Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:11:06 (1370)


[15:11]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég sáttur við framkvæmdir í vegamálum. Það væri annað hvort ef ég væri það ekki í kjördæmi þar sem æpa á mann vondir vegir. Það sem ég var að tala um, hv. þm., var að ég ber kvíðboga fyrir því að framkvæmdafé til vegamála aukist ekki þegar verður farið að greiða þessi lán til baka og það verði því afturkippur í vegamálum. Almenn atvinnumálaumræða getur beðið. Það væri nú hægt að spjalla ýmislegt við hv. 5. þm. Norðurl. e. um þau mál og hvernig að þeim málum hefur verið staðið og hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að efnahagsmálum og velt yfir á almenning í landinu útgjöldum þannig að fjölmargir einstaklingar í landinu eru búnir að missa tök á sínum fjármálum í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Það mætti líka rekja það að eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja var sterk þegar síðasta ríkisstjórn lét af störfum. En síðan var breytt um stefnu og þessi ríkisstjórn hafði þá stefnu að það ætti engin afskipti af atvinnulífinu að hafa þannig að það mætti ýmislegt ræða um þau mál og efnahagsbatinn byggist á vissum vinningum í sjávarútvegi sem er ekkert séð um hvaða framhald verður á en slíkt er ekki hægt að ræða í stuttu andsvari en það er hægt að gera það síðar.