Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 18:03:04 (1319)


[18:03]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðalviðfangsefni þessa frv. og markmið er að sögn það, eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að tryggja það að það fólk sem byrjar framhaldsskólanám geti allt lokið einhvers konar framhaldsskólanámi. Það er sú stefna sem við byggðum á í tíð síðustu ríkisstjórnar og síðan hefur lítið verið gert með af því að þeirri stefnumótun var nú hent eins og kunnugt er.
    Vandinn er hins vegar sá að það er ekkert í þessu frv. sem á allra næstu árum tryggir það að þetta fólk sem hefur lent í blindgötu í framhaldsskólakerfinu komist út úr henni. Og það sem verra er, það er verið að búa til nýja blindgötu, að mínu mati, með því kerfi sem verið er að tala um á milli grunnskólans og framhaldsskólans. Ég held að þetta fólk sé ekkert betur sett að ráfa um einhvers staðar í myrkviði atvinnuleysis og ráðleysis á milli grunnskóla og framhaldsskóla heldur en að hafa þetta eins og það er jafnvel núna. Því miður er það svo með það fjölmarga unga fólk sem skólakerfið tekur illa á móti í dag að ekki er gert ráð fyrir að taka neitt betur á móti því í þessu frv. eins og það lítur hér út. Og þau fáu ákvæði sem í rauninni gætu kannski opnað möguleika þessa fólks er ekki gert ráð fyrir að taki gildi fyrr en að loknu, ekki þessu, heldur næsta kjörtímabili árið 1999. Þannig að því miður er það svo í þessu efni eins og öðru að góð meining gerir enga stoð.