Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:40:25 (1383)


[15:40]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. segir að þeir sem kaupa bensín og borga skatta þá leiðina hafi bótalaust tekið við þeim skuldbindingum sem voru á ríkissjóði. Þessir sömu menn greiða skattana í ríkissjóð. Það eru nákvæmlega sömu bökin sem bera það. Það skiptir ekki nokkru máli, þetta er algjör útúrsnúningur. Hitt kom fram, eins og ég sagði, hann hefur nú komið hér upp tvisvar og í hvorugt skiptið gert upp á milli jarðgangaleiðanna, hvorugt skiptið. Nú ætlar hann að taka sér umhugsunarfrest. Þetta er kannski vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er ekki í salnum svo hann getur ekki spurt hann ráða í þessu efni. En þetta liggur fyrir. Hv. þm. veit ekki hvort hann vill láta jarðgöngin á milli Vopnafjarðar og Jökulsárhlíðar eða jarðgöngin til Seyðisfjarðar vera á undan. Samt liggur tillagan fyrir hér í þinginu. En það má ekki skýra frá því fyrr en seinna, fyrr en þingmaðurinn er búinn að átta sig á því, (Gripið fram í.) eftir að hann er búinn að lesa tillöguna aftur yfir og eftir að hann er búinn að heyra framsöguræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það verður að bíða þess tíma hvenær hann svarar þessari spurningu. ( SJS: Forseti á að ávíta ræðumann.)