Skattlagning tekna blaðsölubarna o.fl.

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:58:57 (1389)


[15:58]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. er nú alveg snillingur í því að snúa hlutunum við. Þetta bara enn ein staðfestingin á því. Hún hefur auðvitað áður komið fram því skattastefnu Sjálfstfl. hefur auðvitað verið algerlega snúið við í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem skattlækanirnar voru í algleymingi hjá þeim flokki fyrir síðustu kosningar en allt hefur gengið á annan veg. Ég hélt að hæstv. fjmrh. væri að koma hér til þings og tilkynna að það hefði orðið breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum með því að nú ætti að fara eftir stefnu Sjálfstfl. og lækka skatta. Nei, það er síður en svo. Nú á að hækka barnaskattana til viðbótar við sjúklingaskattana og til viðbótar við lyfjaskattana sem hafa verið lagðir á sjúklinga og þá sem minnst mega sín í samfélaginu.
    Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Er nú ekki nóg komið, hæstv. fjmrh., af því að elta uppi í samfélaginu þá einstaklinga sem verst eru staddir og skattleggja þá alveg sérstaklega eins og sjúklingana, eins og öryrkjana, eins og ellilífeyrisþegana, eins og einstæðu foreldrana og nú börnin? Er þetta sú skattastefna, hæstv. fjmrh., sem Sjálfstfl. boðaði fyrir síðustu kosningar þegar hann lofaði þjóðinni og þeim sem ætluðu að kjósa flokkinn að skattur einstaklinganna ætti að vera 35% ef Sjálfstfl. kæmist til valda en er nú

orðinn 42%? Lofaði Sjálfstfl. því fyrir kosningar að það ætti að skattleggja börnin sérstaklega, það ætti að lækka barnabæturnar, það ætti að lækka persónuafsláttinn, það ætti að lækka vaxtabæturnar? Nei, hæstv. fjmrh., það hefði verið nær undir þessum kringumstæðum að tilkynna það úr þessum ræðustól að það ætti að halda óbreyttu fyrirkomulagi að vera ekki að eltast við blessuð börnin í þjóðfélaginu.