Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:14:19 (1372)


[15:14]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. fær mig ekki til að lýsa óánægju með framkvæmdir í vegamálum. Það þýðir ekkert að reyna það. Hann fær mig heldur ekki til að samþykkja það að aðgerðir til fjárhagslegrar endurskipulagningar í sjávarútvegi sem fóru fram á síðasta kjörtímabili hafa engum árangri skilað. Hv. 5. þm. Norðurl. e. er blindur ef hann heldur því fram að slíkar aðgerðir hafi engum árangri skilað og verið unnar fyrir gíg. Ég get talið upp fyrirtæki, m.a. á hinu margumrædda norðausturhorni landsins sem fór í gegnum slíkar aðgerðir og starfa með miklum blóma í dag. ( Gripið fram í: Þórshöfn, Vopnafjörður, Ólafsfjörður.) Til dæmis Þórshöfn og Vopnafjörður, af því að þeir staðir voru nefndir héðan úr sal, og fleiri staði mætti nefna. Þetta er nefnilega blekkingarleikur og áróður sem hv. þingmenn Sjálfstfl. halda fram, áróðursklisja, að öll sjávarútvegsfyrirtæki, sem voru endurskipulögð fjárhagslega í lok síðasta kjörtímabils, hafi farið á hausinn eftir skamman tíma. Staðreyndin er bara allt önnur og staðreyndirnar tala sínu máli og þetta er hægt að taka umræðu um öðruvísi heldur en í stuttu andsvari, en þetta verður samt að koma fram hér.