Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:37:06 (1381)


[15:37]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það fór eins og mig varði að hv. þm. hafði ekki þrek í sér til að lýsa því yfir, þessi mikli áhugamaður um jarðgöng á Austurlandi, hvort hann hugsaði sér að jarðgöngin á milli Vopnafjarðar og Jökulsárhlíðar yrðu á undan eða jarðgöngin til Mjóafjarðar frá Seyðisfirði, Héraði og Neskaupstað. Með því er hann búinn að gera sína tillögu og tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, marklausa. Botninn er suður í Borgarfirði. Hann gerir sér ekki grein fyrir því í hvaða röð hann vill fara í þessar framkvæmdir. Eins og hann talaði hér verða ummæli hans ekki skilin öðruvísi en svo að hann sé þeirrar skoðunar að það megi bara dragast eins og verkast vill hvenær samgöngur takast á milli Norðurlands og Austurlands. Það var auðvitað mjög erfitt að eiga við það mál í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var enginn áhugi fyrir því þá og það var alltaf meiningin þá að þær vegabætur yrðu látnar bíða næstu aldar. Þetta vita hv. þm., þetta vita bæði Austfirðingar og Norðlendingar. Hins vegar hafa viðbrögðin þar fyrir austan og norðan orðið mjög sterk. Þó skilst mér að vísu að flokksbróðir hv. þm. Steingríms Sigfússonar, sem sumir segja að keppi um 2. sæti á listanum fyrir norðan, sé búinn að gauka frá sér einhverri tillögu svona til að kitla efsta mann á lista Alþb. þar í héraði.
    Ég verð nú að segja það, hv. þm., að ég get ekki skilið að ég beri ábyrgð á öllum skuldahrauknum í sambandi við flóabátana þó skuldirnar séu greiddar af vegafé. Það verður að borga þessar skuldir, þær verða ekki borgaðar nema með skattpeningum. Það er bara að taka úr einum vasa í annan að halda því fram að það breyti eðli skuldbindinga síðustu ríkisstjórnar hvort þær eru greiddar úr Vegasjóði eða ríkissjóði. Aðalatriðið er að það þarf aðhald framvegis og með því að setja þetta undir samgönguþáttinn þá haga menn sér væntanlega skynsamlegar framvegis en þeir gerðu á síðasta kjörtímabili.