Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:54:59 (1362)


[14:54]
     Flm. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að því er varðar fjölda flutningsmanna þá gat ég þess reyndar við fyrri umræðu, og var þá að leiðrétta minn ágæta samþingmann Jón Kristjánsson, að það eru fordæmi fyrir því að þingmenn Austurlandskjördæmis allir nema e.t.v. sá sem situr í forsetastóli hafa flutt tillögur um vegamál án þess að það hafi verið svo mikið sem leitað eftir samkomulagi eða samstöðu um að það yrði á valdi þingmannanna allra. Hér er því ekkert að gerast sem sérstakt nýmæli er.
    Ég get t.d. minnt á það að lengi flutti Sverrir Hermannsson einn tillögu um aðgerðir við Hornafjarðarós og svo mætti lengur telja. Þannig að allt saman er þetta hálflangsótt og snertir á vissan hátt fínar taugar hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann fer að tala um vegi í sínu kjördæmi þaðan sem hann er sjálfur upprunninn og hefur vanrækt að koma í nothæft ástand eins og hann lýsti hérna sjálfur áðan þrátt fyrir að hann hafi verið samgrh. Það má kannski vel vera að þar sé fengin skýringin á geðvonsku þessa hv. þm. í þessari umræðu.