Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:16:25 (1373)


[15:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mig auðvitað blóðlangar í þessar umræður um atvinnustefnu fyrrv. og núv. ríkisstjórnar, en ég ætla að veita andsvar við eða tjá mig út frá orðum hv. þm. um það sem hann sagði um verkefnin á öðrum sviðum vegamála sem ekki má gleyma í þessu sambandi. Ég er hv. þm. Jóni Kristjánssyni, 2. þm. Austurl., alveg sammála og það er m.a. það sem ég kom inn á í sambandi við þessa tillögu, að það er ekki skynsamlegt að ætla að hólfa viðfangsefni í vegamálum svona eins og hérna er lagt til, m.a. af þeirri ástæðu sem hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi. Það eru gífurlega mikil verkefni óunnin sem mundu við hólfun af þessu tagi lenda út undan og til hliðar. Við vitum auðvitað sem eitthvað höfum fylgst með vegamálum á undanförnum árum til að mynda að ýmsir tengivegir eða hvað sem þeir heita nú samkvæmt nýju flokkuninni, það sem áður voru þjóðbrautirnar, þar eru gífurlega mikil verkefni óunnin í öllum kjördæmum landsins. Það er mjög langt malarvegakerfi í misgóðu og því miður yfirleitt í slöku ástandi í svo til öllum, ef ekki öllum kjördæmum nema þá Reykjavík, þar sem mikil vinna er eftir.
    Þegar verið er að leggja vegáætlanir og langtímaáætlanir þá eru menn að reyna að skoða verkefnið í heild sinni, forgangsraða með heildina í huga. En tillöguflutningur, skúffuflutningur, af þessu tagi mundi auðvitað hafa það í för með sér að menn einblíndu á einhverja tiltekna þætti, t.d. út frá númeri viðkomandi vegar. Af því að einn vegur væri hringvegur þá væri hann sem sagt í einhverjum öðrum flokki og allt annars eðlis að ráðstafa fé í hann heldur en hina. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson: Treystir hann sér til að skrifa upp á áherslu af þessu tagi, t.d. fyrirvaralaust gagnvart Austurlandi, svo að ekki sé nú talað um vegamálunum í heild sinni á landsvísu, því við erum auðvitað þingmenn á Íslandi, ekki satt, ekki bara hver í sínu kjördæmi? (Forseti hringir.) Var hv. þm. e.t.v. pent að segja sig frá þessari tillögu?
    ( Forseti (GunnS): Ég verð að vekja athygli hv. þm. á því að tíminn er úti.)
    Hæstv. forseti. Þegar maður er í síðustu setningunni þá er nú ekki venjan að umburðarlyndir forsetar láti eins og vitlausir menn þó að maður klári hana.
    ( Forseti (GunnS): Ég bið hv. þm. að hlýða forseta.)