlega undir framhaldsskóla Vestfjarða. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort um það sé sátt við viðkomandi byggðarlög að þessar framhaldsdeildir verði skilyrðislaust framhaldsskólamegin og þar með slitnar talsvert mikið úr tengslum við grunnskólann á staðnum. Það er slæmt aðallega vegna þess að kennarar framhaldsdeildanna á þessum stöðum eins og á Patreksfirði og Hólmavík og eins var í Stykkishólmi og í Sælingsdal í Dalasýslu eru allir eða nær allir frá grunnskólanum. Skipulagning kennslunnar er því unnin á vegum grunnskólans þó svo að verið sé að kenna framhaldsskólanámsefni. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þarf endilega að taka þessar framhaldsdeildir grunnskólanna út úr 1. gr. frv.
    Í öðru lagi vil ég víkja aðeins að starfstímanum. Það er bersýnilega veruleg breyting frá því sem nú er. Hér er gert ráð fyrir því að kennsludagar verði ekki færri en 150 og árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum verði níu mánuðir. Hér hefur verið skotið inn nýju orði sýnist mér, það er orðið nemenda. Hér er talað um starfstíma nemenda í framhaldsskólum sem verði níu mánuðir. Það hlýtur að þýða að menn geri ráð fyrir því að vinnutími kennara verði talsvert lengri en hér er gert ráð fyrir. Ég tel það út af fyrir sig skynsamlegt að halda þannig á málum og spyr hæstv. menntmrh. hvort hafnar eru viðræður við Hið íslenska kennarafélag um þessa breytingu og aðrar sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Í þriðja lagi varðandi einstök atriði í frv. þá vil ég mótmæla því að kennarar og nemendur séu teknir út úr skólanefndum framhaldsskólanna. Ég sé engin rök fyrir því. Þessi stjórnsýslurök sem eru notuð í grg. frv. duga ekki neitt í þessu því auðvitað má þá halda þannig á málum að kennararnir víki af fundi og út úr nefndunum þegar verið er að fjalla um þeirra mál eða nemendurnir þegar fjallað er um þeirra mál. Ég tel í sjálfu sér að þetta sé alveg út í hött. Og þegar því er svo bætt við að ég sé ekki betur en menntmrh. fái einn að skipa þrjá af fimm mönnum í skólanefnd allra framhaldsskóla, það er ekki nokkur glóra í því hvað svo sem mönnum finnst um kennarana að menntmrh. eigi þrjá menn af fimm í öllum skólanefndunum. Það er algjörlega út í hött og engin rök fyrir því að mínu mati, hæstv. forseti.
    Í fjórða lagi vil ég víkja að 7. gr. þar sem segir: ,,Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða`` o.s.frv.
    Hér er um að ræða sama orðalag og í gildandi lögum ef ég man rétt, ég held að það sé alveg það sama. Þá er það spurningin: Hver ákveður þau skólagjöld sem ekki eru innritunargjöld og pappírsgjöld o.s.frv. en renna til rekstrar skólanna og hvernig er það ákvarðanaferli? Það vildi ég gjarnan að hæstv. menntmrh. segði okkur frá. Síðan vil ég geta þess að það er álitamál hvort taka þarf fram í lögum að nemendafélögin ákveði gjöld til nemendasjóða af sínum félagsmönnum. Ég sé í sjálfu sér engin sérstök rök fyrir því að hafa það í lögum en ef þau eru fyrir hendi þá er ég tilbúinn að beygja mig fyrir því en ég sé engin sérstök rök fyrir því.
    Í fimmta lagi vil ég síðan víkja að 11. gr. frv. þar sem talað er um að menntmrh. ráði skólameistara til fimm ára í senn. Ég hefði talið rétt að bæta þar við: . . .  fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar og að fenginni umsögn kennarafundar.
    Ég tel eðlilegt að kennarafundur fjalli um það hver er ráðinn skólameistari til fimm ára í senn. Ég vil fyrir mitt leyti spyrja að því hvort hæstv. menntmrh. gæti hugsað sér að fallast á að þarna yrði komið inn því ákvæði að leita þyrfti umsagnar kennarafundar eða kennara við skólann áður en gengið væri frá ráðningu skólameistara.
    Þá kem ég í sjötta lagi að 15. gr. frv. sem er í raun og veru ein mesta breytingin í frv. Ég ætla fyrst að nefna að það er gert ráð fyrir því að breyta því skilyrði sem gilt hefur um 18 ára fólk. Í gildandi lögum var það þannig að 18 ára einstaklingur gat gengið beint til náms í framhaldsskóla en hér er gert ráð fyrir því að þetta gerist ekki nema að undangengnu mati. Í greinina hefur verið stungið inn orðunum ,,að undangengnu mati``. Ég held að það væri mjög æskilegt að fá aðeins nánari skýringar á því vegna þess að ég skil orðin svo að skólastjórn viðkomandi skóla eða skólameistari geti líka takmarkað inngöngu þessa fólks, þessara 18 ára nemenda, þannig að skólinn sé heldur ekki opinn fyrir þeim, það sé líka mögulegt að setja síu, setja þröskuld, gagnvart þessum 18 ára skattgreiðendum og kjósendum ef þeir sækja um aðild að framhaldsskólum.
    Varðandi þessa 15. gr., hæstv. forseti, verð ég að segja alveg eins og er að ég tel að þetta sé langalvarlegasta greinin frá skólafaglegu sjónarmiði séð vegna þess að hér er gert ráð fyrir því að þrengja verulega inngönguna í þessa skóla. Ekki á þeim forsendum að skólarnir sjálfir endurskilgreini markmið sín, setji þau skýrt fram og nemendur mæli sig svo við þau á sínum námstíma heldur með því að það er opnuð leið til að búa til inntökupróf í hvern einasta framhaldsskóla --- eða hvað? Er það ekki þannig, hæstv.

menntmrh., að opnuð sé leið til þess að skólarnir geti að fenginni reglugerð frá ráðuneytinu sett á inntökupróf í hvern einasta framhaldsskóla?
    Í sjöunda lagi vil ég mótmæla því sem ég nefndi áðan varðandi það að taka í lög ákvæði um brautaskiptingu eins og gert er í 16. gr. Ég tel að það sé algjörlega óeðlilegt og ég flutti rök fyrir því áðan.
    Í áttunda lagi vil ég víkja að orðalagi 17. gr. Það er alveg rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan að það er ekki mikil áfangaskólahugsun í 17. gr. vegna þess að þar er bersýnilega fyrst og fremst verið að hugsa um bekkjakerfisskóla. Bara þetta orðalag, með leyfi forseta, skýrir þetta nægilega vel:
    ,,Námsbrautir framhaldsskóla skulu skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins.``
    Það er alveg augljóst mál að hér er ekki gefið það svigrúm sem er í áfangakerfisskólunum eins og það hefur verið þróað á undanförnum árum. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þessir áfangaskólar sem við erum með hafa reynst vel. Þeir hafa vakið athygli víða um heim. Hingað hafa komið sendinefndir að skoða þá og kynna sér það sem hér hefur verið gert. Ég hygg reyndar að þróunarstarfsemin sem hefur verið í áfangaskólunum sé með því merkasta sem unnið hefur verið í skólamálum á Íslandi á síðustu áratugum. Það leiðir reyndar hugann að því að í þessari umræðu um framhaldsskólana þá er eins og það sé aldrei gert neitt af viti í framhaldsskólunum. Menn tala aldrei um að þarna sé verið að útskrifa þrátt fyrir allt heldur mannvænlegt fólk sem skilar sér myndarlega út í okkar samfélagslíf.
    Í níunda lagi ætlaði ég einnig að nefna tengsl fornámsins við annað nám. Mér finnst 18. gr. eins og hún er snubbótt. Með leyfi forseta: ,,Fornám er skipulagt sem eins árs nám fyrir nemendur sem ekki hafa náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi.`` --- Hvað á svo að verða um þetta fólk? Hver eru tengsl þess við skólann að öðru leyti? Ég spyr, hæstv. forseti.
    Í tíunda lagi ætla ég að undirstrika það að sú tilhneiging til stöðlunar og miðstýringar sem ég rakti í upphafi máls míns kemur mjög skýrt fram í 21. gr. frv., um aðalnámsskrá, námsskrá og mat, og í 22. gr. frv. líka.
    Í 23. gr. er ákvæðið um sjálfsmatsaðferðir skóla, eins og það heitir í textanum, en eins og ég sagði í upphafi máls míns þá er það allt saman tekið aftur í lok frv. og gert ráð fyrir því að fresta því fram yfir aldamót.
    Í 24. gr. er enn undirstrikuð þessi bekkjaskólahugsun að mínu mati þar sem orðalagið er þetta, með leyfi forseta:
    ,,Lokapróf úr framhaldsskóla er veitt geta rétt til frekara náms eða réttindi til starfa skulu vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur umsjón með gerð samræmdra prófa fyrir framhaldsskóla og úrvinnslu samræmdra lokaprófa. Í reglugerð skal kveðið nánar á um framkvæmd samræmdra prófa í framhaldsskólum.``
    Þetta er alveg niðurnjörvað hér, hæstv. forseti.
    Ég kem þessu næst að elleftu athugasemd minni sem er í IX. kafla frv. og fjallar um 26. gr. Þar er um það að ræða að skipa á samstarfsnefnd sem á að koma í staðinn fyrir iðnfræðsluráð. Þessi samstarfsnefnd er miklu fjölmennari en iðnfræðsluráð. Ég er ekki að gagnrýna að hún sé fjölmenn, það getur verið allt í lagi að hún sé fjölmenn. En mér finnst dálítið skrýtið að gert skuli ráð fyrir því að ráðuneytið skipi án tilnefningar fimm menn í átján manna stofnun. Það er alveg ótrúlega mikil tilhneiging til þess í menntmrn. núna að ráðuneytið tilnefni hlutina sjálft og án tilnefningar frá öðrum og helst án samráðs við nokkurn annan mann og hefur reyndar tekist misjafnlega eins og kunnugt er því stjórnarþingmenn hafa verið að flytja hér frv. um breytingu á lögum um Rannsóknaráð ríkisins vegna þess að menn telja ekki að menntmrh. hafi haldið nægilega vel á málum af þessu tagi. En ég tel út af fyrir sig að sú hugsun, ég vil láta það koma fram, sem er í 26. gr. sé eftir atvikum skynsamleg. Ég tel líka að sú hugsun sem kemur fram í því að kalla til fleiri starfsgreinar en hinar löggiltu iðngreinar sé skynsamleg. En ég tel hins vegar að það að vera með svona mikla tilnefningu frá ráðuneytinu sjálfu sé út í hött.
    Í tólfta lagi vil ég víkja síðan að starfsgreinaráðunum og endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Ég tel ekki skynsamlegt að atvinnulífið, sem svo er kallað í frv., eigi meiri hluta í þessum nefndum. Ég tel að það eigi að vera jafnræði með verkmenntaskólunum og menntmrn. annars vegar og atvinnulífinu hins vegar vegna þess að það vald sem starfsgreinaráðin hafa er gríðarlega mikið. Starfsgreinaráðið á að skilgreina þarfir starfsgreina fyrir kunnáttu, það á að gera tillögur um uppbyggingu starfsnáms og námsskrá í sérgreinum o.s.frv. Ég tel þess vegna að hér sé allt of mikið einhliða vald lagt í hendurnar á fulltrúum atvinnugreinanna sjálfra. Þetta þyrfti að vera í jafnvægi og ég óttast að sú stjórnskipun á verknáminu sem hér er gert ráð fyrir muni þýða togstreitu milli þessara aðila þegar fram í sækir.
    Í þrettánda lagi vil ég svo víkja að 33. gr. frv. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir því að framhaldsskólarnir geti boðið nám í öldungadeildum fyrir nemendur 18 ára og eldri. Hér er gert ráð fyrir því að hækka þetta aldursmark upp í 20 ár. Ég hef satt að segja ekki heyrt nein rök fyrir því og vil inna eftir því hver þau eru.
    Í fjórtánda lagi er gert ráð fyrir því að heimavistir við framhaldsskóla sem samkvæmt gildandi lögum eru byggðar af ríkinu, 100% kostaðar af ríkinu, verði framvegis kostaðar í hlutföllunum 60:40 eins og annað húsnæði framhaldsskólans. Ég held að það sé mjög varhugavert að höggva á uppbyggingu framhaldsskólanna með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Fyrir náttúrlega utan það að ástæða hefði verið til

í þessu frv., ég vil láta það koma fram sem mína skoðun, að taka á réttindamálum þess fólks sem stundar nám í framhaldsskólum fjarri heimilum sínum og þarf oft að kosta til fleiri hundruð þúsund kr. á ári í heimavistar- og fæðiskostnað. Það fólk er þannig statt að þegar um er að ræða jafnvel eitt barn, ég tala ekki um ef fleiri í sömu fjölskyldu stunda framhaldsnám fjarri heimabyggð, þá er meira og minna útilokað fyrir foreldra að halda slíku úti. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að ræða í fullri alvöru hvort ekki eigi að greiða þennan rekstrarkostnað skipulega niður þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á framhaldsskólastigi sem er ekki hægt í dag þrátt fyrir þau lög sem til eru um jöfnun námskostnaðar því að fjármunirnir þar eru allt of litlir. Það er algengt að fólk er að greiða 300--400 þús. kr. yfir veturinn fyrir börn sem eru í framhaldsnámi. Ég tel að á þessu máli eigi að taka því framhaldsskólakerfið stendur ekki undir nafni ef við tökum ekki á réttindum þessa fólks.
    Í sextánda lagi vil ég og spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að heimildarákvæðið um að skipta landinu í framhaldsskólahverfi er fellt niður? Ég skil ekki alveg af hverju það er fellt niður. Ég veit t.d. að að því er varðar framhaldsskólann í Norðurlandi vestra þá hefur þetta heimildarákvæði pínulítið hjálpað til þó það hafi kannski ekki leyst vandann í öllum tilvikum. Ég held að þetta heimildarákvæði gæti hjálpað til líka varðandi skipulagningu framhaldsskólans í Norðurlandskjördæmi eystra sem þyrfti að taka aðeins þéttar á en unnt hefur verið til þessa af margvíslegum ástæðum.
    Í sautjánda lagi vil ég segja að ég tel óhjákvæmilegt að setja í frv., ef það verður að lögum, ákvæði um að skólagjöld eigi ekki að taka til almenns rekstrar framhaldsskólans. Ég vil fyrir mitt leyti boða umræðu um það í menntmn. að sett verði inn ákvæði um að skólagjöld í framhaldsskóla verði ekki tekin til almenns rekstrar skólans.
    Að lokum þetta, hæstv. forseti, í átjánda og síðasta lagi. Á bls. 11 og 12 er það sem skiptir aðallega máli í þessu frv. Það er að allt það góða sem menn vilja gjöra framan til í frv. er tekið aftur í ákvæðum til bráðabirgða á bls. 11 og 12. Þess vegna teldi ég skynsamlegast af öllum ástæðum að hinkra aðeins betur með málið en halda auðvitað þeim mun þéttar áfram umræðum um framhaldsskólann, bæði hér og annars staðar. Vegna þess að samkvæmt stefnu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar er að þeirra mati greinilega nógur tími því ekkert af því sem máli skiptir á að taka gildi fyrr en árið 1999. Ég er að vísu ekki sammála þessu, ég held að við þurfum að láta ýmislegt taka gildi fyrr en það liggur ekkert á að afgreiða þetta frv. fyrr en kemur aðeins lengra fram á. Allar þær góðu endurbætur sem núv. hæstv. ráðherra í orði kveðnu vill framkvæma í framhaldsskólanum er hægt að framkvæma á grundvelli gildandi laga sem voru sett árin 1988 og 1990.