Utandagskrárumræður um skuldastöðu heimilanna og skatt á blaðsölubörn

30. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 13:35:43 (1342)


[13:35]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil skýra frá því við upphaf fundar að ég kaus af augljósum ástæðum að fresta utandagskrárumræðu um skuldastöðu heimilanna. Ástæðan er fyrst og fremst sú að staða hæstv. félmrh. verður óljósari með hverjum degi sem líður. Maður heyrir í rauninni í hverju horni: Hættir hann? Hættir hann ekki? Hættir hann? Hættir hann ekki? Þessi hæstv. ráðherra hefur engan starfsfrið haft og er vart hægt að búast við að ráðherra sem alls ekki veit úr hvaða Keflavík hann rær á morgun geti nokkru svarað um svo stórt mál enda kom það fram hér í vikunni hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að í ríkisstjórninni ríkti mikill ágreiningur um hvernig og hvort skyldi staðið að því að koma til móts við það fólk sem er í miklum vandræðum um þessar mundir. Á milli 8 og 9 þúsund einstaklingar eru í vanskilum með sín húsbréf og húsnæðislán. Að auki hrannast upp lausaskuldir hjá fjölskyldunum enda upplýsir Seðlabanki Íslands að skuldir heimilanna hafi um tveggja ára skeið undir forustu þessarar ríkisstjórnar aukist um ein milljarð á mánuði. Þetta er því stórt og mikið mál, hæstv. forseti, sem verður að ræða í þinginu og ég kýs að sjá hvað gerist næstu daga, hvernig staða hæstv. félmrh. þróast. Ég tel jafnframt fulla ástæðu til þess að taka umræðuna upp við hæstv. forsrh. því að staðan er sú hjá fjölskyldunum á Íslandi um þessar mundir að aðgerðir þola enga bið. Ekki er hægt að draga aðgerðir fram yfir kosningar. Húsnæðisstofnun, bankarnir og ríkissjóður verða með einhverju móti að koma til móts við þessa einstaklinga sem búa við svo mikla óvissu og ráða bersýnilega ekki við að reka fjölskyldu sína eða halda eignum sínum.