Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:28:21 (1376)


[15:28]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er algerlega rangt að ég hafi sagt það í minni ræðu að tillöguflutningur af þessu tagi væri einsdæmi. Það hafa sjálfsagt fjöldamargar slíkar tillögur komið fram. Hins vegar varðandi

stefnumótun í vegamálum þá finnst mér eðlilegt að þingmenn vinni þar undir merkjum vegáætlunar eins og ég hef tekið fram. Aðalatriðið finnst mér í þessu máli og öðrum, hvað höfum við mikið fjármagn til vegamála næstu árin? Ég spyr hæstv. samgrh. úr því að það ber svo vel í veiði að hafa hann hér. Hvenær ætlar hann að leggja til að þessi átaksverkefni verði greidd til baka? Ég vil aftur vinna að stefnumótun, m.a. í jarðgangamálum, í samráði við heimamenn og við þingmenn Austurl. erum að því. Það finnst mér eðlileg afstaða. Þó að formlega valdið sé ekki í höndum sveitarstjórnarmanna þá finnst mér það eðlilegt og sjálfsagt að vinna að þessum flókna og erfiða málaflokki í samráði við þá. Það hefur alltaf verið mín afstaða í þeim málum. En spurningin er, hvað höfum við mikið fjármagn til vegamála næstu árin? Getum við sett kraft í það að klára hringveginn? Hvað ætlar hæstv. samgrh. að leggja áherslu á ef hann yrði nú áfram í því embætti, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki og það verði komin hér önnur ríkisstjórn? En eigi að síður, hæstv. samgrh. þarf áreiðanlega að svara slíkum spurningum á næstu mánuðum.