Atvinnuréttindi útlendinga

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:06:56 (1357)

[14:06]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Nái frv. fram að ganga leysir það af hólmi gildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982, með síðari breytingum. Það er rétt að geta þess, að frv. var lagt fyrir Alþingi til kynningar í apríl sl. Vegna tímaskorts tókst ekki að setja það á dagskrá og mæla fyrir því. Þar af leiðandi tel ég nauðsynlegt að fjalla nú nokkuð ítarlega um frv. þetta.
    Á þessu ári eru liðin 14 ár frá því að Alþingi afgreiddi gildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga. Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessum tíma á samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Sífellt hefur orðið algengara að Íslendingar flytjist til annarra landa til lengri eða skemmri búsetu. Ástæðurnar eru margvíslegar. Atvinna og nám eru sennilega þeirra algengastar. Þetta gildir einnig um erlenda ríkisborgara. Ýmislegt hefur stuðlað að þessari þróun. Skiptir þar mestu greiðari samgöngur og alþjóðasamningar sem auðvelda fólki að setjast að og fá leyfi til að vinna í öðrum löndum. Í þessu sambandi má nefna samning Norðurlanda um sameiginlegan vinnumarkað sem var undirritaður árið 1982. Aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976 einfaldaði formsatriði varðandi leyfi til að vinna í öllum aðildarríkjum sáttmálans. Mest áhrif munu samt verða af gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem tók gildi um síðustu áramót.
    Með lögum nr. 47/1993 var tilskipun Evrópusambandsins um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks nr. 1612/68 gefið lagagildli hér á landi. Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar skal sérhver ríkisborgari EES-ríkis óháð búsetu hafa rétt til að ráða sig til vinnu sem launþegi og rækja það starf á yfirráðasvæði annars EES-ríkis í samræmi við þau ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er taka til atvinnumála ríkisborgara viðkomandi aðildarríkis. Í þessu felst grundvallrbreyting á því fyrirkomulagi sem hefur ríkt í sambandi við atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi. Það er því ljóst að endurskoðun laga um þetta efni er orðin tímabær.
    Félmrh. skipaði 9. nóv. 1993 nefnd til að endurskoða gildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982. Í nefndina voru skipuð Jóhann Jóhannsson, starfsmaður útlendingaeftirlitsins samkvæmt tilnefningu dómsmrh., Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, og Lára V. Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Félmrh. skipaði Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félmrn., formann þessarar nefndar. Sú breyting varð á skipan nefndarinnar að Halldór Grönvold, skrifstofustjóri ASÍ, tók sæti Láru V. Júlíusdóttur 1. sept. sl.
    Auk þess að endurskoða lög um atvinnuréttindi útlendinga var nefndinni falið að taka sérstaklega til athugunar ákvæði um útgáfu sjálfstæðra atvinnurekstrarleyfa og atvinnuleyfi útlendinga er stunda nám í skólum sem íslenska ríkið á eða styrkir. Einnig hvort ástæða sé til að gera frekari greinarmun en nú er gerður á atvinnuleyfum eftir störfum eða starfstíma. Með tilliti til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, var enn fremur talið nauðsynlegt að taka til endurskoðunar gildissvið laga um atvinnuréttindi útlendinga. Loks var þessari endurskoðunarnefnd sem áður var getið um falið að setja fram tillögur um einföldun á útgáfu atvinnuleyfa. Að öðru leyti var nefndinni í sjálfsvald sett hvaða ákvæði gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga hún teldi nauðsynlegt að endurskoða.
    Endurskoðunarnefndin hóf starf sitt með því að kynna sér gildandi lög í næstu nágrannalöndum um útgáfu atvinnuleyfa vegna ráðningar erlendra ríkisborgara. Fyrir hana voru einnig lagðar athugasemdir sérfræðinganefndar Evrópuráðsins sem fer yfir skýrslur um framkvæmd ákvæða félagsmálasáttmála Evrópu. Fjallað er um atvinnuleyfi um 18. gr. sáttmálans. Sérfræðingar Evrópuráðsins hafa gagnrýnt ákvæði íslensku laganna um atvinnuleyfi útlendinga og talið þau vera fremur ströng. Nefndin hefur einnig haft til athugunar ákvæði samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttindi og aðbúnað farandverkamanna.
    Við endurskoðun laganna fékk nefndin á fund sinn Hörð Lárusson, deildarstjóra í menntmrn., Jón Ögmund Þormóðsson, skrifstofustjóra í iðnrn. og viðskrh., og Signýju Sen, fulltrúa við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Enn fremur hafði formaður nefndarinnar samband við Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbr.- og trmrn., og fulltrúa samgrn.
    Frv. það sem hér er lagt fyrir Alþingi er árangur starfs framangreindrar nefndar sem endurskoðaði ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga. Nefndin hefur lagt megináherslu á að samstæðum efnisþáttum sé skipað í sama kafla frv. Þannig er fjallað um gildissvið og orðskýringar í I. kafla og almenn ákvæði í II. kafla. Í III. kafla er fjallað um atvinnuleyfi. Rétt er að vekja athygli á þeirri breytingu að betur er greint á milli einstakra flokka atvinnuleyfa en gert er í gildandi lögum. Fjallað er um hvern flokk atvinnuleyfa í sérstakri grein. Í hlutaðeigandi grein er fjallað um skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis og til hversu langs tíma það skuli veitt. Í kaflanum er að finna ákvæði um tvo nýja flokka atvinnuleyfa, leyfi til handa erlendum námsmönnum og vegna ráðningar í vist á íslensk heimili.
    Í IV. kafla frv. er fjallað um undanþágur. Í honum er greint á milli tveggja tegunda af undanþágum. Ákvæði V. kafla, um viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa, og VI. kafla, sem hefur að geyma ýmis ákvæði, er í öllum höfuðatriðum óbreytt frá hliðstæðum ákvæðum í gildandi lögum.
    Virðulegi forseti. Helstu nýmæli frv. felast í eftirfarandi:
    1. Þrír flokkar atvinnuleyfa. Greint er á milli þriggja tegunda atvinnuleyfa. Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekenda til ráðningar útlendings til ákveðins starfs um tiltekinn tíma. Óbundið atvinnuleyfi er veitt útlendingi til að vinna á Íslandi. Atvinnurekstrarleyfi felur í sér leyfi til að vinna sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki. Að auki er gert ráð fyrir sérstökum atvinnuleyfum vegna útlendra námsmanna sem stunda nám í íslenskum skólum og vegna einstaklinga sem ráða sig í vist á íslensk heimili, þ.e. ,,au pair``-ráðningar.
    2. Þrír flokkar af undanþágum. Lagt er til að undanþágur frá kröfum um atvinnuleyfi verði þrenns konar: Varanlegar undanþágur, t.d. fyrir EES-borgara og starfsmenn sendimanna erlendra ríkja. Tímabundnar undanþágur verði tvenns konar: Annars vegar vegna vinnu hér á landi sem stendur í allt að einn mánuð á ári. Í þessu tilviki er tekið mið af tillögum sem eru til umfjöllunar í þeim hluta GATT-viðræðna sem eru um þjónustuviðskipti. Undanþágan tekur m.a. til vísindamanna og fyrirlesara, listamanna, íþróttaþjálfara og blaða- og fréttamanna. Hins vegar er lagt til að tilteknir ráðgjafar og leiðbeinendur geti starfað hér á landi án atvinnuleyfis í allt að 10 daga á hverju 12 mánaða tímabili.
    3. Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi. Þar er lagt til að krafa um atvinnurekstrarleyfi verði tekin upp að nýju. Veiting atvinnurekstrarleyfa verði þar með á vegum tveggja ráðuneyta. Félmrh. veiti útlendingum með lögheimili hér á landi atvinnurekstrarleyfi. Viðskrh. fer með útgáfu atvinnurekstrarleyfa til útlendinga sem hafa lögheimili erlendis eða eru búsettir þar. Um þau leyfi gilda ákvæði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Frá því að þetta frv. var fyrst lagt fyrir Alþingi í apríl á yfirstandandi ári hefur það verið kynnt hagsmunaaðilum. Það var kynnt á tveimur fundum sem félmrn. stóð fyrir. Í fyrsta lagi var haldinn opinn kynningarfundur 5. maí sl. Á það var lögð áhersla að erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hérlendis og vildu kynna sér efni frv., mættu á fundinn. Frv. var enn fremur á dagskrá samráðsfundar ráðuneytisins með helstu samtökum á vinnumarkaði vegna undirbúnings við almenna stefnumörkun varðandi ráðningu erlends starfshóps, sbr. 4. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Á fundinum sem haldinn var 26. maí sl. komu fram ýmsar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara í hinu upphaflega frv. Félmrn. sendi jafnframt frv. út til umsagnar hagsmunasamtaka, sbr. skrá í fskj. með frv. Ýmsar ábendingar og tillögur um breytingar komu fram og var endurskoðunarnefndin sammála um að taka tillit til nokkurra þeirra. Helstu breytingar frá upphaflegu gerð frv. frá í apríl sl. felast í eftirfarandi og er að finna í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Í upphaflegri gerð frumvarpsins var gert ráð fyrir að ákvæði gildandi laga um umsagnarrétt hlutaðeigandi stéttarfélags um umsókn um atvinnuleyfi yrði óbreytt. Í umsögnum og athugasemdum, sem borist

hafa endurskoðunarnefndinni, hefur þetta verið gagnrýnt. Ýmist hefur verið lagt til að umsagnarrétturinn verði felldur niður eða tekið undir tillögu fulltrúa VSÍ í endurskoðunarnefndinni um að hann verði fenginn ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofunnar, sbr. sérálit sem fram kemur í fskj. I um orðalag b-liðar í 7. og 10. gr. frv. Endurskoðunarnefndin hefur rætt þetta efni ítarlega á fundum sínum. Niðurstaða hennar er að leggja til að í stað þess að það sé gert að skilyrði að leitað skuli umsagnar annaðhvort hlutaðeigandi stéttarfélags eða landssambands ef ekki er stéttarfélag á staðnum verði umsagnarrétturinn bundinn við hlutaðeigandi stéttarfélag eða landssamband. Með þessari breytingu er opnuð sú leið að umsagnarréttur geti færst til landssambands. Slík þróun gæti leitt til þess að við mat á umsókn um atvinnuleyfi verði frekar tekið tillit til atvinnuástands á landinu öllu eða stórum svæðum en tíðkast hefur fram til þessa. Það skal tekið fram að fulltrúi VSÍ stendur við fyrra álit þrátt fyrir framangreinda breytingu.
    Ég vil taka fram í þessu sambandi að miðað við undirtektir sem þessi breyting hefur fengið munu aðilar þó telja sig geta búið við þetta fyrirkomulag.
    Í upphaflegri gerð 14. gr. frv. var gert ráð fyrir að ýmsir einstaklingar verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi og gilti undanþágan um vinnu í allt að 10 daga á hverju 12 mánaða tímabili. Athugasemdir komu fram við þetta ákvæði og var lagt til að tíminn yrði lengdur. Sú hefur orðið niðurstaðan og náðist samstaða um í endurskoðunarnefndinni að lengja tímann þannig að undanþágan gildir fyrir vinnu í allt að fjórar vikur á hverju 12 mánaða tímabili. Jafnframt hafa verið gerðar tvær aðrar breytingar. Endurskoðunarnefndin var sammála um að taka tillit til andstöðu sem kom fram hjá ASÍ og Félagi íslenskra hljómlistarmanna gegn því að undanþágan nái til hljóðfæraleikara sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. Nái frv. fram að ganga þarf því áfram að sækja um leyfi fyrir þennan hóp. Enn fremur var ákveðið að flytja ákvæði sem upphaflega var í e-lið í aðra málsgrein og er það miðað við vinnu sem stendur í allt að 10 daga á hverju 12 mánaða tímabili eins og gert var í upphaflegri gerð frv. Þetta ákvæði fjallar um vinnu sérhæfðra starfsmanna, ráðgjafa og leiðbeinenda sem vinna að samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.
    Ég mun nú víkja nokkrum orðum að einstökum greinum frv.
    1. og 2. gr. frv. þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. gr. er tekið fram að veiting leyfa samkvæmt lögunum heyrir undir félmrh. Í 3. mgr. er tekið fram að viðskrh. fari með veitingu atvinnurekstrarleyfa til útlendinga sem hafa lögheimili erlendis eða eru þar búsettir. Þetta ákvæði er tekið upp í frv. í samræmi við 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991.
    Í 8. tölul. laga nr. 34/1991 er tekið fram að einstaklingur sem er búsettur erlendis geti ekki unnið sjálfstætt eða starfrækt eigið atvinnufyrirtæki eða tekið þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð nema með leyfi viðskrh.
    Rétt er að vekja á því athygli að lagt er til að greint verði milli gildissviðs þessara tveggja laga á grundvelli búsetu útlendings. Atvinnurekstrarleyfi útlendings sem er búsettur hérlendis skal veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga. Atvinnurekstrarleyfi útlendings sem er búsettur erlendis skal veitt af viðskrh. á grundvelli laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Að undanskilinni 3. mgr. svarar 4. gr. frv. til 2. gr. gildandi laga. Með frv. er farin sú leið að lögin gildi um atvinnuréttindi allra útlendinga sem starfa á Íslandi. Í 3. mgr. er vísað til undantekninga í 13. og 14. gr. frá þessari meginreglu.
    6. gr. svarar til 10. gr. gildandi laga. Rétt er að taka fram að við greinina hefur verið bætt málsgrein þar sem tekið er fram að atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna á Íslandi samkvæmt reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
    Með málsgreininni er m.a. verið að vísa til 1. gr. laga nr. 55/1980 eins og henni hefur verið breytt með lögum nr. 69/1993. Þar er kveðið á um það að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Enn fremur er tekið fram að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
    Í 7. gr. frv. er fjallað um tímabundið atvinnuleyfi. Þetta leyfi svarar til atvinnuleyfis samkvæmt gildandi lögum. Nefndin sem endurskoðaði lögun um atvinnuréttindi útlendinga leggur til að það sem áður var kallað atvinnuleyfi verði nú kallað tímabundið atvinnuleyfi. Nefndin er sammála um að þetta heiti gefi betur til kynna að um er að ræða mjög takmarkaða heimild til að stunda atvinnu á Íslandi. Skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis eru í öllum meginatriðum þau sömu og eru í gildandi lögum um veitingu atvinnuleyfa. Í greininni er að finna skilyrði fyrir veitingu leyfisins og einnig eru ákvæði um réttindi sem heimilt er að veita. Tekið er fram að heimilt er að veita það til eins árs í fyrsta skipti. Þetta er hliðstætt ákvæði í gildandi lögum.
    Nýmæli greinarinnar felst í heimild til að framlengja fyrsta leyfi um tvö ár. Eftir að leyfi hefur verið gefið út tvívegis á grundvelli greinarinnar getur útlendingur sótt um óbundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðum 8. gr.
    Ég hef áður fjallað um umsagnarrétt stéttarfélaga um umsóknir um atvinnuleyfi og tel ekki nauðsynlegt að fjölyrða frekar um það atriði. Ég vil einungis geta þess að þetta er eina atriðið í frv. sem olli verulegum ágreiningi í endurskoðunarnefndinni sem eins og ég gat um áður var skipuð fulltrúum m.a. frá

aðilum vinnumarkaðarins. Fulltrúi VSÍ í nefndinni lagði fram sérálit sem kemur fram í fskj. I um orðalag b-liðar og ég hef áður gert grein fyrir í ræðu minni.
    Í niðurlagi greinarinnar er stjórnvöldum veitt heimild til að veita tilteknum útlendingum atvinnuleyfi til lengri tíma en greinir í 2. mgr. Hér er fyrst og fremst um tvo hópa að ræða. Í fyrsta lagi er átt við ríkisborgara í aðildarríkjum félagsmálasáttmála Evrópu annarra en þeirra sem eru aðilar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þau lönd sem um ræðir eru Kýpur, Malta og Tyrkland. Lagt er til í athugasemdum við greinina að gildistími fyrsta atvinnuleyfis vegna borgara í þessum löndum verði tvö ár enda njóti Íslendingar hliðstæðra réttinda í þessum löndum. Í öðru lagi getur komið til álita að veita borgurum í ríkjum sem gera gagnkvæma samninga við Ísland um atvinnuleyfi rýmri rétt enda fái Íslendingar sama rétt í sömu löndum.
    8. gr. frv. er um óbundið atvinnuleyfi. Þessi tegund atvinnuleyfis er kölluð sjálfstætt atvinnuleyfi í gildandi lögum. Endurskoðunarnefndin leggur til að þetta heiti verði tekið upp þar sem það gefur betur til kynna hvers konar réttindi felast í leyfinu. Lagt er til að það verði viðurkennt að útlendingur sem hefur dvalið hérlendis í 3 ár hafi fest rætur á Íslandi. Eftir 3 ár geti útlendingur sótt um óbundið atvinnuleyfi, þ.e. leyfi sem er veitt honum persónulega en ekki atvinnurekanda. Útlendingur getur leitað eftir vinnu hjá hvaða atvinnurekanda sem er. Hann er ekki bundinn einhverjum einstökum atvinnurekendum með sama hætti og þegar um tímabundið atvinnuleyfi er að ræða.
    Annað nýmæli felst í einföldun á skilyrðum fyrir óbundnu atvinnuleyfi. Fellt er niður ákvæði um þörf atvinnuveganna fyrir vinnuafl og krafa um umsögn stéttarfélags. Um þetta atriði var ágreiningur í nefndinni sem endurskoðaði lögin. Fulltrúar ASÍ vildu að útgáfa óbundins atvinnuleyfis væri bundin því skilyrði að fyrir lægi umsögn stéttarfélags.
    Einnig er tekið upp í 3. mgr. heimild til að veita flóttamönnum óbundið atvinnuleyfi. Við skilgreiningu á því hverjir teljast flóttamenn er stuðst við skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn frá 28. júlí 1951 og kvótaflóttamenn svokallaða. Með kvótaflóttamönnum er átt við tiltekinn fjölda flóttamanna sem stjórnvöld heimila landvist.
    Fyrr í máli mínu var vikið að því að atvinnurekstrarleyfi verði veitt af tveimur ráðuneytum, þ.e. viðskrn. í samræmi við ákvæði laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri og félmrn.
    Í 9. gr. frv. er fjallað um atvinnurekstrarleyfi sem veitt er á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga. Í greininni felst að útlendingur sem hyggst starfa sjálfstætt eða stofna til rekstrar hér á landi verður að fá til þess leyfi. Nefndin sem samdi frv. telur rétt að taka að nýju upp í lög ákvæði um að útlendingar þurfi í öllum tilvikum leyfi stjórnvalda til að starfa sjálfstætt eða að stunda atvinnurekstur hér á landi. Rökin fyrir þessu eru aðallega tvíþætt. Nefndin telur óeðlilegt að útlendingar sem hyggjast stofna til rekstrar hér á landi eigi greiðari aðgang að atvinnulífi og vinnumarkaði en þeir sem ráða sig til almennra starfa. Hér eigi að gera hliðstæðar kröfur. Enn fremur telur nefndin þetta nauðsynlegt til að auðvelda eftirlitsaðilum, fyrst og fremst útlendingaeftirlitinu, að rækja lögbundið eftirlitsstarf.
    Endurskoðunarnefndin kynnti sér ákvæði laga um útgáfu ýmiss konar leyfa sem fela í sér rétt til að standa fyrir atvinnustarfsemi. Í fæstum tilfellum eru ákvæði í þessum lögum sem gera íslenskan ríkisborgararétt að skilyrði fyrir leyfi til atvinnurekstrar. Hún leggur til að í stað þess að breyta þessum ákvæðum verði það gert að skilyrði að hlutaðeigandi útlendingur hafi atvinnurekstrarleyfi. Framkvæmdin verður þá þannig að áður en slíkt leyfi er endanlega gefið út veitir félmrn. atvinnurekstrarleyfið á grundvelli vottorðs hlutaðeigandi stjórnvalds um að það telji útlendinginn uppfylla öll skilyrði til að standa fyrir viðkomandi rekstri. Rétt er að taka fram að hér er fyrst og fremst um að ræða útlendinga sem búsettir eru hérlendis en þeim ber samkvæmt framansögðu að afla sér atvinnurekstrarleyfis hjá félmrn. eða þeim aðila sem það hefur falið að annast útgáfu slíkra leyfa. Skylda til að tilkynna útgáfu slíkra leyfa til útlendingaeftirlitsins tekur hins vegar til beggja ráðuneytanna, þ.e. félmrn. og viðskrn.
    Í gildandi lögum eru útlendingar, sem stunda nám í skólum sem íslenska ríkið á eða styrkir, undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Við framkvæmd hafa komið upp ýmis vandamál í sambandi við túlkun, einkum á því hvaða nám veiti undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi. Þar af leiðandi er gerð tillaga um að allir útlendingar, sem ekki falla undir ákvæði 13. gr., þurfi atvinnuleyfi. Gert er ráð fyrir að slíkt leyfi verði veitt allt að einu ári í senn enda þótt innritunarvottorð muni í flestum tilvikum kveða á um innritun í nám sem stendur eina önn. Krafa er gerð um að umsögn stéttarfélags liggi fyrir áður en atvinnuleyfi er gefið út samkvæmt greininni.
    Hér er því gerð tillaga um hertari reglur en samtímis gert ráð fyrir því að þeim verði beitt af sanngirni. Markmiðið er fyrst og fremst að koma í veg fyrir misnotkun og gera stjórnvöldum kleift að hafa yfirsýn yfir þennan hóp útlendinga.
    Ég vil vekja athygli á því að í upphaflegri gerð frv. var gert ráð fyrir að veiting leyfis samkvæmt 10. gr. yrði bundin því skilyrði að um væri að ræða fullt nám samkvæmt skilgreiningu hlutaðeigandi stjórnvalda skólamála. Við nánari athugun hefur komið í ljós að þetta orðalag getur skapað vanda. Þar af leiðandi er nú lagt til að það verði mat hlutaðeigandi skóla að votta hvað teljist fullt nám. Athygli endurskoðunarnefndarinnar var einnig vakin á því að orðalagið ,,í tengslum við nám`` setti stjórnvöldum mjög þröngar skorður að því er varðar veitingu leyfis samkvæmt greininni. Nefndin varð því sammála um að bæta við greinina orðunum ,,með námi``. Haft hefur verið samráð við menntmrn. um þessar breytingar.

    Í 11. gr. er að finna nýmæli. Í greininni er fjallað um vistráðningar á heimili eða það sem á erlendum málum er kallað ,,au pair``-ráðningar. Þetta ráðningarform hefur orðið sífellt algengara. Í því skyni að festa í sessi þetta ráðningarform átti Evrópuráðið frumkvæði að því að gerður var samningur um þetta efni. Í honum er að finna reglur um réttindi og skyldur aðila. Helstu ákvæði samningsins eru tekin upp í greinina. Nefndin, sem samdi frumvarpið, leggur til að Ísland fullgildi samning Evrópuráðsins um ,,au pair``ráðningar.
    Ákvæði 12. gr. er hliðstætt ákvæði í 3. mgr. 3. gr. gildandi laga. Lagt er til að þess verði krafist að sótt verði um atvinnuleyfi fyrir útlending, sem komið hefur til landsins vegna leyfis er hefur verið veitt á grundvelli greinarinnar, í síðasta lagi tveimur vikum eftir komu til Íslands.
    Í IV. kafla frv. er að finna ákvæði sem heimila undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi. Undanþágurnar eru tvenns konar. Annars vegar eru tilteknir einstaklingar undanþegnir kröfunni. Þeir eru taldir upp í 13. gr. Hins vegar eru þeir aðilar sem hyggjast starfa hér á landi um mjög takmarkaðan tíma undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Um þessa einstaklinga er fjallað í 14. gr. Efnislega er að finna hliðstæð ákvæði í 11. gr. gildandi laga og er í 13. gr. frv. Við frumvarpsgreinina hefur þó verið bætt ákvæði sem er í 1. gr. gildandi laga sem undanþiggur borgara í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið kröfu um atvinnuleyfi. Áður hefur verið getið um breytingar í sambandi við erlenda námsmenn en samkvæmt 11. gr. gildandi laga eru þeir undanþegnir skyldu um að hafa atvinnuleyfi stundi þeir nám við skóla sem íslenska ríkið á eða styrkir.
    14. gr. frv. er nýmæli. Samkvæmt henni eru ýmsir einstaklingar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi enda starfi þeir hér á landi um mjög takmarkaðan tíma eins og ég gerði grein fyrir áður í ræðu minni. Markmið þessarar greinar er tvíþætt: Annars vegar er verið að undanþiggja ýmsa einstaklinga kröfu um atvinnuleyfi komi þeir hingað til lands vegna vísinda, fræðslu, lista eða í viðskiptaerindum. Reynslan sýnir að í þessum tilvikum er mjög erfitt að framfylgja kröfu um atvinnuleyfi. Í öðru lagi er verið að færa íslenska löggjöf nær löggjöf nágrannalandanna um atvinnuleyfi. Þriðja atriðinu má bæta við en það lýtur að samningaviðræðum um tollamál, GATT-viðræðum. Samkvæmt drögum að samkomulagi um þjónustuviðskipti er gert ráð fyrir að undanþiggja útlendinga í viðskiptaerindum kröfu um atvinnuleyfi.
    Í 2. mgr. 14. gr. er gert ráð fyrir að starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem eru að vinna við uppsetningu, eftirlit og viðgerð tækja þurfi ekki atvinnuleyfi vegna vinnu sem stendur í allt að 10 daga á ári. Hér er fyrst og fremst um að ræða tilvik þegar tæki eru seld hingað til lands með ábyrgð seljenda á hinu selda en ábyrgðin er háð því skilyrði að uppsetning, prófanir og tímabundið eftirlit sé í höndum sérhæfðra starfsmanna seljenda eða annarra sem hann viðurkennir í þessu skyni.
    Ákvæði V. kafla um viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa eru í öllum höfuðatriðum óbreytt frá gildandi lögum. Um er að ræða smávægilegar breytingar á orðalagi og samræmingu við önnur lög, fyrst og fremst lög um eftirlit með útlendingum.
    Í VI. kafla er að finna ýmis ákvæði. Í 19. gr. er að finna nýmæli sem felst í því að við veitingu atvinnuleyfis fái útlendingur sérstakt skírteini þar sem fram koma upplýsingar um réttindi hans til að stunda vinnu á Íslandi. Í skírteininu skuli vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Útlendingur skal hafa skírteinið tiltækt og framvísa því ef löggæslumaður óskar þess. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinin. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess. Í athugasemdum kemur fram að lagt er til að félmrn. og útlendingaeftirlitið láti hanna sérstök skírteini fyrir útlendinga sem fá atvinnu- og dvalarleyfi.
    Ég tel einnig rétt að vekja athygli á ákvæðum 20. gr. um það að félmrn. leiti árlega álits helstu samtaka á vinnumarkaði á stefnu sem fylgt er um veitingu atvinnuleyfa til ráðningar á útlendingum til starfa á Íslandi. Þetta ákvæði tengist ákvæðum 3. gr. en þar er gert að fyrir að ráðherra sé heimilt að fela opinberri stofnun útgáfu atvinnuleyfa. Með þessum ákvæðum er að því stefnt að hlutverk félmrn. breytist frá því að vera framkvæmdaaðili í að móta almenna stefnu í þessum málum.
    Eins og fram kom fyrr í máli mínu var nefndinni sem falið var að endurskoða lögin um atvinnuréttindi útlendinga falið að setja fram tillögur um einföldun á útgáfu atvinnuleyfa. Þetta hefur nefndin gert í bréfi dags. 6. okt. sl. Í bréfinu leggur nefndin til að vinnumálaskrifstofu félmrn. verði falin útgáfa leyfa samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 3. gr. frv. Hún leggur enn fremur til að móttaka umsókna um atvinnu- og dvalarleyfi fari fram á einum stað, þ.e. í útlendingaeftirlitinu sem annist tölvuskráningu. Vinnumálaskrifstofan fái nauðsynlegar upplýsingar frá útlendingaeftirlitinu með tölvupósti. Veiting eða synjun atvinnuleyfa fari fram á sama hátt með boðskiptum í tölvupósti. Skráning á afgreiðslum umsókna um atvinnuleyfi og dvalarleyfi verði skráð í tölvu útlendingaeftirlitsins.
    Eins og áður er komið fram er það tillaga endurskoðunarnefndarinnar að félmrn. og útlendingaeftirlitið láti hanna sérstök skírteini fyrir útlendinga sem fá atvinnu- og dvalarleyfi. Útlendingurinn skal ætíð hafa skírteinið handbært og framvísa því sé þess óskað af fulltrúum eftirlitsstofnana. Skírteini þessi skulu afhent af útlendingaeftirlitinu, Hverfisgötu 115, eða umboðsmönnum þess, þ.e. hlutaðeigandi lögreglustjórum eða sýslumönnum. Á skírteininu skal koma fram að útgefendur eru félmrn. og útlendingaeftirlitið.
    Endurskoðunarnefndin er þeirrar skoðunar að framangreint fyrirkomulag leiði af sér varanlegt hagræði fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Komist þessi breyting á þurfa umsækjendur um atvinnuleyfi, atvinnurekendur eða hlutaðeigandi einstaklingur einungis að snúa sér til eins aðila í stað tveggja. Þessi eini aðili, útlendingaeftirlitið, hefur glögga yfirsýn yfir afgreiðslu umsóknarinnar og getur þar afleiðandi veitt fullnægjandi svör um væntanlegan afgreiðslutíma.
    Rétt er að leggja sérstaka áherslu á hagræði sem af breytingunni hlýst fyrir útlending. Ef breytingin kemst á snýr hann sér til eins stjórnvalds sem hefur tiltækar allar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast um íslenskt þjóðfélag. Nefndin er þeirrar skoðunar að þetta muni stuðla að auknu réttaröryggi til hagsbóta fyrir hinn erlenda ríkisborgara. Breytingin leiðir einnig til þess að afskipti stjórnvalda verði markvissari þar sem samræmd tölvuskráning á að leiða til betri þekkingar á stöðu mála og þar með virkara eftirlits með því að erlendir einstaklingar séu ekki að vinna hérlendis án tilskilinna leyfa. Ég vil taka það fram að mér finnast þessar tillögur eðlilegar og mun beita mér fyrir því að hrinda þeim í framkvæmd nái frv. þetta fram að ganga.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir helstu atriðum frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. félmn.