Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 17:32:25 (1318)

[17:32]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Mikilvægt er að stefnumörkun í menntamálum sé afrakstur frjórrar umræðu þar sem tekist er á um ólík sjónarmið. Við mótun menntastefnu er leitast við að finna leiðir til að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins góða menntun og þjóðfélaginu vel menntað fólk til margvíslegra starfa. Þannig tekur stefnumótun í menntamálum til fjölmargra þátta í skólahaldi, svo sem markmiðssetningar, eftirlits og mats, náms og kennslu, stuðnings við skólastarf, stjórnkerfi skóla, fjárveitingar til skólahalds og skólarannsókna.
    Brýnt er að umræða um skólamál verði almenn og fleiri aðilar en skólamenn einir öðlist skilning á eðli þess flókna ferlis sem nám og kennsla er.
    Með aukinni umræðu um skólamál er full ástæða til að vona að þessi mikilvægi málaflokkur fái meira vægi í pólitískri ákvarðanatöku en þekking og skilningur almennings á skólamálum er einnig forsenda þess að aðhald að skólastarfi verði heilbrigt og sanngjarnt.
    Í mörgum Evrópulöndum er rík hefð fyrir opinberri umræðu um skólamál og lögð mikil áhersla á ábyrgð stjórnmálamanna á stefnumótun og framkvæmd skólastarfsins. Í Bandaríkjunum benda sérfræðingar nú á að virk þátttaka stjórnmálamanna og almennings í undirbúningi stefnumótunar og framkvæmda sé forsenda þess að takast megi að veita skólamálum þann forgang sem þeim ber og tryggja málaflokknum aukinn hlut í fjárveitingum. Þessi ábending á einnig við hér á landi.
    Í framhaldsskólana sækir hópur ólíkra nemenda hvað varðar undirbúning, þroska, áhugasvið og námsgetu. Talsvert skortir á að skólarnir geti sinnt margvíslegum þörfum þessa hóps. Gildandi lög gera ráð fyrir að hver sá sem lýkur grunnskólanámi eigi rétt á skólavist á framhaldsskólastigi. Þetta lagaákvæði hefur af yfirvöldum menntamála verið túlkað á þann veg að nemendur eigi rétt á að hefja hvaða nám sem er á framhaldsskólastigi án tillits til undirbúnings og árangurs í grunnskóla. Afleiðing þessarar stefnu er sú að margir nemendur eru lengi að finna sér nám við hæfi eða flosna upp frá námi. Stúdentsprófsbrautir hafa um langt skeið haft mest aðdráttarafl í hugum nemenda og foreldra, en því miður vegnar mörgum nemendum illa í námi á þeim brautum. Námstími þessara nemenda er oft lengri en námsskrá gerir ráð fyrir og margir hætta námi ár hvert án skilgreindra námsloka.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gagnrýndi fyrrv. menntmrh., hv. þm. Svavar Gestsson, í umræðum um skólamál sl. þriðjudag og nefndi að í hans tíð hefði framhaldsskólinn verið opnaður fyrir alla án þess að skólarnir fengju tækifæri til að laga sig að þessum breytingum. Hv. þm. Svavar Gestsson svaraði því til að þetta hefði verið verk forvera hans í starfi, en hann gleymdi að geta þess að 16. gr., sem fjallar um inntökuskilyrði, var breytt í hans ráðherratíð 1989 í þá veru að felld voru niður ákvæði sem voru í lagagreininni um að nemendum væri skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt námsskrá hefðu þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Og enn fremur var fellt niður ákvæði um heimild til að setja lágmarkskröfur til inngöngu í ákveðna námsáfanga. Hann bar því einmitt fulla ábyrgð á því að framhaldsskólinn var opnaður fyrirhyggjulaust fyrir alla án tillits til þess hvort nemendur væru undirbúnir fyrir það nám sem þar fer fram eða hefðu möguleika til að standa sig í námi.
    Undirstaða alls skólastarfs er skýr markmiðssetning. Uppeldis- og menntunarmarkmið framhaldsskólans þurfa að endurspeglast í námsskipulagi framhaldsskólastigsins, námsskrá framhaldsskólans, skólanámsskrá og starfsháttum einstakra skóla og starfi kennara með nemendum. Fyrstu skrefin í nauðsynlegri stefnumótun fyrir framhaldsskólastigið hafa verið stigin með vinnu við það frv. sem hér er til umfjöllunar. En mikil vinna er fyrir höndum hjá þeim aðilum sem fá það hlutverk að vinna að áframhaldandi mótun og uppbyggingu þess. Það hlýtur að vera kappsmál þjóðinni allri að framhaldsskólinn festist ekki í fortíðinni heldur takist á við breyttar þjóðfélagsaðstæður. Móta þarf stefnu til framtíðar um nýjan framhaldsskóla sem er fær um að veita þá þjónustu og menntun sem þjóðfélagið og þegnar þess eiga tilkall til.
    Með breyttum þjóðfélagsháttum og stórauknum fjölda nemenda verður að gera verulega breyttar kröfur til framhaldsskóla. Niðurstöður kannana á námsgengi framhaldsskólanemenda hljóta að teljast mikið áfall fyrir framhaldsskólann og íslenskt þjóðfélag. Samkvæmt þeim virðist brottfall nemenda óeðlilega mikið og verulega skortir á eðlilegt námsgengi framhaldsskólanema. Skýrsla Félagsvísindastofnunar, Námsferill í framhaldsskóla, sem byggist á rannsókn á námsgengi árgangs nemenda fæddra 1969, er ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið hér á landi á námsferli nemenda í framhaldsskólum. Þar kemur fram að einungis 45% árgangsins höfðu lokið námi úr framhaldsskóla sex árum eftir grunnskólapróf. Um 30% höfðu hætt án prófs, um 10% voru enn í námi og um 13% höfðu ekki farið í framhaldsskóla. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hverfa um það bil 20% árgangs frá námi fyrstu tvö árin í framhaldsskóla. Á sama tíma er að jafnaði nálægt einn og hálfur árgangur skráður á fyrsta námsár í framhaldsskólanámi. Ástæður þessa eru eflaust margar og margvíslegar en helstar þeirra eru líklega fábreytt námsframboð. Nemendum stendur fátt annað til boða er í framhaldsskóla kemur en að hefja almennt bóknám sem stefnir að stúdentsprófi. Langstærstur hluti nemendahópsins innritast í slíkt nám á fyrsta ári, en því miður gengur ekki öllum jafn vel að ráða við þær námskröfur sem gerðar eru og þess vegna var brýnt að endurskoða námsframboð framhaldsskólans og námsuppbyggingu hans í þeim tilgangi að miða námið í ríkara mæli við þarfir einstaklinga, atvinnulífs og þjóðfélagsins í heild.
    Almennt menntunarhlutverk framhaldsskólans verður að efla og framhaldsskólinn þarf á markvissan hátt að stuðla að því að dýpka skilning nemenda á sjálfum sér og samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu og listum, náttúru og umhverfisvernd, stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi, samskiptum, samvinnu, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldum. Einnig er brýnt að framhaldsskólar stuðli að aukinni færni nemenda í kjarnagreinum sem við höfum skilgeint íslensku, ensku og stærðfræði þar sem færni í þessum greinum er undirstaða náms og starfs á ólíkum sviðum. Leggja ber áherslu á hagnýta þætti í kennslu kjarnagreina hjá öllum nemendum framhaldsskólans og að nemendur á lengri námsbrautum leggi stund á a.m.k. tvær af þremur kjarnagreinum allan námstíma sinn í framhaldsskóla. Eðlilegt er að bekkjakerfi og áfangakerfi þróist áfram hlið við hlið á framhaldsskólastigi eins og verið hefur og nauðsyn ber til að gerð verði rannsókn á ýmsum námslegum og félagslegum þáttum í báðum kerfum sem byggja má á við frekari þróun kennslufyrirkomulags á þessu skólastigi.
    Léleg skólasókn framhaldsskólanema, mikið brottfall úr skóla, tíð skólaskipti og lágt útskriftarhlutfall endurspeglar m.a. ríkjandi aga- og aðhaldsleysi hér á landi. Framhaldsskólar verða að beita öllum tiltækum ráðum til að styðja við nemendur og halda þeim að námi. Og þar þarf sérstaklega að efla hlutverk umsjónarkennara í framhaldsskólum og auka ábyrgð hins almenna kennara á stuðningi við nemendur.
    Einnig er nauðsynlegt að skipuleggja vinnutíma framhaldsskólanema betur á þann veg að í stað þess að kennt sé einungis í sex mánuði á ári og prófað í 6--8 vikur njóti nemendur leiðsagnar og handleiðslu kennara í lengri tíma árlega og vinnuálaginu verði jafnað yfir allan starfstíma skólans.
    Ég vík örfáum orðum að aga í tengslum við framhaldsskólafrv. Í íslensku samfélagi ríkir meira aga- og aðhaldsleysi en víða í nágrannalöndum. Í framhaldsskólum endurspeglast aðhaldsleysi m.a. í lélegri skólasókn og miklu brottfalli og flutningi nemenda milli skóla samfara tiltölulega lágu útskriftarhlutfalli eins og ég nefndi áðan. Skólar eru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir og hlutverk framhaldsskóla er m.a. að vera ákveðin kjölfesta í lífi uppvaxandi kynslóðar. Framhaldsskólar þurfa að beita tiltækum ráðum til að styðja við nemendur og halda þeim að námi þann tíma sem þeir eru skráðir í skóla. Nám í framhaldsskóla leggur mikla ábyrgð á herðar nemendum, mun meiri en þeir eiga að venjast í grunnskóla. Nemendum stendur til boða ráðgjöf frá yfirstjórn skólanna, námsráðgjöfum og umsjónarkennurum en endanleg ákvörðun um námsval er í höndum nemenda sjálfra.
    Á undanförnum árum hefur námsráðgjöf verið efld til muna í framhaldsskólum og eru nú starfandi námsráðgjafar í flestum framhaldsskólum landsins. Hlutverk þeirra er að liðsinna nemendum við námsval og varðandi ýmis vandamál er upp kunna að koma í tengslum við námið. Námsráðgjafar gegna veigamiklu hlutverki í framhaldsskólum en þeir einir hafa þó ekki bolmagn til að mæta þörfum nemenda fyrir ráðgjöf og leiðsögn.
    Brýnt er að auka stuðning við framhaldsskólanema til muna og á margvíslegan hátt m.a. með því að efla hlutverk umsjónarkennara. Sérhver framhaldsskólakennari þarf að taka ábyrgan þátt í að veita framhaldsskólanemendum nauðsynlegt aðhald og stuðning í námi. Skipuleggja þarf vinnutíma framhaldsskólanema betur þannig að þeir njóti leiðsagnar og handleiðslu kennara í lengri tíma árlega og vinnuálagi á nemendur verður að jafna betur yfir allan starfstíma skólans.
    Á síðustu árum hefur aukist mjög að framhaldsskólanemendur stundi launaða vinnu með náminu. Rannsókn sem gerð var á vinnu nemenda í tveim skólum á höfuðborgarsvæðinu veturinn 1990--1991 sýndi að meira en helmingur nemenda vann með námi. Af þeim sem unnu sögðu 17% stúlkna og 6% drengja það vera til þess að geta stundað nám, en um helmingur þeirra sem vann gerði það til þess að afla sér vasapeninga. Í rannsókninni er bent á að veruleg vinna framhaldsskólanemenda geti leitt til þess að námskröfur í skólum minnki. Það er mikilvægt að tekið verði á þessum vanda og þeirri spurningu svarað hvort ganga eigi út frá því að framhaldsskólanám sé full vinna og að námskröfur verði miðaðar við það eða hvort gera eigi ráð fyrir því í námsskipulagi og námskröfum að nemendur stundi vinnu með framhaldsskólanámi.
    Frá því framhaldsskólafrv. var lagt fram til kynningar á síðasta þingi hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Veigamest þeirra er eflaust að fallið hefur verið frá fyrirhugaðri lengingu skólaársins úr níu mánuðum í tíu og lágmarksfjöldi kennsludaga er færður úr 160 í 150 daga. Ég verð að játa að ég sé mjög mikið eftir þessum tillögum úr frv. Líta ber á menntakerfi okkar sem hluta af alþjóðlegri heild og gildir það jafnt um innihald og árangur skólastarfsins. Ef nemendur annarra þjóða hafa fengið nægan undirbúning til framhaldsnáms við 18 eða 19 ára aldur er full ástæða fyrir okkur að endurskoða þá stefnu að halda nemendum í framhaldsskóla fram að tvítugu. Þar með yrði almennur rammi um grunn- og framhaldsskólann hérlendis ekki verulega frábrugðin því sem gerist annars staðar. Einnig ber að líta til þess að sérhæft nám færist nú í auknum mæli yfir á háskólastig hér á landi sem annars staðar. Með því að stytta framhaldsskólann um eitt ár með lengingu skólaárs, betri nýtingu tíma og fjölgun skóladaga, mætti flýta því að nemendur geti tekist á við markvissan starfsundirbúning að loknu framhaldsskólanámi. Frekari rök fyrir styttingu framhaldsskólans er að finna í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu. Í mínum huga horfir sú breyting til framfara og framtíðar og ég tel raunar að líklegt sé að í náinni framtíð komist menn að þeirri niðurstöðu að stíga beri þetta skref.
    Ég vík nú að námsuppbyggingu framhaldsskólans. Nám í framhaldsskólum verður skipulagt samkvæmt frv. á námsbrautum en einnig verða námsleiðir fyrir nemendur sem illa geta tekist á við nám á framhaldsskólastigi. Nemendur sem ekki hafa náð námsmarkmiðum grunnskóla eiga kost á fornámi sem veitir undirbúning fyrir nám á námsbrautum framhaldsskóla eða námi í sérstökum deildum sem ætlaðar eru fötluðum nemendum.
    Aðalflokkar námsbrauta verða þrír. Bóknámsbrautir til stúdentsprófs sem búa nemendur undir háskólanám, starfsnámsbrautir til skilgreindra lokaprófa sem veita undirbúning fyrir störf á vinnumarkaði og almenn námsbraut til framhaldsskólaprófs sem styrkir almenna þekkingu og færni nemenda í kjarnagreinum en getur jafnframt verið skilgreindur hluti af námi á einstökum brautum.
    Nám í sérstökum deildum er nýjung frá gildandi lögum. Hér er verið að lögfesta ýmiss konar námsframboð fyrir fatlaða, einkum greindarskerta nemendur, sem þegar er rækt í nokkrum skólum og nægir að nefna starfsdeildina við Iðnskólann í Reykjavík sem dæmi.
    Fornám er skipulagt til eins árs og ætlað nemendum sem verulega skortir á námsundirbúning, eru t.d. undir lágmarkseinkunn í fleiri en tveimur námsgreinum á samræmdu prófi við lok grunnskóla og þurfa verulegan stuðning námslega og félagslega. Að loknu fornámi gefst nemendum kostur á að fara í stutt starfsnám eða þreyta á ný samræmd lokapróf úr grunnskóla til að geta hafið nám á námsbrautum framhaldsskóla.
    Bóknámsbrautum til stúdentsprófs er fækkað úr þrettán í þrjár og gert ráð fyrir að námskröfur verði auknar. Þrátt fyrir fækkun bóknámsbrauta verður hægt að leggja stund á sérhæft nám innan hverrar brautar á kjörsviði hennar, t.d. að taka íþróttagreinar eða listnám sem kjörsvið. Þó mun gert ráð fyrir að framboð á kjörsviðum verði takmarkað í hverjum skóla, að skólar sérhæfi sig og verkaskipting milli þeirra aukist.
    Starfsnámsbrautir eru það námsframboð sem leggja ber megináherslu á nú á næstunni. Gert er ráð fyrir að þær verði fjölmargar og ólíkar að uppbyggingu og innihaldi. Auk hefðbundins starfsnáms á lengri námsbrautum er gert ráð fyrir fjölbreytilegu stuttu starfsnámi, einnar til fjögurra anna löngu. Slíkt nám er ætlað nemendum sem velja stutt nám og vilja komast sem fyrst út í atvinnulífið. Í styttra starfsnámi verða áherslur allar mun hagnýtari en jafnframt verður að tryggja að námið nýtist nemendum ef þeir ætla að halda áfram skólagöngu þó síðar verði.
    Almenn námsbraut til framhaldsskólaprófs er ætluð nemendum sem eru óráðnir í hvaða nám þeir vilja leggja fyrir sig. Hún er eins árs nám þar sem undirbúningur nemenda í almennum greinum er treystur, en að öðru leyti hafa þeir verulega valmöguleika í bóklegum og verklegum greinum. Getur valið þá verið meira en helmingur námsins á almennri námsbraut. Nám á almennri námsbraut getur tengst styttra starfsnámi, en stutt starfsnám kann í einstökum tilvikum að vera þannig skipulagt að þar sé lítið sem ekkert almennt nám.
    Nýjung í frv. er að sett eru inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir framhaldsskólans. Þau eru sveigjanleg og mismunandi eftir brautum. Þegar inntökuskilyrði eru ákveðin fyrir tiltekna námsbraut er gert ráð fyrir að viðmiðin geti ýmist verið meðaltalseinkunn allra samræmdra greina, meðaltal samræmdra greina

og skólaeinkunna eða einkunnir í tilteknum samræmdum greinum og tilteknar skólaeinkunnir o.s.frv. Þannig getur valið á þeim greinum sem miðað er við verið ólíkt eftir því um hvaða námsbraut er að ræða. T.d. er gert ráð fyrir að hægt verði að miða m.a. við einkunnir í verklegum greinum til inntöku á starfsnámsbrautir.
    Í þessu sambandi er vert að geta þess að það verður mögulegt fyrir nemanda að innritast á tilteknar stuttar starfsnámsbrautir án þess að hafa lágmarksárangur til að geta innritast á námsbrautir framhaldsskólans. Þannig gæti nemandi með lítinn námsundirbúning átt kost á að velja á milli fornáms og stutts starfsnáms. Inntökuskilyrði á einstökum námsbrautum verða því í samræmi við þann undirbúning sem nauðsynlegur þykir til að geta stundað nám með árangri. Þannig aukast líkur á að nemandi sem hefur nám á tiltekinni braut geti lokið því á eðlilegum námstíma.
    Í námsskrá verða síðan skilgreindar brýr milli námsbrauta og kveðið á um hvernig nám skuli metið þegar nemendur flytjast milli námsbrauta eða skóla. Grundvallaratriði við skipulagningu námsbrauta er að kennsla hverrar námsgreinar sé í samræmi við lokamarkmið brautarinnar og í samhengi við annað nám á brautinni. Þannig hefur nemandi sem lýkur námi á tiltekinni braut stundað heildstætt nám þar sem hver þáttur styður annan að svo miklu leyti sem unnt er. Mikilvægt er að ákveðinn stígandi sé í náminu þannig að nemendur takist á við flóknari og erfiðari viðfangsefni eftir því sem á líður námið.
    Lokapróf á öllum námsbrautum framhaldsskóla verða samræmd í tilteknum greinum, en gagnrýnt hefur verið af háskólum og atvinnulífi að lokapróf úr einstökum framhaldsskólum séu ekki sambærileg milli skóla. Samræmd lokapróf veita nemendum og kennurum framhaldsskóla aukið aðhald og stuðla að því að sambærilegar námskröfur séu gerðar til nemenda sem stefna að sömu lokamarkmiðum í námi.
    Á síðustu árum hefur verið mjög einhliða áhersla á almennt bóklegt nám á kostnað verklegs náms og starfsnáms á framhaldsskólastiginu. Frv. sem hér er til umræðu felur í sér nýja stefnumörkun um starfsnám á framhaldsskólastigi, stjórnun þess og framkvæmd. Þar er gert ráð fyrir mun virkari þátttöku aðila atvinnulífs í tillögugerð og stefnumótun og skapaður vettvangur fyrir samstarf aðila atvinnulífs og skólamanna um framkvæmd starfsnáms.
    Það er gengið út frá því að starfsnám á framhaldsskólastigi verði forgangsverkefni í skólamálum og gert ráð fyrir því að nám á framhaldsskólastigi sem undirbýr nemendur fyrir störf í atvinnulífi verði mun fjölbreyttara heldur en það hefur verið til þessa. Það verður að vinna markvisst að því að efla áhuga ungs fólks á starfsnámi. Í því sambandi er brýnt að efla starfsnám að gæðum og fjölbreytni, að það hafi sem mesta hagnýta skírskotun og að nemandi sem velur starfsnám í framhaldsskóla eigi kost á að halda áfram námi að því loknu án þess að byrja á ný frá grunni. Þannig þarf annars vegar að byggja brýr af hinum ýmsu starfsnámsbrautum yfir á aðrar námsbrautir framhaldsskólans og hins vegar að námi á háskólastigi, t.d. með markvissum undirbúningi fyrir samræmd stúdentspróf. Jafnframt þarf að stefna að því að nemendur geti fengið starfsnám af tiltekinni lengd metið inn í nám á bóknámsbrautum framhaldsskóla, t.d. á kjörsviði eða sem valgrein, og loks þurfa viðfangsefni sem tengjast atvinnulífi þjóðarinnar að verða hluti af almennum námsmarkmiðum framhaldsskólans.
    Náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um stefnu og framkvæmd er skilyrði þess að samstaða náist um starfsnám á framhaldsskólastigi. Við frumvarpsvinnuna var tekið að nokkru leyti mið af starfsmenntakerfum Dana og Þjóðverja, en gæði og skipulag starfsmenntunar í þessum löndum nýtur mikillar athygli og viðurkenningar á alþjóðavettvangi.
    Stefna ber að valddreifingu í stefnumótun, skipulagningu og framkvæmd starfsnáms og að ákvarðanir um áherslur verði í auknum mæli færðar til aðila vinnumarkaðar. Með því að gefa hagsmunaaðilum kost á að hafa slík áhrif aukast líkur á að námið verði á hverjum tíma í samræmi við kröfur sem gerðar eru til starfsfólks í atvinnulífinu. Einnig má gera ráð fyrir auknum sveigjanleika og skjótari viðbrögðum við breyttum aðstæðum.
    Menntmrh. ber ábyrgð á útgáfu aðalnámsskrár og eftirliti með framkvæmd starfsnáms. Samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, sem í sitja fulltrúar samtaka atvinnurekenda, launþega og hins opinbera, verður honum til ráðuneytis við stefnumótun í starfsnámi. Markmið fagnámsins á einstökum námsbrautum verða sett fram af starfsgreinaráðum sem af miklum meiri hluta eru skipuð fulltrúum samtaka atvinnurekenda og launþega. Framhaldsskólar annast framkvæmd náms og kennslu samkvæmt skólanámsskrá sem unnin er á grundvelli aðalnámsskrár.
    Skólum verður heimilt að setja á fót sérstakar ráðgjafarnefndir með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að bættum tengslum skóla og atvinnulífs. Fyrirtæki og iðnmeistarar taka nema á námssamning eða í starfsþjálfun og loks verður heimilt að stofna kjarnaskóla fyrir einstakar starfsgreinar eða starfsgreinaflokka til að hafa forgöngu um þróun starfsnáms á viðkomandi sviði.
    Nú þegar er nauðsynlegt og brýnt að hefja vinnu við námsbrautir á tilteknum sviðum í náinni samvinnu við samtök atvinnurekenda og launþega og ég legg áherslu á að það verði ekki hafist handa um skipulagningu og framkvæmd nýs náms fyrr en fyrir liggur mat á forsendum fyrir starfrækslu nýrrar námsbrautar og þar með talið þá samkomulag aðila vinnumarkaðar um viðurkenningu námsins.
    Ég vík nú fáeinum orðum að gæðastjórnun í skólum, en það sem mestu ræður um árangur skólastarfsins, burt séð frá mismunandi einstaklingum, eru stjórnunarhættir, fagmennska kennara, stefnumörkun og heildarskipulag skólastarfsins, svo og sá andi sem ríkir í skólanum.

    Lagt er til í 23. gr. að í hverjum skóla verði teknar upp aðferðir til að meta skólastarfið þar sem m.a. verði lagt mat á kennslu og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Slíkar aðferðir eru ekki nýjar af nálinni því í meira en áratug hefur á alþjóðavettvangi verið lagt út af aðferðum altækrar gæðastjórnunar í skólaumbótum. Á fimm ára fresti verði síðan sjálfsmatsaðferðir skólans metnar af utanaðkomandi aðila. Mat á skólakerfinu og einstökum þáttum þess verði eflt á næstu árum til að afla áreiðanlegra upplýsinga um þætti eins og gæðastjórnun skóla, námsárangur og námsferil nemenda, kennsluhætti og áhrif þeirra á námsárangur, samskipti í skólum og tengsl heimila og skóla. Með því að beina sjónum að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna er reynt að fá heildarmynd af skólastarfinu eins og það er á hverjum tíma.
    Ýmislegt bendir til að stjórnvöld hér á landi hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með skólastarfi þrátt fyrir ákvæði í lögum og þar með gert að engu það aðhald sem er fylgifiskur slíks eftirlits. Lítið er um skipulegt mat á námsárangri eða innra starfi skóla að frátöldum samræmdum prófum. Brýnt er að á þessu verði breyting í þá átt að efla mat á sem flestum þáttum skólastarfsins. Ekki er nægileg vitneskja um innra starf skólanna, árangur af skólastarfinu eða viðhorf foreldra og kennara til skólastarfsins.
    Í úttekt OECD á menntastefnu á Íslandi frá árinu 1986 kemur fram sú skoðun að mikils ósamræmis gæti í námsmati í íslenskum skólum og að nauðsynlegt sé að meta stöðugt innihald kennslunnar, skipulag hennar og árangur. Þessi ábending gildir enn og brýnt er að stórefla mat á sem flestum þáttum skólastarfsins. Öll markmiðsbundin starfsemi krefst einhvers konar innra eftirlits. Það er skilyrði fyrir því að starfsfólk í fyrirtækjum og stofnunum nái góðum tökum á þeirri starfsleikni sem það þarf á að halda í starfi og njóti þeirrar starfsgleði sem fylgir því að valda vel sínu starfi. Í þessum efnum eru skólar engin undantekning. Skólarannsóknir leiða í ljós að námsárangur og annar uppeldislegur árangur er lakari í skólum þar sem fagleg forusta er lítil og kennarar faglega einangraðir en í skólum með virku innra eftirliti. Í góðum skólum er menntastefna útfærð í einstökum atriðum og kennsla skipulögð á heildstæðan og markmiðsbundinn hátt.
    Upplýsingaöflun um skólastarf er mikilvægur þáttur í skólastarfinu og hefur þann megintilgang að efla innra eftirlit í skólunum sjálfum. Það eru því viðbrögð skólanna og hagnýting upplýsinganna í daglegu starfi þeirra sem ræður úrslitum um árangur upplýsingaöflunarinnar. Stjórnun skólamála grundvallast að verulegu leyti á kerfisbundinni öflun upplýsinga og miðlun þeirra til hlutaðeigandi aðila. Þannig þurfa kennarar í starfi sínu á margvíslegum upplýsingum að halda um árangur kennslunnar, þarfir og getu nemenda og nýjungar í kennslufræði og kennslugreinum. Til þess að veita skólum faglega forustu þurfa skólastjórar á upplýsingum að halda um innra starf skólans, þ.e. um námsárangur, samskipti kennara og nemenda, kennsluhætti, fjarvistir, viðhorf nemenda og foreldra til skólastarfsins o.s.frv. Fræðsluyfirvöld þurfa á sama hátt að afla sér margvíslegra upplýsinga um starf skólanna til að geta sinnt því eftirlits- og þróunarhlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögum, m.a. til að grípa inn í ef ekki er farið að lögum og reglugerðum, og loks er regluleg upplýsingaöflun grundvöllur að stöðugri endurskoðun skólastefnunnar af hálfu stjórnvalda.