Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 16:56:07 (1317)


[16:56]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er skammt stórra högga í milli í skólamálaumræðunni á hinu háa Alþingi. Fyrir viku síðan var til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla sem lauk fyrr í dag og nú er það frv. til laga um framhaldsskóla sem er býsna stórt að vöxtum. Þó er staðreyndin sú, virðulegi forseti, að í raun og veru er hér að mestu leyti verið að festa í sessi það kerfi sem hefur verið að þróast í framhaldsskólum landsins á undanförnum árum, enda var fallið frá þeim hugmyndum sem kannski voru stórtækastar eða horfðu til mestra breytinga, þ.e. stytting framhaldsskólans í þrjú ár og lenging skólaársins. Það kann vel að vera að í framtíðinni komist menn að þeirri niðurstöðu að það verði rétt að lengja skólaárið eftir því hvernig atvinnumál kunna að þróast hér á landi, en ég hygg að við getum öll fagnað því að fallið var frá styttingu framhaldsskólans því að það var nú staðreyndin eftir því sem mér heyrist og sýnist að menn séu nú frekar að lengja skólana og hægja á námi, t.d. í Danmörku, frekar en það sé verið að stytta þá eins og hér stóð til að gera. Þegar við erum að horfa á okkar skólakerfi og það að skólaárið er aðeins styttra hér en erlendis þá leiðir það af sér fleiri ár ef meiningin er að kenna það sama þó að auðvitað sé hægt að nýta tímann á mismunandi vegu.
    Við skulum ekki gleyma því að okkar framhaldsskólakerfi byggist á mjög gömlum grunni, ævagömlum grunni. Af því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fór aftur til ársins 1946, þá gæti ég farið allt aftur á daga Ísleifs biskups, en íslenskir framhaldsskólar eiga rætur að rekja þangað. ( GJH: 1056.) Ég þori nú ekki alveg að fullyrða að skólinn hafi verið stofnaður þá þó að biskupsstóllinn hafi verið stofnaður. ( Gripið fram í: 1. sept.) En þessi framhaldsskólahefð okkar byggist á mjög gömlum grunni og gömlu og föstu skipulagi sem reyndar hefur verið að breytast mikið á undanförnum árum.
    Það segir hér í greinargerð með þessu frv. að það sé eitt meginmarkmið frv. að auka sjálfstæði skólanna, auka rétt þeirra til þess að taka ákvarðanir í eigin málum, en ég fæ nú ekki séð að hér sé um mikið aukið sjálfstæði að ræða. Ég vildi fá betri skýringu á því hvað átt er við því að miðað við það sjálfstæði og það frelsi sem framhaldsskólarnir hafa búið við hér um árabil þá er þetta auðvitað miklu meiri miðstýring og miklu meiri ákvarðanataka af hálfu menntmrn. en framhaldsskólarnir bjuggu við áður vegna þess að m.a. sú námsskrá sem hefur verið í gildi hefur verið fyrst og fremst til viðmiðunar og skólarnir hafa haft frelsi til þess að ákveða sínar brautir og sitt kennsluefni. Ég kem hér reyndar síðar að ýmsum öðrum atriðum sem mér finnst alls ekki ganga í þá átt að auka sjálfstæði framhaldsskólanna. Og það er einmitt meginspurningin, hvers vegna skyldu framhaldsskólarnir ekki hafa frelsi? Þetta eru ekki skyldunámsskólar og þeir eiga að þjóna margvíslegum tilgangi og hvers vegna skyldu þeir ekki hafa frelsi til þess að móta sína stefnu sjálfir? Auðvitað eiga þeir að uppfylla viss skilyrði. Þeir eiga að sjá til þess að fólk komi út úr þeim með þá menntun að geta farið í framhaldsnám á háskólastigi eða í öðrum skólum og það kemur fljótt í ljós hvort skólarnir standast það eða ekki. Því er ég ekki sátt við þá stefnu sem hér er fylgt og felst í því að negla niður námsskrá, negla niður námsbrautir og halda miklu fastar utan um framhaldsskólakerfið af hálfu menntmrn. Því eins og ástandið í framhaldsskólunum blasir við mér þá er þar um tvö meginvandamál að ræða. Annars vegar er ekki nægjanlega breitt framboð á námi, þ.e. það er ekki nægjanlegt námsframboð við hæfi þeirra nemenda sem sækja inn í skólana og hins vegar vildi ég nefna launamál kennara sem eru stórt og mikið vandamál og hefur haft mjög niðurdrepandi áhrif á allt þróunarstarf í framhaldsskólunum. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því.
    Á undanförnum, eigum við að segja 25--26 árum, hefur orðið alveg gríðarleg þróun í framhaldsskólum hér á landi með því að nemendum fór að fjölga mjög mikið. Stórir árgangar komu inn í framhaldsskólana og fleiri og fleiri sóttust þar eftir menntun. Þróunin hófst á því að það var farið að stofna nýja menntaskóla, eins og Menntaskólann við Hamrahlíð og Menntaskólann við Tjörnina, sem nú heitir Menntaskólinn við Sund og skólum fór smátt og smátt að fjölga úti á landi. Og einhvern veginn þá skapaðist sú krafa og sú hugmynd í þjóðfélaginu að það væri enginn maður með mönnum sem ekki hefði stúdentspróf. Það er í rauninni ákaflega merkilegt að velta því fyrir sér hvers vegna og hvernig þetta gerðist. Nú er ég alin upp í sjávarplássi og þegar ég var barn þá þótti það ekki merkilegt að vera að fara í framhaldsskóla, menn áttu bara að fara á sjóinn og í frystihúsið og vinna þar mikið og þéna mikið. Það voru undantekningarnar sem fóru í framhaldsskólanám. En síðan þá hefur þetta hugarfar breyst mjög mikið, sem betur fer, því við þurfum ekki á neinu meira að halda en því að mennta þjóðina og ég held að þessi breyting og þessi þróun hafi orðið íslensku þjóðfélagi mjög til góðs.
    Hins vegar er ég ekki eins sátt við þá þróun sem hefur orðið vart við á allra síðustu árum þar sem farið er að deila framhaldsskólunum niður og það er verið að stofna framhaldsdeildir á hinum ýmsu stöðum og eins og kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar þá eru það mikið til grunnskólakennarar sem sinna kennslu í þessum framhaldsdeildum. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé því miður verið að mismuna nemendum því það er það mikill munur á kennslu, á námi og á námsgreinum milli grunnskóla og framhaldsskóla að grunnskólakennarar hafa einfaldlega ekki forsendur til að kenna þessar greinar og þá er ég ekki síst að hugsa um greinar eins og stærðfræði, efnafræði, þýsku og slíkar greinar sem kenndar eru á fyrstu vetrum í framhaldsskólum. Því vil ég horfa á þessa þróun með gagnrýnum augum og ég óttast að það sé ekki verið að gera nemendum mikinn greiða með þessum framhaldsdeildum, þó ég skilji mjög það sjónarmið foreldra að vilja halda börnunum heima því auðvitað er það miklu ódýrara fyrir heimilin ef börnin geta stundað nám heima í héraði. En eins og málum er háttað þá eru þessar framhaldsdeildir ekki þannig í stakk búnar að þær geti boðið þessum nemendum upp á sömu gæði í menntun og stóru skólarnir.
    Í frv. er hlutverk framhaldsskólans skilgreint þannig að það sé að mennta eða stuðla að alhliða þroska nemenda. Hlutverk framhaldsskólans er að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu og að búa nemendur undir framhaldsnám. Það má segja að sú hugmynd sem sett er hér fram um aðgreiningu framhaldsskólanna byggist á þessu þríhliða hlutverki, þ.e. almennt nám, starfsnám og síðan það nám sem miðast fyrst og fremst við stúdentspróf.
    Ef ég reyni að feta mig í gegnum frv. lið fyrir lið, og ég ætla í leiðinni að koma inn á ýmis atriði sem tengjast því, þá vil ég fyrst koma inn á það atriði sem fjallar um starfstíma skólanna, sem ég nefndi reyndar aðeins áðan. Samkvæmt frv. á námstími að vera 150 dagar og það er ákveðin kvörtun í grg. og í nál. yfir öllum þessum tíma sem fer í próf. En ég fæ ekki séð, og ég miða þar við mína reynslu af kennslu og prófum, hvernig hægt er að stytta prófatíma mikið ef meiningin er að gera sömu kröfur til nemenda og gerðar hafa verið. Það þarf einfaldlega ákveðinn tíma til að taka próf og það þarf ákveðinn tíma til að fara yfir próf. Ég sé ekki alveg hvernig þetta á að ganga upp.
    Það vill nú svo til að sú regla, sem er í gildi í flestum framhaldsskólum og áfangaskólanum um 13 vikna haustönn og 13 vikna vorönn, er alveg nákvæmlega reiknuð út frá vinnutíma kennara og út frá stundaskrám og slíku og allir samningar kennara miðast við þetta tímabil. Það sem fram yfir fer er einfaldlega greitt sem yfirvinna. Þar af leiðandi kalla þessar breytingar, sýnist mér, og reyndar fleira sem hér er að finna, á samninga við Hið íslenska kennarafélag og menn hljóta að skoða það mjög rækilega hvað þetta þýðir fyrir vinnutíma kennara.
    Það atriði sem ég óttaðist einna mest í sambandi við lengingu skólaársins var einmitt vinnutími kennara því eins og ég þekki til þá vinna kennarar í framhaldsskólum mjög mikið yfir höfuð. Þar er unnin og hefur verið unnin mikil yfirvinna, fólk verður einfaldlega að gera það til þess að geta séð sér farborða og ég óttaðist að lenging skólaársins mundi hafa í för með sér enn þá meiri vinnu og er hún þó nóg fyrir.
    Ég ætla þá að víkja að skólanefndunum, þar sem um er að ræða nokkra breytingu og þá aðallega varðandi skipan þessara nefnda. Ég var að velta þeirri spurningu fyrir mér hvaða ástæða er fyrir því, ef við horfum á Reykjavík þar sem eru margir framhaldsskólar, hvaða ástæða er fyrir því að hafa margar skólanefndir í Reykjavík en þegar við horfum á grunnskólana þá dugar ein skólanefnd? Er samræmi í þessari skólastefnu? Nú get ég ekki ímyndað mér annað en að skólanefndir grunnskólanna muni hafa töluvert mikið á sinni könnu og ég fæ ekki séð að það sé slíkur eðlismunur á þessu tvennu og af þessu dreg ég þá ályktun að það ættu að vera fleiri skólanefndir t.d. í Reykjavík þar sem er fjöldi grunnskóla. Ég held að við þurfum að hugsa þetta mál svolítið. Ég veit reyndar að nefndin sem vann frv. velti ýmsum möguleikum fyrir sér og ég er alveg viss um að t.d. hver einasti framhaldsskóli þarf á sinni skólanefnd að halda. Það er full þörf fyrir sérstaka skólanefnd, það eru það mörg mál sem koma upp í stórum skólum og jafnvel þó þeir séu ekki mjög stórir.
    Sú breyting er gerð á skólanefndunum að fulltrúum kennara og nemenda er vikið úr nefndunum og þeir eru gerðir að áheyrnarfulltrúum. Ég þekki það sjónarmið skólameistara að þeim finnst óþægilegt að vera komnir undir ákvarðanir undirmanna sinna, þ.e. að kennarar séu að taka ákvarðanir um atriði sem

snerta skólameistarana, en ég held að það sé það mikilvægt að starfsfólk skóla, það þurfa ekki endilega að vera kennarar, það getur verið annað starfsfólk, og nemendur hafi raunveruleg áhrif á mótun skólans. Þannig að ég er andvíg þessu ákvæði.
    Eitt af hlutverkum skólanefndanna er að ákveða upphæð skólagjalda og eftir því sem ég best fæ séð þá er hér ekkert þak á þessum gjöldum. Það er ekkert í frv. sem setur þak á skólagjöldin. Ég rifja það upp að við kvennalistakonur lögðumst eindregið gegn skólagjöldum í framhaldsskólunum. Þó að þau séu ekki há þá er þetta grundvallarmál að nemendur séu ekki látnir standa undir rekstri skólanna. Ég ítreka það enn einu sinni að ég lít ekki þannig á að skólagjöld hafi verið innheimt í framhaldsskólum landsins í þeim skilningi að þau hafi gengið til rekstrar skólanna þó það kunni að hafa verið undantekningar á því. Þessi gjöld sem nemendur greiddu hafa fyrst og fremst runnið til starfsemi nemenda. En hér var tekin sú ákvörðun fyrir 1--2 árum að fara að innheimta skólagjöld í framhaldsskólum. Ég held að við þurfum að athuga þetta alveg sérstaklega, hvort skólanefndir eigi að hafa óskorað vald í því að innheimta skólagjöld. Það hefur verið í gildi sú regla og sú viðmiðun í menntmrn. að skólagjöldin væru ekki hærri en 3.000 kr., en ég fæ ekki betur séð en skólanefndirnar hafi þarna fullt vald.
    Hvað varðar starfsfólk skólanna þá fagna ég því atriði að það skuli vera takmörkun á ráðningartíma skólameistara, 5 ára ráðningartími, en ég tek undir það að ég held að það ætti að leita umsagnar kennara almennt jafnframt að fá umsögn skólanefndarinnar. Ég held að það geti oft verið gott að fá fram sjónarmið kennara og þeirra sem starfa við skólann þegar um ráðningu skólameistara er að ræða þó auðvitað eigi faglegar kröfur fyrst og fremst að ráða þar för. Ég vil undirstrika það sérstaklega. Það veitir ekki af að auka fagmennskuna í skólunum.
    Það er nýtt ákvæði hérna eftir því sem ég best fæ séð varðandi ráðningu deildarstjóra. Eins og ég þekki til í framhaldsskólanum þá hafa stöður deildarstjóra, það eru margar stöður deildarstjóra í framhaldsskólunum, gengið á milli kennara. Þeir hafa skipt þessu á milli sín eftir því hvernig á stendur. Ég sé sannast að segja ekki neina ástæðu til þess að vera að binda það í lög að skólameistari ráði deildarstjóra til tveggja ára. Þetta hefur einfaldlega verið afgreitt af kennarahópnum, allavega þar sem ég þekki til og ég sé einfaldlega enga ástæðu til þess að vera að binda þetta í lög.
    Varðandi inntökuskilyrðin þá er auðvitað haldið hér þeirri reglu sem tekin var upp fyrir allmörgum árum, í tíð Birgis Ísleifs Gunnarssonar, að framhaldsskólarnir séu öllum þeim opnir sem lokið hafa grunnskólaprófi. Samkvæmt 15. gr. þá segir að það beri að setja í reglugerð lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum, en jafnframt er gengið út frá því að einhver hópur nemenda komi þannig út úr grunnskólunum að það þurfi að setja upp sérstakt fornám. Annars vegar á að setja kröfur um lágmarkskunnáttu en hins vegar þarf að setja upp fornám fyrir nemendur sem hafa ekki þá kunnáttu að geta gengið inn í framhaldsskólann, að geta hafið nám í framhaldsskóla. Mér finnst vera mótsögn í þessu og ég spyr: Hvers vegna á það að vera hlutverk framhaldsskólans að gera nemendur hæfa um að hefja þar nám? Er það ekki hlutverk grunnskólans? Hvað er svona voðalegt við það að stoppa fólk í grunnskóla og að fólk þurfi hugsanlega að endurtaka þar síðasta árið eða að hægja á sér? Það er talað um það í grunnskólafrv. að fjölga samræmdum prófum, það verði samræmd próf a.m.k. þrisvar sinnum á grunnskólaferlinum. Og þá er það komið í ljós ef nemendur ekki ráða við námið í grunnskóla, hvers vegna á að vera að halda því áfram sem hefur kannski verið eitt mesta mein framhaldsskólans, að hleypa fólki þar inn sem ræður ekki neitt við neitt? Hvers vegna? Mér finnst vera mótsögn í þessu sem þarf að skýrast. Eiga þessar lágmarkskröfur í einstökum greinum eða greinaflokkum að vera það lágar að það þurfi samt að koma upp þessu fornámi? Ég held að það þurfi að skoða þetta aðeins nánar.
    Það var þannig í skólakerfinu fyrir allmörgum árum þegar landsprófið var við lýði og reyndar önnur lokapróf, að fólk varð einfaldlega að ná þeim prófum. Það er auðvitað mikil sorg og mikil synd að ná ekki prófum en ég spyr enn og aftur: Hvers vegna á framhaldsskólinn að takast á við það? Er það ekki hlutverk grunnskólans að útskrifa nemendur með þeim hætti að þeir séu þó hæfir til frekara náms?
    Þá kem ég að námsbrautunum. Ég vil líka gagnrýna það að bundnar séu þrjár meginleiðir, þ.e. starfsnám, bóknám og almenn námsbraut. Það sem ég vil gagnrýna er fyrst og fremst þetta að það skuli vera bundið í lög að námið á bóknámsbrautum skuli vera í þrennu lagi, þ.e. tungumálabraut, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut. Eftir því sem ég best veit hafa verið starfandi eðlisfræðibrautir við nokkra framhaldsskóla sem er svolítið annað en náttúrufræðibraut. Eða er meiningin í þessu að skilgreiningin á t.d. náttúrufræðibraut sé mjög víð? Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu. Er það meiningin sem sagt að með náttúrufræðibraut eigi að ná yfir allt raunvísindasviðið og þá jafnframt með tungumálabraut að það gefi þá kost á ákveðnum sveigjanleika? Ég held að það hljóti að vera. Það getur ekki verið meiningin að binda hér í lög að það beri að kenna náttúrufræðigreinar eftir einhverjum þröngum skilningi.
    Varðandi þessa almennu námsbraut sem ætlunin er að ljúka með framhaldsskólaprófi þá get ég svo sem tekið undir það markmið í sjálfu sér að það eigi að vera til fleiri leiðir í framhaldsskólanum. En miðað við það hugarfar sem hefur verið ríkjandi og þá kröfu að allir ljúki stúdentsprófi þá get ég ekki leynt því að ég hef efasemdir um að það verði eitthvert gagn í þessu. Það voru gerðar tilraunir í framhaldsskólakerfinu með tveggja ára brautir sem reyndar var sá galli á að þær leiddu ekki til neins lokaprófs. Þarna er auðvitað munur á, en þessar tveggja ára brautir runnu allar út í sandinn. Það gafst ekki vel. Það þótti ekki nógu gott að vera tvö ár í framhaldsskóla. Krafan var sú að halda áfram.

    Varðandi starfsnámið, þá hef ég líka velt þessu mikið fyrir mér. Það er mjög algengt að heyra þetta, fólk er að tala um að það þurfi að efla starfsnám, það þurfi að efla verknám o.s.frv. En hvað er fólk að tala um í raun og veru? Hvaða greinar? Hvaða þætti atvinnulífsins? Hvaða þörf á að þjóna? Fyrir mér er það afskaplega óljóst og einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að þetta sé svolítið mikið bundið gömlum hugmyndum um iðnskóla og iðnnám og menn hafi áhyggjur af því að það vanti rafvirkja, trésmiði og pípulagningamenn og fleira slíkt, en ég held að ef við erum að hugsa í alvöru að bæta starfsnám, þá þurfi að hugsa sig í gegnum þetta og ég er engu nær eftir að hafa lesið þetta frv., greinargerðina, nefndarálitið. Um hvað eru menn að tala? Í þessari nefnd sem á að vinna með skólunum, þ.e. samstarfsnefnd atvinnulífsins eða samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, þar er meiningin að séu fulltrúar frá ASÍ, VSÍ, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Vinnumálasambandi samvinnufélaga, en ég spyr: Eru þetta fulltrúar hins breiða atvinnulífs? Eru þetta fulltrúarnir sem hafa yfirsýn yfir þær breytingar sem eru að eiga sér stað í atvinnulífinu? Og hvað um opinbera geirann? Hvað um hið opinbera, starfsmenn sveitarfélaga og þróunina hjá ríkinu? Ég ætlast ekki til þess að fulltrúi BSRB hafi yfirsýn yfir allt það sem þar er að gerast. Þarna er um mjög stórar þjónustugreinar að ræða sem einmitt kalla á ýmiss konar sérhæfingu og sérhæft starfslið, ef við hugsum bara um heilbrigðisþjónustuna eins og hún leggur sig og náttúrlega þá þróun sem er kannski mest áberandi og tengist alls konar þjónustugreinum, tölvum og slíku. Ég veit ekki hvort menn eru hér á réttum brautum og hvort þessi skylduaðild, sem ASÍ og VSÍ virðast eiga að öllum nefndum sem settar eru á laggir, eigi einfaldlega rétt á sér. Ég held að við þurfum að skoða þetta rækilega.
    Þegar kemur að sjálfu skipulaginu, þ.e. brautakjörnum, kjörsviði og frjálsu vali nemenda, þá er hér verið að binda í lög ákveðið skipulag og maður getur spurt sig: Ættu ekki skólarnir einfaldlega að ráða því sjálfir hvernig þeir haga þessu? Þetta er ákveðin hugmynd sem þarna er verið að festa í lögin. Það er með þessum hætti í flestum skólum. Það er yfirleitt alls staðar eitthvert val.
    Aðeins um eftirlitið. Það er sterk hugsun í áliti nefndarinnar sem samdi þessi frumvörp að það sé mjög mikil þörf á auknu eftirliti og auknu bæði innra mati og mati annarra á því sem verið er að gera í skólunum. Og ég spyr: Hver á að annast þetta mat? Er Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála í stakk búin til þess að annast þetta mat og gera úttekt á sjálfsmati skólanna? Ég sé það ekki alveg fyrir mér að þessi stofnun sé það. Kannski er það misskilningur. Kannski hefur hún bæði fólk og þekkingu þar innan dyra sem ræður við þetta verk, en hér er allt óljóst um hvernig að þessu skuli staðið. Það er líka hugsanlegt að fá útlendinga og erlendar stofnanir til þess að gera úttekt á íslensku skólakerfi. Það er auðvitað allt til í því og ég get tekið undir það að ég held að það sé skólakerfinu mjög hollt að fá slíka úttekt og að lagt sé mat á það sem verið er að gera. En ég held reyndar að skólarnir hafi nokkuð góða sýn á sitt starf og það kemur fljótt í ljós ef nemendur ráða ekki við námið eða það sem þeir ætla sér eftir á, þó það kunni auðvitað að verða einstaklingunum dýrkeypt.
    Eins er með hugmyndina um samræmd próf. Það er mál sem ég á í verulegum erfiðleikum með og mér finnst ekki samræmast því framhaldsskólakerfi sem hér hefur verið við lýði. Ég get tekið undir það að ef við erum að hugsa um háskólann, hvort sem það er nú Kennaraháskólinn eða Háskóli Íslands, þá verða þeir auðvitað að hafa tæki til þess að meta sína nemendur. En ég er tilbúinn til þess að hugsa þetta mál mjög rækilega og ræða í starfi hv. menntmn. En ég er ekki sannfærð um að þetta sé af hinu góða og ég held að þetta bjóði svolítið upp á ákveðna einsleitni og einhæfingu í kennslu ef menn fara að taka alltaf mið af þessu, að kennslan hæfi prófunum. Hver er það sem semur prófin? Við hvað miða þeir? Hvaða hugsun er þar að baki?
    Ef ég tek bara dæmi af grein eins og sögu, þá er það t.d. ákaflega mismunandi hvaða áherslu sögukennarar leggja á t.d. kvennasögu. Á ég að treysta því að ef mig langar til að koma ákveðinni þekkingu til skila til nemenda, að þeir verði prófaðir í því af einhverri samræmdri prófanefnd eða einhverjir ákveðnir þættir sem ég vildi fá úttekt á hjá mínum nemendum? Það er margt sem þarf að athuga í þessu samhengi.
    Í frv. er kveðið á um námsráðgjöf og ég hefði gjarnan viljað sjá hér líka minnst á sálfræðiþjónustu sem ég held að sé mjög mikil þörf á að efla. Með öllum þessu breiða nemendahópi koma margvísleg vandamál upp og það hefur verið vandamál í framhaldsskólunum að hafa ekki nægjanlegan aðgang að sálfræðiþjónustu. Við þurfum einfaldlega að horfast í augu við það að það verður að bjóða nemendum upp á þjónustu af margvíslegu tagi.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að stytta mál mitt. Það sem vekur athygli við þessar breytingar sem hér er verið að leggja til er auðvitað það hvað þær muni kosta. Hvað kosta þessar breytingar? Það er greinilegt að hér er meiningin bæði að gefa skólunum og öðrum tíma til þess að aðlagast þessum breytingum en kannski ekki síst er það markmið að þetta hafi ekki áhrif á fjárlögin á allra næstu árum. Ég verð að minna á það að við höfum afar vonda reynslu af því hér á hinu háa Alþingi þegar verið er að fresta gildistöku laga og síðan er því frestað aftur og aftur að þau gangi í gildi og vil ég nefna sérstaklega ákvæði sem snerta grunnskólann. En eftir að hafa farið í gegnum úttekt fjmrn. á þessum breytingum þá er frekar erfitt að átta sig á því hvað þetta muni kosta vegna þess að það er margt óljóst í þessu sem á að gera. Þar er komið að stórum vanda, þ.e. því hvort það fást peningar til breytinga á framhaldsskólakerfinu.
    Ég vil undirstrika það svona undir lokin, virðulegi forseti, það sem ég sagði hér í upphafi að meginvandinn er sá að reyna að bregðast við þessum mikla fjölbreytileika sem er að finna hjá nemendum, þessum mismunandi nemendahópi sem hefur komið inn í framhaldsskólann og að reyna að finna leiðir til þess að bjóða nemendum upp á nám við þeirra hæfi. Og þegar verið er að leggja áherslu á styttri námsbrautir og starfsnám, þá hlýt ég líka að spyrja: Hverjir eiga að gera þetta? Ef þetta á að vera megináherslubreyting í framhaldsskólakerfinu, hverjir eiga þá að gera þetta? Það eru starfandi nokkrir verkmenntaskólar í landinu, þeir eru ekki margir, og það eru hefur gengið ákaflega illa að fá meira fjármagn til aukinnar verkmenntakennslu og ef þetta á að verða einhver meginbreyting þá hlýtur líka að verða mikil breyting á framhaldsskólunum sjálfum. Nú stendur til að byggja upp verkmenntaskóla hér á Reykjavíkursvæðinu í Borgarholtinu og það er starfandi verkmenntaskóli á Akureyri og einn á Neskaupsstað og síðan eru ýmsir af framhaldsskólunum með verkmenntabrautir á sínum snærum. Eftir því sem ég best veit og hef séð þegar ég hef heimsótt þessa skóla þá er verið að gera margt mjög gott og merkilegt í þessum verkmenntaskólum. Þar er verið að bjóða upp á fjölbreytt nám. En ég held að við þurfum svolítið að hugleiða það hvað við erum að tala um, hvers konar verkmenntun. Þurfum við ekki að hugsa okkur í gegnum þetta og reyna að átta okkur miklu betur á þörfum framtíðarinnar, ekki aðeins úti á hinum almenna vinnumarkaði heldur einnig í þjónustugeiranum og líka að reyna að skilgreina það hverjir eiga að annast þetta og hvar? Við þurfum að bæta okkar skólakerfi. Ég get svo sannarlega tekið undir það, en ég held að leiðin til þess sé ekki aukin miðstýring og aukið eftirlit með skólastarfinu heldur fyrst og fremst það að gera skólunum mögulegt að koma með nýjungar og að þróa sitt starf í samræmi við þarfir þessa síbreytilega nemendahóps.