Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 19:52:31 (1326)


[19:52]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Árið 1969 var fyrsta alvarlega tilraunin gerð til þess að breyta þeim framhaldsskólum sem höfðu starfað með hefðbundnum hætti í nokkur hundruð ár á Íslandi eins og áður hefur verið rakið. Auðvitað á framhaldsskólinn rætur sínar að rekja til gömlu biskupssetraskólanna en fyrir 25 árum voru að mér virðist fyrstu alvarlegu tilraunirnar gerðar til þess að rjúfa þessa beinu braut og a.m.k. koma fleiri brautum að. Auðvitað hafði verknám verið í landinu um alllangan aldur áður en hafði í rauninni staðið nokkuð utan við það kerfi. Þær deildir sem voru stofnaðar voru að tilhlutan þáv. menntmrh. sem var Gylfi Þ. Gíslason. Þær voru stofnaðar víða um land og áttu auðvitað að færa nokkurt líf inn í hin ýmsu byggðarlög í landinu. Þetta voru tveggja ára deildir og skiptust í fjórar brautir, þ.e. verslunarnám, hjúkrunarbraut, eðlisfræðibraut og uppeldisbraut. Fæstir staðir á landinu höfðu allar þessar deildir en a.m.k. einn hafði allar þessar deildir og það var Lindargötuskólinn í Reykjavík.
    Þessar deildir áttu dálítið undir högg að sækja í byrjun. Fólk hélt að ekki væri eins merkilegt að fara í þessar deildir eins og í landspróf og beint inn í menntaskóla, en smám saman unnu þær sér sess í vitund fólks og eins og einn nemandi sagði við mig löngu seinna: Um það leyti sem þessar deildir voru lagðar niður vorum við byrjuð að grobba af að hafa verið í þessum deildum.
    Sjálfsagt hefur eitthvað betra komið í staðinn, þ.e. fjölbrautaskólarnir. Fjölbrautaskólarnir koma til sögunnar í kringum 1970--1972. Þeir áttu líka að reyna að færa nokkra verknámsþekkingu inn í hið almenna skólakerfi og gerðu það auðvitað. Þessar deildir áttu að leiða fólk inn í hina ýmsu starfsvettvanga þjóðfélagsins en áður en lauk, þ.e. eins og er í dag, þá kemur í ljós að vandinn fyrir skólakerfið er sá að erfitt er að halda tækjakosti nógu nýlegum og þannig að hann fullnægi þeim kröfum sem atvinnulífið gerir. Því er kannski mjög eðlilegt að nú standi menntmrh. og þeir sem hafa samið frv. og hverfi nánast til baka, a.m.k. að sumu leyti til gamla lærlingskerfisins. Merkilegt er að horfa á þróunina hvernig fjölbrautaskólarnir og iðnskólarnir í kringum 1972 ætluðu að brjótast út úr lærlingskerfinu en hvernig við erum að leita inn í það aftur núna vegna þess að fjármagn vantar til þess að kaupa tæki sem hæfa örri þróun á hinum ýmsu starfsvettvöngum.
    Vonandi tekst að skapa slíkt námsumhverfi og samvinnu milli atvinnulífsins og skólanna að út úr því komi eitthvað enn þá betra en það sem við nokkurn tíma höfum haft.
    Ég verð að segja það að mér féllust hendur þegar ég sá hversu stórar nefndir eru í kringum starfsnámið. Samstarfsnefndin er 18 manna en ég veit ekki hvað starfsmenntaráðin eru stór og síðan koma einhver ráðgjafaráð sem bætast þar við og ekki er alveg ljóst heldur hversu stór eigi að vera. Þetta finnst mér hljóta að verða dálítið seint og erfitt í svifum. Þetta er auðvitað tilraun til þess að tengja saman þjóðlíf og atvinnulíf í landinu og skólakerfið og er í rauninni ekki nema gott um það að segja að fólk vilji mjög mikið reyna að tengja þetta saman því annars fáum við ekki staðist þær kröfur sem nútímaþjóðfélag gerir til starfsmennta en stærðin á öllum þessum nefndum og ráðum ógnar mér. Það var svo sem ekki í fyrsta skiptið árið 1969 að farið var að koma á einhverjum starfsnámsdeildum. Þær höfðu upphaflega verið í grunnskólanum eða gagnfræðaskólanum og hétu þar verknámsdeildir. Verknámsdeildirnar fengu því miður þann stimpil á sig þá að í þær sæktu nemendur sem væru eitthvað lakari til náms en aðrir nemendur. En eftir að hafa kennt í þessum deildum þá get ég borið þess vitni að svo var ekki. Þetta var alrangur dómur um þessar deildir, a.m.k. þær deildir sem voru á Reykjavíkursvæðinu. Einmitt í þessar deildir valdist fólk sem vissi hvað það vildi. Það stefndi að einhverju ákveðnu og vissi hvað það ætlaði sér að læra en var ekki reikult í ráði eins og gat átt sér stað með aðra nemendur í gagnfræðaskóla. Að vísu voru þetta nemendur sem voru fyrirferðarmiklir á köflum en afskaplega ánægjulegir að því leyti að stefnuna höfðu þeir.
    Þessar deildir voru lagðar niður um það leyti sem fjölbrautaskólarnir voru stofnaðir og áttu þeir auðvitað með brautaskiptingu sinni að koma í staðinn fyrir þær. Það getur vel verið að það hafi verið rétt en ég sé nú alltaf eftir þessum deildum sem voru m.a. sjóvinnudeild, trésmíðadeild og hússtjórnardeild. Margar fleiri deildir tveggja ára verknáms voru á gagnfræðaskólastigi.
    Því rifja ég þetta upp að mér finnst við vera komin pínulítið í hring, byrjuð á sömu brautinni aftur, þ.e. að sækja í lærlingskerfið.
    Í 4. gr. frv. er talað um fjárveitingar til skólanna og ýmsir hafa rætt um það í kvöld hvort fjárkerfið, sem er talað um bæði í 4. og 38. gr., skapi frelsi eða helsi fyrir skólana. Ég vona að það verði frelsi, ég vona að ákvæðið verði þannig að skólarnir geti haft ákveðnar reglur sem féð er veitt eftir og síðan geti þeir farið eins vel með og þeim er best lagið sjálfum og nýtt það sem þeir spara til alls konar framfaramála innan skólanna en að þeir eigi ekki á hættu að við næstu fjárveitingu verði það fjármagn sem þeir fá skorið niður tekið af þeim. Þetta er grundvallaratriði til að skólarnir geti talist hafa eitthvert fjárfrelsi eða yfirleitt athafnafrelsi.
    Skólanefnd er eitt af því sem á að koma inn í stjórn skólanna og ég held að það geti verið til góðs en ég er hrædd um að í skólanefndunum eins og í starfsnefndunum, sem eiga að fylgja starfsbrautunum, séu of fáir fagmenn úr kennarastéttinni sem eiga sæti í þessum nefndum og að ráð þeirra verði fyrir borð borin. Auðvitað er afskaplega mikilvægt að visst jafnvægi sé á milli þeirra sem koma utan að og vilja koma með góð ráð og stefnu og þeirra sem inni í skólunum eru og geta sagt þeim hvað er í rauninni mögulegt og skynsamlegt.
    7. gr. fjallar um skólgjöld. Við fyrsta lestur þessarar greinar fannst mér að skólagjöldin gætu orðið allmikil. Það er svo margvíslegt sem nefnt er þarna. Það sem ég óttast ef skólagjöldin verða há er það að þeir sem koma úr efnaminnstu stéttum hrökklist burtu frá námi. Ég veit það bara fyrir sjálfa mig að ég hefði aldrei farið í gegnum menntaskóla og upp í háskóla ef ég hefði þurft að borga há skólagjöld í þessum skólum og ég er alveg viss um að fjölmargir aðrir af skólafélögum mínum hafa sömu sögu að segja.
    Í 15. gr. frv. er fjallað um ákvæði sem mér finnst vera merkilegt. Það er að skólameistara er heimilt að undangengnu mati að veita nemanda sem er orðinn 18 ára inngöngu á einstakar námsbrautir framhaldsskóla þótt hann uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur við lok grunnskóla. Þetta er merkilegt ákvæði og má beita mjög til góðs, sérstaklega vissum hópum manna. Í samfélagi okkar eru hópar sem lenda milli steins og sleggju vegna þess að þeir hafa átt í erfiðleikum með að læra að lesa. Þetta er ekki fólk sem er illa gefið, þetta er fólk sem er kannski ljónvelgefið og væri hægt að nefna ýmsa sem hafa sama galla og þetta fólk og hafa verið meðal færustu manna í veröldinni. Þetta fólk gengur núna undir nafninu dyslexíufólk, fólk sem þjáist af því að heilahvelin vinna ekki rétt saman og getur það hindrað lestrar- og skriftargetu þó svo að námið leiki þeim að öðru leyti bæði í höndum og huga. Þetta ákvæði getur hjálpað slíku fólki vegna þess að við lok grunnskólans mun án efa verða gerðar ansi miklar kröfur til færni í íslensku og þá ekki síst í að rita íslensku.
    Þar sem talað er um námsskipanina, brautaskipanina, finnst mér merkilegt að sjá hversu þröng hún er, að bóknámsbrautirnar skuli aðeins vera þrjár, þ.e. tungumálabraut, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut. Það var aðall fjölbrautaskólanna og þótti einna merkilegast við þá hve margar tegundir væru af brautum, hve margir möguleikar væru fyrir nemendurna að efla þroska sinn í þessum skóla. Ekki síst má nefna þær listabrautir sem hafa verið settar upp og hafa valdið gjörbreytingu fyrir marga nemendur að komast inn á þær í staðinn fyrir að reyna að stauta stanslaust eðlisfræði eða náttúrufræði.
    Ég tel að það sé íhugunarefni fyrir menntmn. og hæstv. menntmrh. að athuga hvort ekki mætti fjölga brautunum. Kannski hugsa höfundar frv. sem svo að listabrautir séu í rauninni verklegt nám en ekki bóklegt og mér er í rauninni alveg sama hvort það kallast verklegt eða bóklegt en ég vil ekki sjá af listabrautunum úr framhaldsskólum.
    Nokkuð hefur verið rætt um fornámsdeildir í þessum stól í dag og sýnist sitt hverjum um hvar þær eigi að vera. Sumum finnst þær eiga að fylgja grunnskólanum, öðrum að þær eigi að fylgja framhaldsskólanum. Ég er á þeirri skoðun að þar sem því er viðkomið eigi þær að fylgja framhaldsskólanum. Að þurfa að sitja aftur á sama stað og horfa á eftir öllum félögum sínum inn í annan skóla, vera eldri en allir hinir o.s.frv., er niðurdrepandi og nóg er nú samt að hafa ekki náð prófi, það skemmir nóg sjálfsmyndina þó maður þurfi ekki að játa það fyrir sjálfum sér og öðrum að verða að sitja í sama bekk aftur. Því álít ég að eðlilegt sé bæði þroska vegna og ýmissa annarra hluta vegna að framhaldsdeildir séu við framhaldsskólana. Kannski ekki alla framhaldsskóla en þar sem það hentar.
    Í 18. gr. er talað um fornámsdeildir. Þar hefði gjarnan mátt koma eitthvað inn um stoðkennslu vegna þess að þeir nemendur sem koma inn í framhaldsskólann munu áreiðanlega þurfa á slíkri kennslu að halda. Ég hefði haldið að ákvæði um stoðkennslu ætti að vera við hliðina á ákvæðinu um fornámið í 18. gr. og bið ég eindregið um að það mál verði athugað.
    Fjölmargir nemendur sem hafa kannski náð prófinu við illan leik þurfa í rauninni á slíkri hjálp að halda, ekki bara námsráðgjöf eins og talað er um í 14. gr. heldur hreinlega stoðkennslu til þess að ná sér á strik. Þetta held ég að sé nauðsyn að komi inn í frv.
    Í 19. gr. er aftur á móti fjallað um fatlaða. Þar segir:     ,,Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. . . .  Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.``
    Þetta eru fögur orð og ég vona að hægt verði að standa við þau. Í dag er ástandið þannig að ekki allir framhaldsskólar á Reykjavíkursvæðinu og sjálfsagt ekki annars staðar heldur telja sig geta tekið við fötluðum nemendum og hafna þeim þess vegna og sá skóli sem hefur tekið mest við þeim fyrir utan Iðnskólann er Menntaskólinn við Hamrahlíð og nú er svo komið að ekki er fjármagn til þess að taka við fatlaða fólkinu sem er í biðröðum eftir að komast inn. Þetta er áhyggjuefni og ég vil leyfa mér að undirstrika að ef þessi 19. gr. á að halda verður líka að sjá til þess að skólarnir hafi fé til þess að taka á móti fötluðu nemendunum og mannafla til þess að vinna með þeim. Þetta er stórnauðsynlegt og ákaflega sorglegt fyrir okkur að vita að úti í bæ er fullt af fötluðum nemendum sem geta ekki komist inn í skólana af því að skólarnir treysta sér ekki til þess að taka við þeim.
    20. gr. er samhljóða 36. gr. grunnskólalaga og fjallar um mál sem ég tel að sé geysilega mikið framfaramál og það er að nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Menntmrh. getur heimilað að stofnað verði til sérstaks grunnnáms í íslensku við framhaldsskóla fyrir þá nemendur og í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt nemenda, tilhögun og mat á íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna í framhaldsskólum.
    Þetta er geysilega mikilvægt, ekki síður en í grunnskólanum og ég er viss um og hef séð að fjöldinn allur af þeim nýbúaunglingum og börnum sem koma hingað er bráðvelgefið ungt fólk og íslenskt samfélag hefur ekki efni á því að þetta fólk fái ekki að njóta sín vegna þess að það hefur ekki náð framhaldsfærni í íslensku. Flestöll eru þau búin að ná grundvallarþættinum. Á framhaldsskólastigi þarf að leggja sérstaka áherslu á hugtakafræði, þ.e. að kenna þeim að skilja hugtök og flóknari orðasambönd. Þau geta stoppað á einföldustu hlutum í okkar augum vegna þess að þau hafa kannski aðeins eina skilgreiningu á einhverju orði en þá þýðir það í vissum samböndum allt annað. Þessu þyrfti að gæta vel að þegar íslenskukennslunni verður hleypt af stokkunum í framhaldsskólanum. Að vísu er til af henni angi bæði uppi í Iðnskóla og í Námsflokkum Reykjavíkur en það þarf miklu meira og meiri fræðslu. Þetta er góð grein.
    22. og 23. gr. finnast mér dálítið óljósar. Þær eru svo almennt orðaðar að maður veit eiginlega ekki hvert er stefnt. Mér finnst að þær ættu að vera skýrar orðaðar þannig að allir sem lögin lesa og ætla að fara eftir þeim viti hvað á að gera.
    ,,Í skólanámsskrá geri skólar grein fyrir hvernig ná skuli því markmiði framhaldsskóla að námið stuðli að alhliða þroska nemenda . . .  `` --- stendur í 22. gr.
    Þetta er auðvitað mjög svo gott en harla óljóst. Mér finnst þegar við erum að lesa um þær greinar og það sem á að gera í framhaldsskólanum að við höfum ekki alveg gert okkur grein fyrir því að samfélagið í dag er ekki sama samfélag og var fyrir 50 árum. Við þyrftum að efla mjög mikið samfélagsfræðsluna. Samfélagsfræðsla, fræðslan í því að vera þegn í nútímasamfélagi hefur orðið útundan. Að vísu mun vera eitthvað til sem kallast ,,Lions Quest`` og farið er í í grunnskólanum en á framhaldsskólastigi held ég að við höfum dregið lappirnar allt of mikið. Við þurfum að kenna nemendum okkar hvað það er að vera ábyrgur þjóðfélagsþegn í nútímasamfélagi. Við þurfum að kenna þeim t.d. umferðarsiðfræði. Orðið er sjálfsagt ekki tamt í eyrum ykkar en þetta er eitt af því sem við ættum að gera. Nánast mætti segja að allslags siðfræði í samskiptum ætti að vera miklu stærri þáttur í skólakerfinu, bæði grunnskóla- og framhaldsskerfinu heldur en nú er.
    Í 23. gr. segir: ,,Sérhver framhaldsskóli skal innleiða aðferðir til að meta skólastarfið . . .  `` Þetta er dálítið óljóst fyrir mér eins og ég nefndi áðan og ég veit ekki alveg hvernig á að gera þetta. Þýðir það að sá skóli er bestur sem hefur nemendur með hæstu einkunnirnar eða er sá skóli bestur sem hefur hamingjusömustu nemendurna? Hvernig á að meta það? Er sá skóli bestur sem hefur tekið við lélegustu nemendunum og hækkað þá að sama skapi í sessi í þekkingu og þroska? Hvernig á að meta þetta? Þetta er afskaplega óljóst.
    Í 24. gr. er rætt um samræmd próf. Alls staðar skín í það að það er viss stjórnunartilhneiging frá ráðuneytinu og þeir sjá ekki aðra leið til þess að skólinn um land allt sé á líkum gæðastaðli að hafa samræmd próf sem framleidd væru á einhverri miðstöð hér í landinu. Kannski væri það háskólinn sem gerði slíkt eða einhver önnur deild. Það er sannast sagna dálítið erfitt fyrir nemendur sem fara erlendis með einkunnirnar sínar að leggja þær fram á viðkomandi skólastofnunum. Það getur verið dálítið erfitt að sýna fram á það hvað þær einkunnir í rauninni þýða. Ef það væru samræmd próf um allt land þá gæti verið að það mundi einfalda málið en einhvern veginn óar mér við þessum samræmdu prófum sem allir íslenskir nemendur í framhaldsskólum ættu að ganga undir á sömu mínútunni í landinu. Ég held að það væri hægt að leysa þetta mál með því að gefin væru út viðmiðunarpróf og viðmiðunarstaðlar sem hver skóli gæti nýtt og verið nokkurn veginn á sama rólinu með kröfur og niðurstöður þar af leiðandi og það mundi ekki trufla neitt færslur nemenda á milli skóla eða til skóla í öðrum löndum. Viðmiðunarpróf finnst mér öllu hugnanlegri.
    Ég er áður búin að ræða starfsnámið og ætla ekki að ræða það mikið meira. Ég skil mjög vel vandann að halda uppi starfsfræðslu í ýmsum greinum, sérstaklega tölvufræðslu og svo ýmsum verklegum fögum öðrum, þ.e. iðngreinum, sem kæmu nemendum það vel til góða að þeir gætu gengið beint að þeim tækjum sem hverju sinni eru notuð í atvinnulífinu.
    Í 31. gr. er aftur á móti talað um skóla sem kjarnaskóla sem eigi að vera einhvers konar forgönguskóli um að þróa námsefni. Mér þætti gaman að heyra nánari lýsingu á svona skóla, hvaða hlutverk hann hefur og hvernig hann eigi síðan að útbreiða niðurstöður sínar eða hvort það sé ætlast til þess að hann geri það.
    Mér finnst að í 32. gr. þar sem talað er um vinnustaðanám, þ.e. starfsþjálfun á vinnustað, að það

geti komið í staðinn fyrir starfsnám í skólum eða skólanám og ég álít að það sé eðlilegt og sjálfsagt.
    Í X. kafla er talað um fullorðinsfræðslu og endurmenntun. Þetta er ekki ólíkt því sem áður hefur verið í lögum og ég tel að báðar þessar greinar hafi ágætis innihald. Það sem helst kemur þarna fram og er nýtt er í 34. gr. að framhaldsskóla sé heimilt með samþykki menntmrh. að starfrækja endurmenntunarnámskeið, eða annars konar nám í samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða hagsmunaáhugahópa, t.d. með farskólasniði. Þetta er sjálfsagt og nauðsynlegt og er starfsemi sem nú þegar er farin dálítið í gang en er alveg sjálfsagt að hún komi inn í lög. Þó hún komi inn í lög þá verður alltaf að gæta þess vandlega að innihaldið verði ekki allt of háð skólanámsinnihaldi, þ.e. að starfsnámsfræðsla er í eðli sínu þó nokkuð mikið ólík þeirri fræðslu sem fer fram í skólakerfinu sem er meira fræðileg og það verður alltaf að muna það að ekki er hægt að taka t.d. sálfræði 103 og fara að kenna hana inni í starfsnámi og álíta að það komi að sama gagni eins og praktísk fræðsla í sálfræði. Þetta er hlutur sem verður að hafa í huga við rekstur þessa náms.
    Í 40. gr. er talað um einkaaðila sem geti stofnað skóla á framhaldsskólastigi og að Alþingi ákveði framlag ríkissjóðs til þessara skóla. Það stendur að vísu: ,,Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé.``
    Mér þætti gaman að vita hvort Alþingi eigi þá að samþykkja hvern skóla út af fyrir sig og veita honum styrk eða verður það þannig að það verður búinn til einn poki sem þessi fjárveiting fer í og úr honum svo síðan hellt til skóla sem ráðuneytið ákveður að styrkja. Mér þætti gaman að vita, hæstv. menntmrh., hvað er hugsað með þessu.
    Að lokum langar mig til að tala dálítið um ákvæði til bráðabirgða sem er hér. Það er í XVI. kafla. Ég ætla ekki að ræða tvær fyrstu greinar þessara ákvæða heldur þriðja ákvæðið en þar stendur:
    ,,Næstu fjögur ár frá gildistöku laganna getur menntamálaráðherra veitt heimild til að umsækjandi gangi undir verklegt sveinspróf í löggiltri iðngrein án undangengins skólanáms enda liggi fyrir: (a) vottorð um að viðkomandi hafi unnið við iðnina í 10 ár undir stjórn meistara; (b) vottorð iðnmeistara um að hann telji umsækjanda hæfan til að ganga undir sveinspróf og (c) umsagnir viðkomandi sveinafélags og starfsgreinaráðs. Standist umsækjandi prófið öðlast hann sveinsbréf sem veitir þó ekki rétt til inngöngu í meistaraskóla.`` --- Sem kannski eðlilegt er.
    Ég álít að þetta sé grein sem eigi alls ekki að vera til bráðabirgða. Þessi grein ætti að vera alltaf inni í framhaldsskólalögunum. Þetta er mjög mikið nauðsynjamál fyrir þá sem ég hef nefnt áður, dyslexíufólkið sem á erfitt með að tjá sig skriflega og jafnvel er seinlæst en getur verið afbragðsvel að sér í hinum ýmsu greinum og mjög skapandi. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég vil eindregið að þessi grein verði áfram inni og til frambúðar og að réttindi og hlutur dyslexíufólks sem er sífellt að verða augljósara að er vandamál í samfélaginu að verði gerður meiri í þessu frv. og raunar ætti svo að vera í grunnskólafrv. líka. En þetta væri lítil byrjun að koma þessu ákvæði inn sem föstu ákvæði.